Vill búa til fjölskyldu vegna blankheita

mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjar mbl.is. Hér fær hún spurningu frá konu sem vill fara að búa með kærastanum. 

Sæl,

Ég er að reyna að búa til nýja fjölskyldu með nýjum manni. Við erum frekar illa stödd fjárhagslega og því liggur okkur á að fara að búa. Málið er að börnin okkar hafa aldrei hist. Hvernig myndir þú kynna börnin þannig að þetta geti gengið sem hraðast fyrir sig? P.s. við erum bæði að borga leigu og það myndi muna mjög miklu ef við þyrftum bara að borga eina leigu og börnin eru þrjú allt í allt. Ég á eina sjö ára dóttur og hann á tvo unglingsdrengi.

Kveðja, S

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

 

Sæl kæra S

Sæl kæra S og takk fyrir bréfið. Að mynda nýja fjölskyldu er eitthvað sem margir þekkja og undirrituð þar á meðal. Þegar tvær fjölskyldur sameinast í eina og verða að stjúpfjölskyldu kallar það á mikla aðlögunarhæfni allra meðlima. Margir siðir, venjur, samskipti og tengsl munu breytast. Ástfangið fólk á auðvelt með að sjá fyrir sér möguleikana sem felast í því að verða fjölskylda, hins vegar fylgja margar áskoranir því að byggja upp stjúpfjölskyldu, sem krefst þess að grunnurinn þarf að vera vel byggður.

Tími

Þú nefnir í bréfi þínu að fjármálin séu ekki sterk og þið viljið flýta ferlinu vegna þess. Hins vegar, kæra S, get ég fullvissað þig um að til lengri tíma litið er mikilvægara að gefa ykkur lengri tíma. Það þarf að taka tillit til margra þátta þegar byggja á upp heilbrigt fjölskyldukerfi. Leyfið öllum kynnast og aðlagast hugmyndinni um að þið eruð að verða ný fjölskylda sem munuð deila saman rými.  Eftir að þið flytjið saman mun taka tíma að slípast saman. Rannsóknir hafa sýnt að það tekur nokkur ár fyrir stjúpfjölskyldu að komast á þann stað að þeir sem í henni eru upplifi fjölskyldueiningu - að þeir tilheyri henni.

Byrjið á léttum nótum

Ég myndi hvetja ykkur til að byrja rólega og á léttum nótum til að mynda með því að fara í keilu,  bíó eða gera annað sem hefur skemmtanagildi og smám saman er hægt að hafa samverustundir lengri. Fyrstu kynni skipta máli og geta haft mótandi áhrif á hversu opnir einstaklingar verða í framhaldinu. Til að aðlögunin heppnist vel þurfa allir að fá að vera sem mest í sínum þægindahring. Takið því lítil skref og ég myndi ráðleggja ykkur að hafa fyrstu skiptin eingöngu tengd ánægju.

Opin samtöl

Eigið opin samtöl við börnin ykkar, hlustið eftir hvað þau upplifa og hjálpið þeim að taka skrefin. Þau þurfa að venjast hugmyndinni um að eignast stjúpsystkini og stjúpforeldri. Algengar upplifanir barna í þessari stöðu geta verið:

  • Að upplifa sig út undan eða einangruð.
  • Að finnast eins og aðrir séu að taka stöðu þeirra (hvort heldur sem það er stjúpforeldrið eða stjúpsystkini).
  • Að finna ekki traust í nýjum tengslum.
  • Að finnast eins og það sé pressa að samþykkja þessar miklu breytingar áður en þau eru tilbúin.

Auðvitað er upplifun hvers og eins afar persónubundin og það sem einum getur þótt erfitt getur öðrum þótt ánægjulegt. Það er því gott að hlusta og styðja börnin á þeim stað sem þau eru hverju sinni.

Skapið smátt og smátt grunninn

Gefið ykkur tíma til að skapa nýjar hefðir sem fjölskylda. Það er hægt að hafa pizzukvöld einu sinni í viku eða eitthvað sem þið munuð gera og verður að ykkar hefðum og fjölskyldueinkennum. Það getur verið skemmtilegt að skapa fjölskyldureglur öll saman. Hluti af sterkum grunni er einnig að þið sem par ræðið saman. Það getur verið gott að hafa í huga að stundum er leiðin til að nálgast ágreining (ef hann kemur upp) samkennd og skilningur í stað þess að gera tilraunir til að leysa alla hluti.

Gangi ykkur vel í nýju og spennandi verkefni.

Kær kveðja,
Ragnhildur Birna fjölskyldufræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is