Krakkar í dag eru forvitnir

Grétar Halldór Gunnarsson prestur.
Grétar Halldór Gunnarsson prestur.

Grétar Halldór Gunnarsson hefur verið prestur hjá Grafarvogskirkju í yfir tvö ár. Hann segir fermingarfræðslu þeirra í kirkjunni í grunninn þá sömu og áður hefur tíðkast en tæknin og upplifun leika nú stærra hlutverk en áður.

Hvernig fer undirbúningur fyrir ferminguna fram hjá ykkur?

„Undirbúningur fyrir fermingu hefst snemma á haustin með fermingarfræðslu. Aðalundirbúningurinn fyrir ferminguna er sem sagt fermingarfræðslan sem stendur yfir allan veturinn. Við förum líka í Vatnaskóg með krökkunum, höldum fermingarmót með fermingarbörnum í Grafarholti og Árbæ og höldum þemalaugardaga á vorönn. Sjálf fermingarathöfnin er síðan skipulögð af prestum, organistum og starfsfólki kirkjunnar. Loks eru fermingarbörnin kölluð inn, fyrst til að máta kyrtla og loks á sérstaka æfingu fyrir sjálfa fermingarathöfnina,“ segir hann.

Hefur fermingarfræðslan breyst á undanförnum árum?

„Fermingarfræðslan hefur ekki breyst í kjarna sínum, en það eru tveir þættir sem sérstaklega hafa breyst. Í fyrsta lagi eru það tæknibreytingar. Krakkar í dag eru partur af svokallaðri skjákynslóð sem er vön að nálgast efni í gegnum skjái og snjalltæki. Við í Grafarvogskirkju höfum því gert tilraunir með það að miðla hluta af fermingarefninu þannig. Í öðru lagi þá er aukin áhersla í samtímamenningu á mikilvægi upplifunar. Við höfum því viljað hjálpa fermingarbörnum að skilja að að baki fræðslunni er lifandi samband við þann Guð sem fræðslan fjallar um. Trúin er veruháttur og raunveruleg upplifun.“

Hvernig líta krakkar í dag á ferminguna, að þínu mati?

„Krakkarnir eru á mismunandi stað í sínu trúarferðalagi, alveg eins og fullorðið fólk. Í heild myndi ég segja að þau væru forvitin og opin gagnvart þessum stærsta leyndardómi mannlegrar tilveru. Nógu forvitin og nógu opin til þess að hafna ekki barnaskírninni sinni, heldur staðfesta að þau vilja halda áfram á ferðalagi trúar sinnar sem hófst þegar þau voru borin til skírnar.“

Hvar og hvenær átti þín eigin ferming sér stað? Hvað stóð upp úr við daginn?

„Ég fermdist árið 1996 í Háteigskirkju. Ég á góðar minningar frá deginum. Ég man sérstaklega eftir einu atviki sem mig langar að nefna hér. Í lok dagsins kom frændi minn til mín og spurði: „Jæja, Grétar, trúir þú í alvörunni á Guð?“ Ég man hvað mér fannst þetta undarleg spurning. Og sá andi sem hún var borin fram í, hann var mér með öllu framandi!“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »