Er að flytja inn með stjúpbörnum

mbl.is/Thinkstockphotos

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur svarar spurningum lesenda Barnavefjar mbl.is. Hér fær hún spuringu frá manneskju sem er að flytja inn með stjúpbörnum sínum.

Sæl. 

Hvernig get ég sem best undirbúið 2 stjúpbörn (8 og 12 ára) fyrir það að ég flytji inn á heimilið?

Kveðja, H

Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur.
Ragnhildur Birna Hauksdóttir fjölskyldufræðingur.

 

Sæl H. 

Takk fyrir bréfið þitt sem er mjög stutt og laggott. Ég ætla að gefa mér að þú sért karlmaður og væntanlega ekki með börn sjálfur. Ég skal reyna að svara þér eftir bestu getu miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá þér. Það að þú leitir lausna segir mér að þú viljir vanda þig og taka tillit til þarfa þeirra. Til hamingju með það.

Berðu virðingu fyrir þeirra getu og vilja

Áður en þú flytur inn á heimilið, gefðu börnunum færi á að kynnast þér á jákvæðum nótum. Byrjaðu á að byggja upp vináttu, jafnvel stundum án móður þeirra ef þau eru tilbúin til þess. Sýndu að þú hafir áhuga. Reyndu að virða þeirra getu og vilja til að hleypa þér inn í sitt líf. Góðir hlutir gerast hægt. Þessi börn hafa á einhvern hátt upplifað brostna drauma við skilnað og ber að virða það.

Það getur verið gott að byrja á að skapa stundir sem hafa skemmtanagildi og eru á léttum nótum. Mundu samt að virða þín mörk og gerðu aðeins hluti sem þú ert tilbúinn að gera. Þau kynnast þér smátt og smátt og læra að virða þig.

Ný tengsl taka tíma

Börn sýna foreldrum sínum oftast mikla hollustu í gegnum súrt og sætt. Það er gott að hafa það í huga sem nýr aðili inn í fjölskylduna að virða þau tengsl sem eru fyrir. Ef þau umgangast blóðföður þarf að koma í veg fyrir að þau fái sektarkennd þegar þau verja tíma með þér. Börnin eiga ekki að þurfa að vera í hollustuklemmu. Ef þú vilt gera þetta vel getur verið gott að þú gefir þér tíma til að skoða hvernig líf þeirra og rútína er nú þegar. Hver eru áhugamál þeirra? Hvaða vanamynstur eru á heimilinu? Spurðu út í áhugamálin og sýndu þeim áhuga. Ef þau spila á hljóðfæri, biddu þau að spila fyrir þig og svo frv. Mundu samt að börn eru klár og næm á sýndarmennsku svo vertu fyrst og fremst sannur.

Það er mikilvægt láta móður þeirra aga börnin fyrst um sinn. Það skref skaltu ekki stíga fyrr en síðar, þegar þið hafið náð einhvers konar jafnvægi sem fjölskylda.

Húmor

Það er afar misjafnt hvað tekur langan tíma fyrir börn að aðlagast nýjum einstaklingi í fjölskyldunni eða hvað það tekur langan tíma fyrir stjúpforeldri að vaxa inn í hlutverkið. Öll tengsl þurfa tíma til að þróast: Þú og nýi makinn þurfið ykkar tíma, þú og börnin, þið öll sem stjúpfjölskylda og ekki síst þarf móðir að hlúa að sínu sambandi við börnin án þín. Eg hef persónulega tröllatrú á húmor og tengsl þar sem húmor er ríkjandi er afar góð byrjun.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ragnhildi Birnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert