Tryggir að öllum líði vel í enskuskólanum

Kristín Hulda Gísladóttir meistaranemi í klínískri sálfræði er fararstjóri ferðarinnar.
Kristín Hulda Gísladóttir meistaranemi í klínískri sálfræði er fararstjóri ferðarinnar.

Kristín Hulda Gísladóttir meistaranemi í klínískri sálfræði er fararstjóri í ferð íslenskra unglinga til Englands á vegum fyrirtækisins Enska fyrir alla. Hún fór sjálf í slíka ferð sem unglingur og kom reynslunni ríkari heim. 

„Í ferðinni fer stór hópur af íslenskum unglingum saman til Englands í enskuskóla. Á meðan þau eru úti búa þau tvö og tvö saman hjá bresku fólki í litla strandbænum Broadstairs á suðurströnd Englands, en þar er skólinn. Þau byrja ferðina á því að taka stöðupróf og er raðað í bekki eftir því. Á morgnana læra þau ensku í skólanum en seinni partinn gera þau eitthvað skemmtilegt saman eins og að fara á strönd, í keilu, ratleik, ferðir til næstu bæja og fleira! Á kvöldin er aftur skipulögð dagskrá, þá fara þau í karókí, læra breska þjóðdansa, í bíó, á diskótek og þar fram eftir götum. Þau eru oft með unglingum frá öðrum Evrópulöndum sem eru líka í skólanum, bæði í tímum og í því sem þau gera seinni partinn og á kvöldin. Um helgar er enginn skóli en þá fara unglingarnir í dagsferð til Cambridge og fá frjálsan tíma til að skoða sig um og jafnvel kíkja í búðir. Unglingarnir fá tækifæri til að læra ensku með formlegum hætti í skólanum en þau læra líka ótrúlega mikið af samskiptum við fjölskylduna sem þau gista hjá, aðra nemendur skólans og í því sem hópurinn gerir saman eftir skóla! Þau fá að upplifa mikið sjálfstæði, sem unglingar á þessum aldri þrá, en eru samt í öruggu umhverfi og vel passað upp á þau. Þetta er frábært tækifæri til að læra ensku, kynnast nýju fólki frá öllum löndum og hafa það óendanlega skemmtilegt,“ segir Kristín Hulda Gísladóttir, meistaranemi í klínískri sálfræði og fararstjóri í ferðinni.

Hver var þín upplifun þegar þú fórst í þessa ferð á sínum tíma?

„Ferðin var eitt það allra skemmtilegasta og eftirminnilegasta sem ég gerði á unglinsárunum! Ég fór með vinkonu minni og við gistum saman hjá eldra pari sem bjó rétt hjá skólanum, þau voru alveg yndisleg og okkur fannst mjög gaman að heyra hreiminn þeirra. Íslenski hópurinn kynntist strax rosalega vel en ferðin er sett upp þannig að hópurinn er saman nær allan daginn. Ég eignaðist marga góða vini sem ég hélt sambandi við í mörg ár eftir ferðina og suma þekki ég ennþá í dag, 11 árum seinna!“

Hvað lærðir þú af ferðinni?

„Ég lærði mikla ensku og fékk mikið sjálfstraust í að tala hana. Allir á vegum skólans eru breskir, bæði kennarar og þeir sem sjá um skemmtanirnar auk þess sem það þarf að tala ensku við fjölskylduna sem maður gistir hjá, hina erlendu nemendurna og alla aðra í bænum. Ég lærði að standa aðeins á eigin fótum og að pluma mig í nýju og öðruvísi umhverfi. Ég lærði líka ótrúlega mikið um að kynnast nýju fólki og eignast vini en ég var í litlum grunnskóla og það var alveg nýtt fyrir mig að vera með svona stórum hópi af unglingum á svipuðum aldri og ég.“

Hverju leggur þú upp úr sem hópstjóri?

„Að krakkarnir fái tækifæri til að njóta sín, kynnast vel og skemmta sér. Ég vil að þau fái að upplifa sjálfstæði en séu samt alltaf örugg og fylgst með þeim. Ég legg mikið upp úr því að þau fái allar upplýsingar, að þau viti alltaf hvað er í gangi og hvað þau eru að fara að gera. Ég reyni aðallega bara að halda vel utan um hópinn, tryggja að öllum líði vel og passa að þau viti að ég sé alltaf til staðar til að spjalla eða leysa úr vandamálum!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert