„Mér leið eins og ég væri gölluð“

Guðrún Helga tjáir sig á einlægan hátt um erfiða lífsreynslu …
Guðrún Helga tjáir sig á einlægan hátt um erfiða lífsreynslu í nýrri bloggfærslu. Ljósmynd/Aðsend

Bloggarinn Guðrún Helga Sørtveit greinir frá því í nýrri og einlægri færslu á Trendnet að hún hefði fengið utanlegsfóstur. Upplifunin var erfið og segir Guðrún Helga að henni hafi liðið eins og hún væri gölluð og eina konan í heiminum sem hefði upplifað þetta. Það hefur hjálpað henni að tala um það sem hún lenti í enda kom í ljós að utanlegsfóstur er því miður algengara en marga grunar.   

„Ég komst að því að ég væri ólétt fyrir rúmum þremur vikum síðan. Það var smá sjokk en samt sem áður mikil gleði hjá mér og Steinari kærastanum mínum. Við fórum spennt og stressuð í snemmsónar. Í sónarnum var ekkert fóstur að sjá. Þetta var allt saman mjög undarlegt þannig kvensjúkdómalæknirinn lét mig taka þungunarpróf og sendi mig í blóðprufu. Samkvæmt þungunarprófinu og blóðprufunni þá var eins og ég væri ólétt en ekkert fóstur að sjá í leginu. Næstu vikur einkenndust af daglegum blóðprufum, mjög mikilli óvissu og skoðunum uppi á kvennadeild Landspítalans því það var grunur um utanlegsfóstur. Eftir tvær vikur í óvissu var þetta greint sem utanlegsfóstur,“ skrifar Guðrún Helga. 

Guðrún Helga byrjaði á því að googla og segir það ekki gott fyrir andlegu hliðina. 

„Utanlegsfóstur getur verið lífshættulegt og er eitt af því erfiðasta sem þau greina uppi á kvennadeild. Það þarf yfirleitt alltaf að fara í skurðaðgerð og láta fjarlægja annan eggjaleiðarann, þar sem fóstrið er. Ég þurfti því miður að fara í skurðaðgerð og láta taka annan eggjaleiðarann minn. Ég get ekki lýst því með orðum hvað þetta var mikið sjokk að heyra 25 ára og ekki bjóst ég við að fyrsta þungunin mín myndi enda svona.

Mér hefur sjaldan liðið jafn illa og hræddri. Ég vissi ekkert hvað væri í gangi þessar tvær vikur og var mjög óþægilegt að fá aldrei hreint út svar. Ég var samt í ótrúlega góðum höndum uppi á kvennadeild og allir að reyna að gera allt fyrir okkur. Það var líka mjög erfitt að missa svona mikið af skólanum og vinnu. Ég á líka mjög erfitt með að gera ekki neitt og slaka bara á en seinustu tvær vikur var ég eiginlega bara lömuð af hræðslu og mikilli vanlíðan.

Ástæða þess að ég er að segja frá þessu er vegna þess að ég var í áfalli þegar ég komst að þessu. Mér leið eins og ég væri gölluð sem er held ég ein versta tilfinning sem ég hef fundið. Mér leið eins og ég væri að bregðast öllum og þá sérstaklega Steinari,“ skrifar Guðrún Helga og segir ekki hægt að vita hvað gerist á bak við samfélagsmiðla og hvað fólk er að ganga í gegnum. 

Færsluna lesa í heild sinni hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert