Ráðlagt að fela óléttuna fyrstu 27 vikurnar

Brigitte Nielsen er fimm barna móðir.
Brigitte Nielsen er fimm barna móðir. mbl.is/AFP

Fyrirsætan og leikkonan Brigitte Nielsen eignaðist sitt fimmta barn í fyrra, 54 ára gömul. Barnið kom loksins eftir meira en heilan áratug af misheppnuðum tæknifrjóvgunum. Hún á nú dótturina Fridu með eiginmanni sínum, Mattia Dessi, sem er 15 árum yngri en hún. 

Í viðtali við The Guardian segir Nielsen að henni hafi verið sagt að líkurnar á því að hún gæti eignast barn væru 2,5 prósent. „Ég vil gera það þangað til það eru engir fósturvísar eftir,“ segir Nielsen. „Einhver hlýtur að vinna í lottóinu.“

Tæknifrjóvgunarferlið var hvorki auðvelt né ódýrt. „Þú ert á fullt af lyfjum. Þetta er mjög erfitt. Hormónar virka á misjafnan hátt á mismunandi konur [...] Þú heldur alltaf að þú verðir ólétt en oftast kemur símtalið og það hljómar svona: „Mér þykir það leitt.“ Það er hrikalegt,“ segir Nielsen. 

Þegar Nielsen varð ólétt af dóttur sinni sáu þau hjartslátt eftir fimm vikur og fóru svo í skoðun í hverri viku. Læknirinn mælti með því að hún myndi ekki segja neinum frá þunguninni fyrr en eftir 27 vikur. Þá væru 98 prósent líkur á því að barnið myndi lifa af þótt það væri á spítala. Hún sagði ekki einu sinni móður sinni frá þunguninni. 

View this post on Instagram

Dream, never stop Believing it ♡ #dreams #babygirl

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on Nov 7, 2018 at 10:43am PST

Nielsen vakti mikla athygli þegar barnið kom í heiminn enda fáar konur sem fæða barn á sextugsaldri. Segir hún margar konur hafi þakkað henni fyrir að hafa gefið sér hugrekki. Eins veit hún að margir gagnrýna hana fyrir að eiga barn svona gömul en henni finnst það ekki koma neinum öðrum við. Mjög margir menn eiga börn seint á lífsleiðinni. 

Stjarnan segist elska að vera gömul móðir og hún sé mun betur í stakk búin til þess að takast á við verkefnið en þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn tvítug. Hvetur hún fólk til þess að huga að starfsferlinum, ferðast og elska áður en það eignast barn. Barneignir geta beðið þótt fólk þurfi ekki endilega að eignast börn 54 ára. 

Brigitte Nielsen.
Brigitte Nielsen. AFP
mbl.is