„Börn eru svo miklir frumkvöðlar“

Jenný bjó til vöfflur á Degi leikskóla sem haldinn er …
Jenný bjó til vöfflur á Degi leikskóla sem haldinn er hátíðlegur víðs vegar um landið. Hún segir börn einstök í eðli sínu, heiðarleg og blátt áfram. Þess vegna sé gaman að starfa með þeim. Ljósmynd/Aðsend

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir starfar sem þróunarfulltrúi leikskóla Hafnarfjarðar. Hún segir það mikinn heiður að hafa tekið þátt í Degi leikskólans í gær, enda megi rekja hann til frumkvöðla leikskólakennara sem stofnuðu samtök um félagið árið 1950.

„Í mínum huga eru þetta miklar hetjur sem báru hag barna í brjósti og vildu leggja sitt af mörkum í að veita börnum gæðamenntun í gegnum leik – sem öll börn eiga skilið að njóta.“

Jenný segir að nær öll börn í landinu séu á leikskólum, eða yfir 90% barna.

„Það er að mínu mati með ólíkindum hvað gæðin í leikskólastarfinu eru mikil í dag, miðað við þá staðreynd sem blasir við okkur á þessu sviði sem er lágt hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara. Leikskólastarfið er þróað og gæðamikið, en ef við gætum staðið við lögbundinn samning um að hafa 2/3 starfsmanna fagmenntaða þá værum við að upplifa drauminn að mínu mati.“

Leikskólakennari af Guðs náð

Jenný starfaði sjálf sem leikskólakennari í 21 ár áður en hún tók við þeirri stöðu sem hún gegnir í dag fyrir Hafnarfjarðarbæ. Hún segist vera leikskólakennari af Guðs náð. En starfið sé einstaklega gefandi og fallegt.

„Börn eru svo einstök. Það sem stendur upp úr frá árum mínum sem leikskólakennari eru öll þau kærleiksríku samskipti sem maður hefur átt við börnin í gegnum starfið. Börn eru svo skemmtileg. Þau eru svo miklir frumkvöðlar. Þau eru uppfinningamenn og konur. Þau eru heiðarleg og segja allt sem þeim finnst frá hjartanu sínu. Þau eru ekki meðvirk heldur blátt áfram. Það sem heillar mig einnig svo mikið við börn eru hvað þau bera mikla virðingu hvort fyrir öðru. Líkt og í morgun, þegar ég horfði á þau í hátíðarsal, sá ég hvernig þau báru virðingu fyrir rými hvort annars. Ef einhver kann að bera virðingu, að mínu mati, þá eru það börnin.“

Jenný segir starf þróunarfulltrúa í leikskóla vera að stórum hluta lögboðið eftirlit sveitarfélaga, að leikskólarnir séu að sinna því sem þeim beri að sinna. „Ég sé einnig mikið um starfsmannamál, er með alla faglega umsýslu í málefnum leikskólanna. Eins er ég tengiliður á milli leikskóla og rekstraraðila. Hef umsjón með innritun barna. Fer fyrir málaflokkinn um símenntun og endurmenntun leikskólakennara og geri tillögur um nýjungar í skólastarfi, sé um áætlunar- og skýrslugerð og fleira í þeim dúrnum.“

Margt nýtt verið að þróa í dag

Hvaða nýjungar eru áhugaverðar fyrir börnin okkar í leikskólum í dag?

„Það sem mér finnst hvað áhugaverðast eru starfsaðstæður, fyrir bæði börnin og leikskólakennarana. Það hvernig við erum að reyna að auka rýmið og fækka á móti börnum sem eru á hverjum leikskóla. Þannig búum við til afslappaðra umhverfi fyrir börnin. Þau fá meira rými til leiks og athafna. Eins erum við að leita leiða til að stytta vinnutíma fyrir starfsfólk leikskólanna, með von um að hann styttist fyrir foreldrana líka. Við erum einnig að setja núvitund inn í skólastarfið og eru leikskólar í Hafnarfirði sumir hverjir að þróa það lengra og verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu. Eins er einn leikskólinn okkar kominn langt í því að þróa útikennslu fyrir börnin. Læsisverkefnið, Lestur er lífsins leikur, er hafnfirskt verkefni sem allir leikskólarnir eru þátttakendur í, enda þurfum við að efla læsi í víðum skilningi markvisst bæði í leikskólum og grunnskólum landsins.

Öll börn eiga rétt á því að fá að læra …
Öll börn eiga rétt á því að fá að læra í gegnum leik. Að læra utan dyra er skemmtilegt verkefni sem er verið að þróa um þessar mundir á leikskóla í Hafnarfirði. mbl.is/Thinkstockphotos

Svo er eitt sem mig langar að nefna sem er mikilvægt verkefni sem tengist því að börnin á leikskólum í Hafnafirði sem dæmi eru mörg hver af erlendum uppruna. Yfir 11% íbúa Hafnarfjarðar eru af erlendum uppruna og eru því mörg börn sem flytja hingað. Það skapar mikla fjölbreytni í leikskólalífinu og eru leikskólarnir sífellt að þróa sig áfram hvað varðar fjölmenningu og mæta þessum hópi barna á sem bestan hátt. Þannig að öllum börnum líði vel á leikskólanum sínum.“

Jenný á þá ósk heitasta að fleiri aðilar sjái hag sinn í því að starfa með börnum á leikskólum. Hún segir leikskólakennaranámið heilla, sér í lagi þar sem nemar geta verið með námssamninga og fá þá greitt full laun á meðan þeir eru í námi. „Ég vil hvetja alla til að fara í leikskólakennaranám. Þú getur verið í námi á launum og vinnur samhliða náminu á leikskóla. Þetta er frábært nám og skemmtileg vinna og þú verður aldrei atvinnulaus með þessa menntun,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert