Fermist 17. júní við hátíðlega athöfn í kirkju

Linda Pé og dóttir hennar Ísabella Ása Lindudóttir.
Linda Pé og dóttir hennar Ísabella Ása Lindudóttir.

Athafnakonan Linda Pétursdóttir er að ferma einkadóttur sína Ísabellu Ásu Lindudóttur á þessu ári. Ísabella vildi fermast á Íslandi enda eiga þær rætur að rekja hingað heim. Fermingarfræðslan er í fjarkennslu enda eru þær búsettar í Norður-Ameríku og víðar. 

Flestir kannast við alheimsfegurðardrottninguna fyrrverandi Lindu Pétursdóttur. Fegurð hennar og hæfileika þegar kemur að útliti og heilsu þekkja allir landsmenn. Færri þekkja eflaust til móðurinnar Lindu sem setur dóttur sína framar öllu öðru. Enda hafa þær alla ævi Ísabellu verið tvær saman.
rós Líndal

Ræturnar á Íslandi

„Ræturnar eru auðvitað á Íslandi og það kom aldrei neitt annað til greina en að fermast heima að íslenskum sið. Það er það sem Ísabella vildi og þar sem þetta er hennar dagur fékk hún að ráða.“

Hvernig er að búa erlendis?

„Það fer virkilega vel um okkur í Norður-Ameríku en annars erum við með aðsetur í Palm Springs og Vancouver og auðvitað á Álftanesinu okkar líka.“

Eruð þið nánar mæðgur?

„Já, það er óhætt að segja það. Við höfum alla tíð verið mjög nánar enda Ísabella alfarið alin upp hjá mér sem einstæðri móður og við höfum að mestu verið bara tvær, ásamt hundunum okkar.“

rós Líndal

Róleg yfir fermingunni

Hvernig verður fermingin?

„Við erum nú afskaplega afslappaðar með þetta allt saman. Ég er að minnsta kosti ekki týpan sem setur allt á hvolf á heimilinu út af fermingunni heldur verður þetta bara lítið og látlaust hjá okkur. Það hefur örugglega sitt að segja að vera utan landsteinanna og þar af leiðandi ekki í stússinu og spenningnum sem fylgir gjarnan þessum degi eins og við þekkjum mörg. Ég fer nú bráðlega af stað með að undirbúa og mun leigja sal og kaupa veitingar, ætla að gera þetta eins einfalt og hægt er, enda komum við bara til landsins rétt til að eiga þessa stund saman heima með okkar fólki þar.“

Fermingarbarnið elskar að ferðast

Ísabella Ása hefur mikinn áhuga á að ferðast. „Ég hef farið með mömmu til 12 landa og markmiðið mitt er að ferðast einu sinni til tvisvar á nýja staði árlega. Mér finnst einnig mjög gaman að dansa. Í dag langar mig að verða innanhússhönnuður en það á kannski eftir að breytast eftir því sem ég verð eldri.“

Ertu trúuð?

„Já, ég er trúuð og fer með bænir á hverju kvöldi.“

Hvernig langar þig að vera klædd?

„Ég ætla að vera í hvítum stuttum kjól, með fallegt hálsmen með nafninu mínu á sem afi og amma gáfu mér – og með hárið slegið.“

Fermist ein í kirkju 17. júní

Hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Nýja Apple-tölvu og peninga en ég er að safna fyrir íbúð þegar ég verð eldri.“

Ertu spennt fyrir fermingunni?

„Ekki neitt svakalega mikið því mér finnst hún enn það langt í burtu og af því ég er ekki með krökkum heima í fermingarfræðslu þá finn ég minna fyrir þessu. Krakkarnir hér úti fermast ekki.“

Hvernig sérðu fyrir þér fermingardaginn?

„Held ég verði smá stressuð því ég er bara ein að fermast og þá verður kannski of mikil athygli á mér og mér finnst það óþægilegt enda utan þægindarammans míns. En mamma og pabbi, afi og amma og nánasta fjölskyldan mín verða í kirkjunni og það er gott að vita af þeim þarna með mér. Í veislunni vil ég hafa mikið af kræsingum og bjóða vinkonum mínum og fjölskyldu á Íslandi og fara svo seinna um daginn að skemmta mér á 17. júní hátíðinni.“

Fær fjarkennslu í fermingarfræðslunni

Hvernig hefur fermingarfræðslan verið?

„Afslöppuð því við mamma erum bara tvær í þessu hérna úti. En við komum til Íslands fyrr á árinu og hittum prestana okkar, þau Jónu Hrönn Bolladóttur og Henning Magnússon, og þau útskýrðu allt svo vel fyrir okkur þannig að það hjálpaði mikið. Annars förum við í messu hér úti flesta sunnudaga fyrir fermingarfræðsluna og svo læri ég meira í gegnum tölvuna.“

Hvað viltu segja við önnur börn sem eru að fermast?

„Njótið dagsins og slakið á.“

Ef þú fengir eina ósk í fermingargjöf, hver væri hún?

„Ég myndi óska að það væri friður á jörðu og engin börn myndu þjást eða vera hungruð og allir myndu fá góða umönnun og kærleika á heimilum sínum.“

Vaknaði lasin á sínum fermingardegi

Linda er trúuð og á sinn æðri mátt. „Ég er andlega þenkjandi og segi gjarnan að kirkjan mín sé náttúran sem ég tengi sterkt við á mínum daglegu göngutúrum. Einnig finnst mér trúarbragðafræði mjög heillandi en ég hef kynnst hinum ýmsu trúarbrögðum á ferðum mínum um heiminn og þekki náið fólk með ólíkan trúarbakgrunn. Mér er sama hvaðan gott kemur, fólk má hafa sína trú og sinn Guð í friði fyrir mér.“

Hvernig var þín eigin ferming?

„Ég vaknaði lasin á fermingardaginn en hann var engu að síður haldinn hátíðlegur á Vopnafirði með tilheyrandi kransaköku og veisluhöldum að hætti móður minnar sem er mikil húsmóðir. Ég man þó einna helst eftir því að hafa sofið með rúllur í hárinu nóttina fyrir fermingu og svaf þar af leiðandi ekki sérlega vel! Ég var í voða fínum hvítum og gylltum blúndukjól sem mig minnir að foreldrar mínir hafi keypt í fríi á Benidorm, sem þótti voða fínt þá.“

Þakklátar fyrir trúna

Hvernig verður fermingardagurinn?

„Ísabella fermist í sveitarfélaginu okkar, Garðabæ, við hátíðlega athöfn 17. júní, en hún hefur ætíð haldið mikið upp á þennan dag þannig að okkur fannst tilvalið að hún fengi að fermast þann dag. Mér skilst að skátarnir verði með heiðursvörð við kirkjuna í tilefni þjóðhátíðardags þannig að þetta verður eflaust mjög hátíðleg athöfn í kirkjunni.“

Linda segir gott eða jafnvel nauðsynlegt að mati þeirra mæðgna að hafa æðri mátt að leiða sig áfram í lífinu. „Jafnt í blíðu sem og í stríðu. Við erum þakklátar fyrir trúna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert