Svona eflirðu tengslin við barnið þitt

Það eru til margar leiðir að efla tengsl við börnin …
Það eru til margar leiðir að efla tengsl við börnin okkar. Ef við gefum þeim tíma og athygli og þau vita að við erum örugg höfn, þá eflir það börn á marga vegu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Sæunn Kjartansdóttir er hjúkrunarfræðingur og sálgreinir frá Arbours Association í London. Hún hefur starfað á geðdeildum Landspítala og frá 1992 hefur hún verið sjálfstætt starfandi við einstaklingsmeðferð og faghandleiðslu. Hún er einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að tengslum. Hún lýsir mannlegum tengslum á einfaldan og skemmtilegan hátt.

Öll eigum við margs konar tengsl við alls konar fólk eins og maka, vini og kunningja. Þegar við hins vegar tölum um tengsl barns við foreldri byggja þau á eðlislægri hvöt barna til að bindast manneskju sem veitir þeim öryggi, umönnun og vernd. Tengslahegðun barna miðar að því að tryggja nálægð við þessa mikilvægu manneskju og lýsir sé m.a. með því að þau horfa, gráta, kalla á eða elta foreldrið. Þegar tengslaþörf barns er að jafnaði svarað með viðeigandi hætti verður foreldrið það sem kallað er örugg höfn. Örugg höfn þýðir að þegar barn hefur færni til hættir það sér í burtu til að svala forvitni sinni, eiga samskipti við aðra en foreldrana og prófa nýja hluti í fullvissu um að það geti leitað í öruggu höfnina ef það finnur til óöryggis eða ótta. Komið í öruggu höfnina er barnið fljótt að taka gleði sína á ný. Með tímanum yfirfærist örugga höfnin yfir á annað fólk og aðrar aðstæður og smám saman verður hún hluti af persónugerð barnsins.“

Sæunn Kjartansdóttir er einn af stofnendum Fyrstu tengsla. Hún starfar …
Sæunn Kjartansdóttir er einn af stofnendum Fyrstu tengsla. Hún starfar þar sem ráðgjafi ásamt fleiri sérfræðingum sem aðstoða foreldra m.a. við að tengjast börnum sínum betur. mbl.is/Hari

Hvað er átt við með tengslamynstrum?

„Rannsóknir hafa leitt í ljós að börn mynda mismunandi tengsl við foreldra sína sem eru ýmist greind sem örugg eða óörugg. Hvort tengsl eru örugg eða óörugg hefur ekkert með ást foreldra til barna sinna að gera. Foreldrum barna með óörugg tengsl þykir undantekningarlítið mjög vænt um börnin sín. Það hefur líka sýnt sig að það er ekki trygging fyrir öruggum tengslum að foreldri sé mikið með barni sínu og hafi á því dálæti. Það sem vegur þyngst er líðan og afstaða foreldranna. Hafa þeir rými innra með sér til að setja sig í spor barna sinna og velta fyrir sér líðan þeirra? Geta þeir vikið eigin tilfinningum til hliðar? Eða eru þeir of kvíðnir, lasnir eða áhyggjufullir til að geta meðtekið almennilega hvernig því líður?

Þegar foreldri er læst á tjáningu barnsins og fært um að bregðast við henni á viðeigandi hátt jafnt og þétt má búast við öruggum tengslum. Hér erum við ekki að tala um einhverja fullkomnun því að hún er ekki til. Ekkert foreldri skilur barnið sitt alltaf eða bregst alltaf rétt við enda er það ekki það sem þetta snýst um. Aðalatriðið er að barnið venjist því að þegar því líður illa sé reglan sú að foreldri reyni að skilja hvað veldur og hjálpi barninu á viðeigandi hátt. Þannig kemst barnið í jafnvægi á ný sem hefur áhrif á hormónaframleiðslu, mótun heilans, sjálfsmynd og öryggiskennd þess. Barnið venst því líka að foreldri gleðjist yfir því og njóti þess að vera með því, svona oftast nær.

Foreldrar barna sem mynda óörugg tengsl hafa ekkert sérstaka ánægju af því að vera með þeim. Þeir svara oft kalli barnsins seint eða af ónákvæmni eða þeir verða kvíðnir og jafnvel reiðir þegar barnið er óvært. Hér eru það ekki einstök tilvik sem skipta máli, því að allir geta orðið frústreraðir þegar barn huggast ekki, heldur það sem gerist oft og getur talist venjulegt fyrir barn. Börn eru afar næm á líðan foreldra sinna enda eiga þau allt undir þeim. Þess vegna tileinka þau sér aðferðir til að nýta sem best nálægð foreldranna. Ef barn upplifir að foreldri verði óþægilegt (t.d. reitt eða hranalegt) þegar því líður illa lætur það lítið fyrir sér fara. Það sýnir síður vanlíðan sína og reynir að róa sig sjálft, löngu áður en það hefur getu til. Ef barn upplifir að foreldri sé að jafnaði annars hugar og að erfitt sé að ná og halda athygli þess verður það meira krefjandi og órólegt. Barn í þeirri stöðu á líka erfiðara með að huggast og ná jafnvægi þegar eitthvað bjátar á. Þetta veldur mikilli streitu sem getur birst með ýmsum hætti, t.d. í hegðunar- og námserfiðleikum þegar barnið verður eldra.“

Af hverju mynda ekki allir foreldrar örugg tengsl við börnin sín?

„Stutta svarið er að þeim sjálfum líður ekki nógu vel. Það er mjög margt sem getur valdið vanlíðan hjá nýbökuðum foreldrum og þess vegna er svo mikilvægt að þeir eigi greiða leið að aðstoð, hvort sem það er hjá fjölskyldu, vinum eða fagfólki. Vanlíðan þeirra getur tengst erfiðri reynslu úr eigin barnæsku sem losnar úr læðingi þegar þeir eignast barn, jafnvel þó að þeir muni ekki eftir henni eða telji hana ekki skipta máli. Það skiptir líka máli hvernig meðganga og fæðing ganga og hvernig móðir og barn eru á sig komin eftir fæðinguna. Veikindi móður og/eða barns geta truflað tengslamyndun, erfiðar aðstæður, t.d. spenna í sambandi foreldra eða fjárhagsáhyggjur. Þá skiptir miklu máli hvort þau njóti stuðnings fjölskyldu.

Annað lykilatriði er hvernig foreldri upplifir barn sitt. Börn eru ekki óskrifað blað þegar þau fæðast, þau eru með útlit, lundarfar og viðbrögð sem foreldrarnir þurfa að læra á og kynnast. Þeir geta upplifað að barnið sé algjörlega ókunnugt eða þeir geta séð sig sjálfa eða einhverja nákomna í því. Allt þetta getur ýmist hjálpað eða hindrað við tengslamyndun. Foreldrar sem sjálfir hafa verið vanræktir eða beittir ofbeldi eiga stundum erfitt með að trúa hvað þeir eru mikilvægir og jafnvel forðast barnið sitt af ótta við að nálægð þeirra skaði það.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að viðhorf foreldra til barna skiptir meginmáli. Það byggir meðal annars á samfélagslegum hugmyndum sem foreldrar ólust upp við og eru misjafnlega meðvitaðir um. Halda þeir að börn séu í eðli sínu stjórnsöm og að það þurfi að láta þau finna hver ræður? Eru þeir hræddir um að „of mikil þjónusta“ geri börn frek og dekruð? Á barn ekki að trufla vinnuna og áhugamálin? Er kostur að lítil börn séu dugleg og sjálfstæð? Eða líta þeir á börn sem þurfandi og hjálparvana? Áhugaverð? Hafa þau eitthvað að segja? Skiptir máli að hlusta á þau og gefa þeim fulla athygli? Öll þessi atriði, og fleiri, hafa áhrif á með hvaða hætti tengslamynstur barnsins verður.“ 

Hvernig lýsa óörugg tengsl í æsku sér á fullorðinsaldri?

„Óörugg tengsl barna geta haft víðtækar afleiðingar á fullorðinsaldri. Sem dæmi má nefna hvatvísi og tilfinningalegt ólæsi sem leiðir til erfiðleika við að bregðast við vanlíðan á viðeigandi hátt. Margir fræðimenn telja að flestir þeir sem eigi við tilfinningalega og geðræna erfiðleika að etja séu með óörugg tengslamynstur. Það þýðir ekki að allir þeir sem eru með óörugg tengslamynstur lendi í erfiðleikum, því að seinni reynsla í lífinu skiptir líka mjög miklu máli, en óörugg tengslamynstur eru til dæmis til þess fallin að valda vanda í vina- og ástarsamböndum. Rauði þráðurinn er að fólk þráir en óttast nánd. Sumir gefa lítið af sér, nánast þurrka sig út í von um samþykki og gefa öðrum ofurvægi. Aðrir verða mjög krefjandi og finna vinum sínum eða maka allt til foráttu. Óörugg tengsl leiða oft til skammvinnra sambanda sem einkennast af óöryggi þar sem hvorki viðkomandi né makinn fá notið sín.“

Hversu almenn eru óörugg tengslamynstur?

„Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á tengslamynstrum á Íslandi en erlendar rannsóknir víðs vegar um heim eru mjög samhljóða; um 65% barna eru með örugg tengslamynstur og 35% óörugg. Ef þú sem foreldri ert hrædd/ur um að tengsl þín og barnsins þíns séu ekki örugg er aldrei of seint að efla þau. Fyrsta skrefið gæti verið að skoða afstöðu þína til barna. Eru börn of fyrirferðarmikil? Af hverju eru þau erfið? Er það vegna frekju? Af hverju verða börn frek? Reyndu að leyfa barninu að njóta vafans.

Góð leið til að styrkja tengslin, hvort sem barnið er nýfætt eða nýfermt, er að gefa því ákveðinn tíma nokkrum sinnum í viku, hálftíma eða klukkustund í senn. Þessa stund eruð þið tvö saman á forsendum barnsins. Þú ert ekki með hugann við neitt annað. Horfðu á barnið og hlustaðu af athygli. Það er fínt að horfa stundum saman á sjónvarp en þarna eruð þið ekki með nein skjátæki. Þið þurfið ekki að gera neitt merkilegt, bara sitja saman og leika eða spjalla en því leyfirðu barninu að ráða. Ef barnið venst því að þú gefir þér tíma og sýnir því áhuga þjálfarðu það í að hugsa á sama tíma og þú eflir öryggiskennd og styrkir sjálfsmynd þess. Um leið eykurðu líkurnar á að það leiti til þín, og annarra, þegar því líður illa frekar en það reyni á vanmáttugan hátt að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ef þér finnst þetta of erfitt gæti verið gott að leita hjálpar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert