Opnuðu óvart barnafataverslun í Firði

Barnafataverslunin Sólrós opnaði í desember í Hafnarfirði. Sólrós er eining undir AnnMarie ehf sem er heildsala í uppbyggingu. Svetlana Markovic og Sanja Líf Markovic standa að baki versluninni Sólrós.

„Við opnuðum Sórós til að byrja með sem netverslun með sýningarrými í Firði Verslunarmiðstöð og erum við með opið eins og er þrisvar í viku en stefnum á fasta opnunartíma þegar lengra líður. Það er mikið um það að fólk komi til okkar að máta og síðan kaupir það oftast hjá okkur beint eða hugsar málið og pantar á netinu,“ segir Svetlana eða Lana eins og hún er kölluð og bætir við: 

„Við erum tvær mágkonur sem stofnuðum búðina saman og vorum að leita að allt öðru ótengt þessu þegar við rákumst á fatalínuna Ninia í Serbíu þar sem fötin eru handsaumuð úr hágæða efnum með miklum smáatriðum. Það var ekki ætlunin að stofna barnafataverslun en þarna var ekki aftur snúið og höfum við því oft talað um Sólrós sem hálfgert „slysabarn“ en eftir á að hyggja erum við svo þakklátar fyrir að hafa farið út í þetta ævintýri. Við sáum auðvitað tækifæri í þessum fatnaði hér á landi þar sem það er ekki mikið úrval og við sjálfar upplifað fyrir brúðkaup til dæmis að leita um allan bæ að fullkomnum kjól fyrir brúðarmeyjarnar sem og skófatnaði án þess að finna eitthvað sem stelpurnar voru 100% sáttar með eða jafnvel fundið barna spariskó sem voru ekki til stærri stærðum. Það má segja að miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið hafi verið gat á markaðnum sem við vonumst til að geta fyllt með okkar einstöku vörum á sanngjörnu verði,“ segir hún. 

Hún segir að þær selji einstakar flíkur og leggja áherslu á spariföt.  

„Við einbeitum okkur að sparifatnaði þó svo að ýmislegt geti líka verið notað dags daglega, til að mynda skórnir sem við erum með en þeir virka vel bæði sem spariskór og hversdags. Við opnuðum í desember á síðasta ári og móttökurnar hafa verið æðislegar! Margir sem tala um að þeir hafa verið að leita að nákvæmlega svona fatnaði og eru einstaklega ánægðir með aukið úrval á hér á landi, en þetta eru mikið til aðilar að leita að flíkum fyrir brúðkaup, fermingar eða einhverskonar hátíðarhöld. Við byrjuðum á fatamerkinu Nina sem er með allskonar fatnað fyrir stelpur en svo bættum við nýlega inn skóm frá Belle Chiara í stærðum frá 25-40. Á næstunni eru væntanleg spariföt fyrir stráka, en það hefur einmitt mikið verið spurt um það. Við erum helst með stærðir frá um 4-14 ára, en eigum þó alltaf til eitthvað fyrir 1-3 ára og svo eins er planið að taka inn meira í haust fyrir 14-18 ára í nýrri fatalínu sem ekki fæst hér á landi, en er alveg geggjuð og öðruvísi en það sem gengur og gerist! Með haustinu koma svo kápur og jakkar sem og jólafötin meira inn,“ segir Lana.

Hvernig er barnafatatískan núna? 

„Við upplifum að fólk leiti eftir vandaðri fatnaði og einhverju sem er einstakt, en það er einmitt það sem við bjóðum upp á. En samt sem áður er fatnaðurinn okkar og skór líka mjög tímalaus og eitthvað sem getur erfst á milli kynslóða. Fólk er líka meira farið að hugsa út í endingu og hvaða varan kemur, en við einmitt flytjum þetta inn frá aðilum sem eru að handsauma flíkurnar eftir pöntunum og því ekki mikið magn í framleiðslu hverju sinni sem og að varan fer ekki langa leið frá framleiðslu til enda viðskiptavinar,“ segir Þurý Hannesdóttir sem sér um markaðsmálin fyrir Sólrós. 

Hvernig vilja mömmurnar hafa börnin sín? 

„Foreldrar fylgja kannski oft tískustraumum hverju sinni sem er eðlilegt en svo er þetta auðvitað bara smekkur hvers og eins og börnin hafa auðvitað sínar skoðanir með hvað þau vilja klæðast þannig að það er eflaust allur gangur á því hvernig fötum börnin klæðast. Við bjóðum upp á klassískan og tímalausan fatnað sem hentar mjög vel fyrir ýmis tilefni, hvort sem það er hversdags eða fyrir einhverskonar hátíðarhöld,“ segir Þurý.

Hvað er það við starfið sem heillar?

„Það er klárlega skemmtilegast að sjá gleðina í krökkunum sem koma og máta og fá að taka kjólinn eða flíkina sem var valin með sér heim. Það er mjög minnistætt það sem ein ung stúlka hrópaði upp eftir heimsókn til okkar: „Þetta er besti dagur lífs míns!“ en þessi setning lýsir mjög vel upplifun þeirra sem koma til okkar og eignast jafnvel eina af draumaflíkunum sínum,“ segir Lana.

mbl.is