Sonur Woods fékk ósk sína uppfyllta

Tiger Woods fagnaði með syni sínum, Charlie Axel.
Tiger Woods fagnaði með syni sínum, Charlie Axel. mbl.is/AFP

Kylfingurinn og faðirinn Tiger Woods var ánægður með að börn hans tvö fengu að sjá sig vinna Masters-mót í golfi um síðustu helgi. Woods á dótturina Sam Alexis sem verður tólf ára í sumar og soninn Charlie Axel tíu ára með fyrrverandi eiginkonu sinni, hinni sænsku Elinu Nordegren. 

Í viðtali við Jim Nantz og Nick Faldo eftir mótið kom fram að sonur hans Charlie hefði skrifað niður eina ósk í skólaverkefni sem hann vonaði að myndi rætast árið 2019. Var óskin að fá að sjá föður sinn vinna gólfmót. Óskin rættist og það risamót. Segir Woods það hafa verið sérstakt að hafa börnin sín tvö hjá sér þegar hann vann mótið. Hann fékk svo dóttur sína til þess að koma líka og lýsti yfir mikill ánægju yfir því að börnin voru með honum.

Hér má sjá Charlie Axel fagna föður sínum með faðmlagi eftir sigurinn.

mbl.is