Sigríður Þóra færði flugfarþegum gjöf

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir með soninn Úlf Orra sem er fjögurra …
Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir með soninn Úlf Orra sem er fjögurra mánaða. Ljósmynd/einkaeign

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir vildi tryggja frið um borð í flugvél á leið til Tenerife og var með gjafir handa farþegum í sárbætur ef sonur hennar yrði mjög órólegur á leiðinni en hann er fjögurra mánaða. Sigríður Þóra var á ferðalagi með Andreu Eyland sem á von á sínu fimmta barni en landsmenn þekkja þær því þær gerðu þættina Líf kviknar sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans Premium. 

„Þetta kom nú þannig til að kærastinn minn og pabbi sonar míns tilkynnti mér það nokkrum dögum fyrir brottför að hann ætlaði sér að gera svona fyrir okkur til að hafa með. Hann getur verið mjög sniðugur og hugmyndaríkur og er líka mjög duglegur að framkvæma það sem honum dettur í hug. Kvöldið fyrir brottför skaust ég svo út í búð og þegar ég kom til baka voru kærastinn minn og systir að gera pakkana klára. Við vorum tvær vinkonur að ferðast saman hvor með sinn soninn, báða ungabörn. Vinkona mín er margra barna móðir og er 20 vikur gengin með enn eitt. Þar er því á ferð mikill reynslubolti sem reyndist mér gríðarlega vel í þessu fyrsta ferðalagi mínu með frumburð minn,“ segir Sigríður Þóra og játar að hún hafi óttast að sonurinn yrði pirraður á leiðinni. 

Bréfin gerast ekki mikið krúttlegri.
Bréfin gerast ekki mikið krúttlegri.

„Ég var svolítið stressuð fyrir fram þar sem Úlfur Orri sonur minn hafði verið með kvef í nokkra daga fyrir brottför en Andrea mín hélt ró sinni - og minni - allan tímann. Á leiðinni út hitti það þannig á að ég þekkti fjölskylduna sem sat fyrir aftan okkur og þau voru svo almennileg að hjálpa mér aðeins með barnið mitt og brosa framan í hann. Þau fengu gjafapakkana og voru ánægð með en Úlfur Orri var nú svo góður allt flugið svo þau þurftu alla vega ekki að notast við eyrnatappana.

Á leiðinni heim var minn maður ekki eins kátur þegar við vorum að koma okkur fyrir um borð, var sveittur, svangur og þreyttur. Þá gaf ég farþegunum fyrir framan mig og við hlið sína pakka og vakti það mikla kátínu. Reyndar var það nú svo að í þessum flugum var nánast eingöngu fjölskyldufólk og eldra fólk að ferðast. Þolinmæðin var því mikil fyrir. Maðurinn fyrir framan mig sagði við mig „ég á fjögur börn sjálfur og veit því vel hvernig er að ferðast með lítil börn“ um leið og hann þakkaði kærlega fyrir sig. En sonur minn, ljúflingsbarnið mitt, sofnaði nú svo í fangi mínu í flugtaki og svaf nánast allt flugið svo þessir sniðugu gjafapakkar voru í raun óþarfir í þetta sinn,“ segir hún.

Sigríður Þóra segir að henni hafi liðið betur að hafa þá í töskunni. 

„Ég viðurkenni að mér leið einhvern veginn samt betur að vita af þeim í töskunni og geta brugðið á það ráð að dreifa þeim ef sonur minn hefði verið órólegur. Þó ekki nema bara til að létta andrúmsloftið. Ég hugsa alla vega að við munum hafa svona meðferðis í komandi ferðalögum. Úlfur Orri varð fjögurra mánaða daginn fyrir brottför og Björgvin Ylur sonur Andreu vinkonu minnar varð 9 mánaða meðan við vorum úti. Við áttum yndislegan tíma og Tenerife er fínasti staður fyrir ungabörn og fjölskyldur. Við gerðum nú svo sem ekki mikið utan þess að njóta sólarinnar í sundlaugagarði hótelsins. Kíktum þó aðeins niður á strönd og nýttum skýjaða daginn til að kíkja aðeins í búðir, eins og sönnum Íslendingum sæmir. Svo vorum við bara þreyttar mæður sem fóru snemma að sofa.“

Andrea Eyland, vinkona Sigríðar Þóru, á von á sínu fimmta barni en hún á líka þrjú stjúpbörn og því var það mikil upplyfting að komast í sól og hita á þessum árstíma. 

„Andrea með bumbuna út í loftið og son sem vaknaði 6 og ég að vakna nokkrum sinnum á nóttu til að gefa vorum sáttar við að vera komnar í rúm fyrir kl. 22 nánast öll kvöld. Það þarf náttúrulega að breyta þessu orði, fæðingarorlof, því orlof er það svo sannarlega ekki. En mikið gerir það nú gott að eyða dögunum heldur í sól og hlýju þar sem börnin geta verið kát og glöð á táslunum,“ segir hún ánægð með ferðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert