5 ára dóttirin neitar að sofna á kvöldin

Fimm ára íslensk stelpa sofnar aldrei fyrr en kl. 23.00 …
Fimm ára íslensk stelpa sofnar aldrei fyrr en kl. 23.00 á kvöldin. mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefsins. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur því dóttir hennar sefur allt of lítið. 

Sæl,

Ég er í miklum vandræðum með dóttur mína. Hún er fimm ára og sofnar aldrei fyrr en 23.00 á kvöldin. Það er sama hvað ég reyni, ekkert gengur. Þess má geta að hún er á leikskóla frá átta á morgnana til fimm á daginn og ætti því að vera mjög þreytt. Ég játa það alveg að barnið er mjög pirrað frá kvöldmat fram til 23.00 en þrátt fyrir það þá nær hún ekki að sofna. Hvað myndir þú gera?

 Kveðja, D

Ragnhildur Birna Hauksdóttir.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir.

Sæl kæra D

Takk fyrir spurninguna þína. Það er alveg ótrúlega oft sem ég hef rætt við foreldra sem eru í vandræðum með kvöldrútínu barna sinna. Það eru líka flestir sem ná árangri í að bæta hana með því að leggja sig fram við að breyta vanamynstrum. Án þess að hljóma leiðinleg þá verð ég að byrja á að segja: Búðu þig undir að breyta þinum mynstrum, ekki fara eingöngu fram á að dóttir þín breyti sínum.  

Við viðhöldum oft vanamynstrum án þess að átta okkur á því

Við erum gerð þannig að við gerum oft sömu hlutina á sama tíma, án þess að veita því sérstaka athygli. Við förum fram úr rúminu og rútínan okkar hefst, klæðum okkur oft í sömu röð og svo framvegis. Það er alveg ótrúlegt hvað við gerum margt af gömlum vana og stundum er það þannig að ef eitthvað truflar vanamynstrin okkar, þá streitumst við á móti. Nú veit ég ekkert hver ykkar rútína er á kvöldin, en bréfið þitt segir mér að hún þarf að breytast. Það þarf að skapa ný mynstur og þegar þeim er breytt fyrst, mun barnið mögulega streitast á móti. Jafnvel getur þú sjálf verið ósátt við breytingar á rútínu ef hún hefur verið í mjög föstum skorðum fyrir.

Svefnþörf fimm ára barna

Á vef landlæknis segir að börn á aldrinum 3-5 ára þurfa 10-13 klukkustunda svefn. Pirringur dóttur þinnar eftir kvöldmat undirstrikar þörf hennar fyrir svefninn. Ef þið vaknið sjö að morgni þarf dóttir þin að sofna í síðasta lagi klukkan níu að kveldi. Undirbúningur fyrir svefn þarf að hefjast um 30-60 mínútum áður.

Breytingar

Ég hvet þig til að taka þér tíma í að búa til nýja rútínu. Þar á ég við að setja athygli þina alfarið í barnið ef þú hefur tök á því til að byrja með. Til að byggja upp samstarfsvilja barnsins er mikilvægt að viðhorf þitt til þessa verkefnis sé jákvætt. Þið getið haft rólegt og jákvætt andrúmsloft. Hafið rútínuna alltaf eins þannig að smátt og smátt verður hún vanamynstur og öll börn finna til öryggis þegar þau eru í rútínu.

Möguleg rútína:

Auðvitað búið þið til ykkar eigin rútínu sem ykkur líður vel með. Hún gæti verið á þann hátt að um klukkustund áður, skapið þið rólegt andrúmsloft. Passið að barnið sé ekki í skjá eða snjalltæki. Hægt er að bjóða barninu að fara í náttföt og bursta tennur og þegar því er lokið getið þið átt litla gæðastund saman eins og að lita, spila eða annað sem er róandi. Skrefið að fara í rúmið snemma þarf eflaust að styrkja og ég mæli með því að þú leggist hjá dóttur þinni í stutta stund. Það gerir þetta skref eftirsóknarvert því börn þrá að eiga góðar stundir með foreldrum sínum.

Athygli

Þar sem ég veit ekki hvað þú hefur prófað eða hvernig ykkar rútína er nú þegar veit ég ekki nákvæmlega hvað hentar ykkur best. Eitt get ég þó sagt þér, að ef þú vilt sjá breytingar þá þarftu að veita verkefninu hundrað prósent athygli. Ég myndi ráðleggja þér að hvíla örlítið það sem þú ert vön að gera og setja þess í stað alla þína athygli í þessar breytingar. Það er nokkurskonar lögmál að ef maður veitir einhverju mikla athygli þá vex það. Gömul vanamynstur þurfa líklega að víkja tímabundið til að dóttir þín fái fullan svefn.

Kveðja, 

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is