Nýfæddur afi

Valgeir Magnússon er nýorðinn afi og talar um þá lífreynslu …
Valgeir Magnússon er nýorðinn afi og talar um þá lífreynslu í sínum nýjasta pistli.

„Stórkostleg tíðindi bárust um daginn þar sem nýtt ráðuneyti varð til á Íslandi, barnamálaráðuneytið. Þegar ég var barn, þá hefði þetta verið eitthvað sem gæti komið fyrir í grínþætti en ekki í raunveruleikanum. En hugmyndir okkar um lífið og því sem er mikilvægt hafa sem betur fer þroskast og breyst á þeim 50 árum frá því ég fæddist. Hvað er að verða foreldri og hvernig eru kröfur samfélagsins um foreldrahlutverkið? Hefur samfélagið þroskast jafnt og eru innviðirnir í takt við samfélag sem hefur þann þroska að búa til sérstakt barnamálaráðuneyti?“ segir Valgeir Magnússon í sínum fyrsta pistli á Smartlandi: 

Afleiðing af því að ég fékk stórkostlegt hlutverk nýlega, að verða afi, fór ég að skoða betur hvað hefur breyst frá því að ég og kona mín stóðum í því að verða foreldrar.

Þegar ég fæddist þá fóru foreldrar mínir á Landspítalann, fæðingardeild, með sjúkrabíl. Eftirvænting þeirra eftir því að verða foreldri í fyrsta skipti var mikil. En þegar á fæðingadeildina kom var mömmu rúllað inn en hurðinni skellt á pabba sem stóð úti á skyrtunni og reyndi að banka til að fá að hringja á leigubíl. En það var ekki hægt. Honum til happs þá fæddist ég í júní svo hann gat gengið heim í skaplegu veðri. 23 árum síðar varð ég faðir í fyrsta skipti og við, þáverandi hjónaleysin, gengum í gegnum mjög erfiða fæðingu sem stóð langt inn á fjórða sólarhring. Á sama tíma var ég í prófum í Háskólanum og var því ósofinn þegar ég átti að mæta í próf. Fór ég því til deildarstjóra til að fá mig skráðan í sjúkrapróf. „Nei Valgeir minn, þú varst ekki að eignast barn, heldur konan þín. Þú annaðhvort mætir í þetta próf á eftir eða verður skráður fallinn,“ tilkynnti hún mér. Ég var með mjög góðar einkunnir og hafði ekki áhuga á að fá skráð á mig fall í prófi svo ég gaf mig ekki. Fór á fund rektors sem brosti og skildi ekki af hverju þetta var svona mikið mál og skipaði fyrir um að ég yrði skráður í sjúkrapróf. Svona voru tímarnir hvað varðar kynjahlutverk við að verða foreldri þá, en hvað hefur breyst? Er litið á föðurinn sem mikilvægan þátt í því að verða foreldri í dag?

Ég fylgdist aðeins með því núna þegar sonur minn og tengdadóttir urðu foreldrar ásamt því að við hjónin kynntum okkur hin ýmsu mál sem við höfðum ekki spáð í áður til að geta aðstoðað nýbakaða foreldrana eins og við gátum án þess að skipta okkur of mikið af. Ég ætla að skrifa um þennan samanburð núna í nokkrum pistlum.

Eitt af því sem sló mig var að þjónusta við verðandi foreldra skuli enn heita mæðravernd. Það getur ekki verið í þágu barnsins að aðeins annað foreldrið fái vernd á þessum mikilvæga tíma sem er að verða foreldri. Af hverju heitir þjónustan ekki foreldravernd? Ef ganga þarf út frá foreldri almennt. Jafn þáttur foreldra er lykilatriði fyrir gott samlíf á heimili. Skilaboð heilbrigðiskerfisins til verðandi foreldra ættu þá ekki að hefjast á því að annað foreldrið sé tekið fram yfir hitt í mikilvægi umönnunar. Þegar ég fæddist þá var pabbi minn óæskilegur skv. heilbrigðiskerfinu. Þegar okkar börn fæddust þá hafði það breyst í að ég var í aukahlutverki og í besta falli stuðningshlutverki. Nú hátt í 30 árum síðar hefur það lítið breyst hvað það varðar. Feður upplifa sig í algjöru aukahlutverki í allri fræðslu og aðstoð við verðandi foreldra. Móðirin fær sérkennslu og alla athygli kerfisins á meðan faðirinn er ofsa duglegur að mæta og vera með. Þá er ég ekki að gagnrýna ljósmæðurnar sem leggja sig fram heldur er grunnhugsun þjónustunnar út frá heiti hennar sem er mæðravernd.

Einu öðru komst ég að þegar ég skoðaði af forvitni minni hvað hafði breyst frá því ég var aukaleikari í því að konan mín varð móðir. Það er að nú hefur komið í ljós að 8,4% feðra fá fæðingarþunglyndi en 12% kvenna. Það er skimað eftir fæðingarþunglyndi hjá mæðrum en ekki feðrum. Það er til leið um hvað gerist ef þær eru með þunglyndi en ekki fyrir feðurna. Þeir eiga bara að harka af sér og hætta þessu væli eins og við værum enn stödd á síðustu öld. Eins komst ég að því að samkvæmt öllum nýlegum rannsóknum getur vel undirbúinn og virkur faðir núllað út slæm áhrif sem þunglyndi móður getur haft á barnið. En engin slík forvörn eða aðstoð við verðandi ferður er til. Í raun er ekkert til fyrir verðandi feður annað en að tala við afana og ömmurnar til að fá ráð um hvað er að verða pabbi. Það er nefnilega heilmikið mál og hefur alltaf verið heilmikið mál. Eins og það er heilmikið mál að verða móðir. Þá á eftir að taka inn öll þau form sem eru til í foreldrahlutverkum þar sem samsetning fjölskyldna er alls konar.

Að það verði til góðir og vel undirbúnir foreldrar ætti að vera sameiginlegt verkefni, ríkis, sveitarfélaga, heilbrigðiskerfisins og atvinnulífsins. Mikið hlakka ég til að sjá hvort hið nýja barnamálaráðuneyti muni verða til þess að barnið eigi rétt á að eiga foreldra sem eru jafn vel búnir undir foreldrahlutverkið sama hvers kyns þeir eru. Það væri frábær gjöf til ófæddra barna framtíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert