Féll fyrir Gosling og vildi verða móðir

Eva Mendes og Ryan Gosling.
Eva Mendes og Ryan Gosling. mbl.is/AFP

Leikaraparið Eva Mendes og Ryan Gosling eiga saman tvær dætur sem eru fjögurra og tveggja ára. Mendes opnar sig um móðurhlutverkið í viðtali við Women's Health og segir að hún og Gosling séu nýkomin af því tímabili að þau voru bara að reyna að lifa af. „Mér er byrjað að líða eins og manneskju aftur,“ segir Mendes í viðtalinu. 

Mendes sem er 45 ára eignaðist Esmeröldu í september 2014 og Amöndu í apríl 2016 með Gosling. Hún sá þó ekki fyrir sér að verða móðir áður en hún hitti Gosling og segir það hafa verið það síðasta sem hún var að hugsa um. 

„Ryan Gosling gerðist,“ sagði hún þegar hún var spurð hvað breyttist. „Ég meina ég varð ástfangin af honum. Þá virkaði það fyrir mig að eiga ekki börn heldur börnin hans,“ sagði Mendes. 

Leikferill Gosling hefur farið upp á við síðan hann varð faðir. Hann vann Golden Globe-verðlaunin árið 2017 þegar Mendes var heima með tvö ung börn. Minna hefur hins vegar farið fyrir Mendes í Hollywood eftir að hún varð móðir. 

„Ég fann fyrir minni metnaði ef ég má vera hreinskilin,“ sagði Mendes. „Ég finn fyrir meiri metnaði heima núna en ég geri á vinnustaðnum.“

Mendes reynir eftir bestu getu að vera bara venjuleg móðir. Hún leggur sig fram við að velja leikvelli þar sem götuljósmyndarar eru ekki og sýnir dætrum sínum ekki þegar hún klæðir sig upp fyrir eitthvað. 

„Þær sjá mig aldrei gera mig til fyrir eitthvað, þær hafa aldrei séð mig vinna. Það er í lagi fyrir þá sem vilja gera það en mín leið til að halda þessu eðlilegu er að leyfa þeim ekki að sjá mig í þessum aðstæðum. Ég er bara mamma. Og ég er meira en ánægð að vera bara mamma.“ 

Ryan Gosling.
Ryan Gosling. mbl.is/AFP
mbl.is