Snilldarráð fyrir foreldra frá Esther Perel

Samkvæmt Perel er gott og hollt fyrir börn að kynnast …
Samkvæmt Perel er gott og hollt fyrir börn að kynnast fleirum en bara foreldrum sínum náið. mbl.is/Thinkstockphotos

Sambandsráðgjafinn og samskiptasnillingurinn Esther Perel segir að börn reyni á rómantíkina. Allir foreldrar ættu að vera meðvitaðir um það. Grein um þetta birtist í Man Repeller. Eftirfarandi ráð gefur Perel fyrir foreldra sem vilja vera í góðu sambandi þrátt fyrir að eiga börn saman. 

Trúðu því að þú eigir skilið gott samband við þig og maka þinn

Samkvæmt Perel verður foreldrum að finnast þeir eiga skilið að vera í góðu sambandi. Líkt og þeim finnst þeir eiga skilið að fara í leikfimi. Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að hafa metnað á þessu sviði. Enda segir Perel að óheilbrigt sé að ætlast til þess að börn geti svalað öllum þörfum foreldra sinna. 

Sem dæmi um þetta fór Perel sjálf aldrei á íþróttaleiki hjá börnum sínum á laugardögum, því laugardagar voru hennar dagar. Börnin höfðu þá ákveðna hluti að gera á þessum degi og hún líka. Hún spurði þau seinna hvort þeim hefði fundist eins og hún hefði ekki verið að sinna þeim vegna þessa og þau sögðu að svo væri ekki. Þeim hefði aldrei liðið þannig með þetta atriði. 

Perel spyr: Af hverju ætti allt sem fram fer um helgar að snúast um börnin?

Farðu út reglulega án þess að þurfa að koma heim á sérstökum tíma

Að mati Perel þykir henni fráleitt að foreldrar séu að koma heim á sérstökum tíma þó að um börnin gildi ákveðnar reglur tengdar tíma. Hún segir ákveðið frelsi tapað með því að foreldrar setji sig undir sama hatt og börnin. Annaðhvort ættu foreldrar að finna einhvern til að taka börnin sem dæmi á tveggja mánaða fresti eða fá einhvern til að gista. Þannig geta foreldrar fundið til þessarar frelsistilfinningar sem þau höfðu áður en börnin fæddust. 

Búðu til samfélag í kringum ykkur

Mikið af því sem Perel gerir er að setja spurningarmerki við það sem venja þykir að gera í samfélögum. Það sem hún bendir reglulega á er að einstaklingshyggjan í dag er ekki að aðstoða sambönd í að virka. 

Perel og eiginmaður hennar hafa alið börnin sín upp í New York, í fjarlægð frá stórfjölskyldunni sem er búsett í Evrópu. Þau voru reglulega með stór matarboð þar sem þau buðu fullt af fólki í mat. Giftum vinum sínum, einstæðum vinum, fólki með börn og fólki sem átti ekki börn. Það var ekkert fínt við þessi boð, heldur voru þau gerð meira til að hafa fólk í kringum sig. Hægt var að koma með börn í þessi boð og þau máttu gista. Þannig mynduðu börn Perel sterk tengsl við fleira fullorðið fólk en einungis foreldra sína sem þau hafa haldið tryggð við enn þá. 

Að mati Perel þarf heilt samfélag til að láta sambönd virka. Ekki síst til að aðstoða fólk með uppeldi og fleira. 

Gleymdu stefnumótum á kvöldin með lítil börn

Margir eru fastir í þeim vana að fá pössun á kvöldin til að fara út að borða þegar börnin eru lítil. Að mati Perel ætti fólk að gleyma þeirri hugmynd og fókusera betur á morgna og hádegi. 

Perel segir að hægir langir morgnar og róleg hádegi geri svo mikið meira fyrir foreldra heldur en að fara út á kvöldin þegar allir eru orðnir þreyttir. Umræður og athyglin er svo miklu betra fyrri hluta dagsins. 

Aðstoð með börnin er fyrir þig ekki börnin

Perel segir að ef þú hefur tækifæri til að ráða aðstoð skyldi líta á aðstoðina sem aðstoð við foreldrana en ekki börnin. Foreldrar þurfa aðstoðarfólk. Einhvern sem býr til mat fyrir þau og tekur til og svo framvegis. Þannig geta foreldrarnir verið heima eftir vinnu og sinnt börnunum sínum. Þannig ættu foreldrar alltaf að ráða einhvern sem þeir treysta fyrir sínum verkum og sjá sjálfir um börnin, í stað þess að vera að ráða einhvern til að leika við börnin. 

Finndu stuttan tíma reglulega til að hitta fólk

Perel er á því að foreldrar þurfi ekki alltaf að taka heilan dag fyrir sig, kvöld eða helgi. Þegar foreldrar hafa lokið við dagsverkin sín geta þeir farið og hitt einhvern í nágrenninu og fengið sér einn drykk í klukkustund. Foreldrar þurfa eins ekki alltaf að vera með hvort öðru. Að finna einfaldar leiðir til að koma utanaðkomandi orku inn á heimilið er hollt fyrir alla. Þannig er hægt að byggja upp heilbrigðara andrúmsloft á heimilinu, allir hafa um eitthvað nýtt að tala og geta fært skemmtilegar fréttir af fólki sem þeir hitta reglulega. Það er ekki nóg að tala bara um hvort annað og börnin allan daginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert