Á átta ára barn að þvo þvott?

Átta ára gömul börn geta vel hjálpað til með þvottinn ...
Átta ára gömul börn geta vel hjálpað til með þvottinn á heimilinu. mbl.is/Thinkstockphotos

Það muna margir foreldrar eftir því að hafa þurft að taka til hendinni heima hjá sér sem börn. Mörg börn og ungt fólk í dag hefur ekki þurft að sinna jafnmörgum heimilisstörfum en ástæðan er ekki endilega sú að það sé óæskilegt. Deborah Gilboa er sérfræðingur í þroska barna og hún hefur gefið frá sér nokkur ráð um hvað börn eiga að gera á heimilinu. Að hennar mati er ekki of snemmt að setja í þvottavél átta ára. 

18 mánaða til þriggja ára 

Á þessum árum er gott að leyfa börnum að vera með í tiltekt til dæmis með því að nota fægiskófluna þegar gólfið er sópað. 

Fjögurra til fimm ára

Á þessum aldri ættu börn að geta tekið til eftir sig. 

Sex til átta ára

Gilboa mælir með að börn sex til átta ára fái ákveðin heimilisverk til að sinna. Dæmi um það sé að sinna ákveðnu eldhúsverki eða sjá um gæludýr. Hún segir betra að láta börn gera eitthvað oft í stað verkefnis sem er gert einu sinni í viku. Hún nefnir dæmi um sinn eigin son sem setti í þvottavél átta ára gamall.

Níu til 11 ára

Á þessum aldri ættu börn að geta tekist á við aðeins flóknari verkefni. Það gæti tekið tíma að kenna þeim en það er vel hægt og að lokum verður það til þess að létta undir með foreldrunum. 

12 til 13 ára

Gilboa segir þennan aldur vera frábæran til þess að tengja húsverkin við eitthvað sem þau njóta góðs af. Ef þeim finnst gott að borða getur þetta verið að undirbúa matinn. Eða ef þau vilja láta skutla sér eitthvað getur verið gott að láta sjá um bílaþrif. 

14 til 15 ára

Unglingar sem eru 14 og 15 ára geta séð um húsverk sem foreldrarnir þola ekki. Hún bendir á að unglingar á þessum aldri hafi áður fyrr unnið fyrir sér svo þeir geta vel tekið að sér eitthvað eins og að elda mat einu sinni í viku eða sinna erfiðari störfum. 

16 til 18 ára

Ef börn eru nógu gömul til þess að keyra er eins gott að undirbúa þau fyrir fullorðinslífið. Þau ættu að sinna verkefnum á borð við að elda, þrífa, hjálpa til með bílinn, þvo þvott eða borga reikninga. Stundum er auðveldara að láta börnin ekki taka þátt en það gagnast engum enda þurfa börn að undirbúa sig fyrir fullorðinslífið og geta það með því að taka þátt í fjölskyldulífinu. 

Börn geta byrjað á því að hjálpa til með heimilisþrifin.
Börn geta byrjað á því að hjálpa til með heimilisþrifin. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is