Nokkur góð ráð fyrir stjúpforeldra

Að deila áhugamálum með stjúpbarni sínu getur haft góð áhrif …
Að deila áhugamálum með stjúpbarni sínu getur haft góð áhrif á samskiptin. Hver veit nema að stjúpbarnið geti kennt stjúpforeldrinu eitthvað nýtt?

Á vefsíðu Parents má finna fjölmargar áhugaverðar greinar fyrir foreldra barna á öllum aldri. Málefni stjúpforeldra eru töluvert í umræðunni á vefnum enda segja staðtölur að um helmingur hjónabanda endi með skilnaði. 

Samkvæmt greininni geta stjúpforeldrar skipt miklu máli í lífi barna. Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga í samskiptum stjúpforeldra - og barna. 

Stutt fyrstu kynni

Til að létta á öllu álagi og til að koma á samskiptum er mælt með því að hafa fyrsta hitting á milli stjúpbarns og stjúpforeldris stuttan. Mælt er með því að forðast langan kvöldverð eða dýrar gjafir í fyrstu. Það dregur úr væntingum og léttir álagið á barnið. Eins er gott að leyfa barninu að stjórna í upphafi. Ef barnið treystir sér til að gera meira eða að hitta stjúpforeldrið oftar er það jákvætt. Of mikill hittingur í byrjun getur leitt til höfnunar seinna. Góðir hlutir gerast hægt.  

Gefðu stjúpbarninu tíma

Ef þú ert stjúpforeldri að koma inn í fjölskyldu þar sem foreldrar stjúpbarnsins voru áður giftir eða í sambúð er alltaf gott að gefa barninu tíma til að vinna úr tilfinningunum sínum.

Nýtt samband eða hjónaband verður alltaf til þess að skemma vonir barnsins um að foreldrar þess nái aftur saman. Stundum reyna börnin jafnvel að hafa áhrif á nýtt samband í þeirri veiku von að foreldrar þess nái aftur saman.

Ef stjúpforeldrar skilja þessi viðbrögð barnanna er auðveldara að gefa þeim svigrúm og skilning. Ráðgjöf getur einnig reynst vel að þessu leyti. 

Gefðu stjúpbarninu hlutverk

Ef stjúpbörn eru að fara á milli foreldra sinna búa þau á hvorugum staðnum 100% af tímanum. Ef of mikið er gert fyrir barnið þegar það kemur, getur því fundist það ekki eiga heima á staðnum. 

Í stað þess að vera með stöðugt prógramm á hvoru heimili fyrir sig, ætti að leitast við að gefa barninu hlutverk á heimilinu.

Virðingu, góðmennsku og hjálpsemi er öllum hollt að læra. Að eiga fast hlutverk á heimilinu getur kennt barninu að það skiptir máli í fjölskyldunni. 

Láttu þig stundum hverfa

Þar sem stjúpbarnið er ekki öllum stundum með ykkur, er gott að hafa í huga að stundum þarf barnið gæðatíma með foreldri sínu. Góðar stundir með líffræðilegu foreldri ýtir undir löngun barnsins til að vera með stjúpforeldri.

Stjúpforeldrar ættu að forðast að vera límdir við líffræðilegt foreldri og stjúpbarnið öllum stundum. Heilbrigt samband þeirra á milli ýtir undir hamingjuna í fjölskyldunni.

Að viðhalda stöðugu vinasambandi

Það getur tekið á taugarnar að vera of mikið að velta fyrir sér ást eða ástleysi í sambandi á milli stjúpforeldra og barna.

Öll samskipti geta vaxið í að innihalda óskilyrta ást, en hins vegar er óraunhæft að gera þær kröfur strax frá upphafi. Í byrjun samskipta er gott að eiga heilbrigt og traust vinasamband.

Að bregðast við á kærleiksríkan hátt þegar barnið leitar til þín styður við að barnið treysti þér í framtíðinni. 

Að viðhalda trausti og heiðarleika

Traust er grunnurinn að öllum góðum samböndum og tekur vanalega tíma að byggjast upp. Hlustar þú á það sem barnið hefur að segja? Getur barnið treyst þér? Veistu hvað skiptir barnið máli? Börn eru miklir mannþekkjarar, og vanalega er það í hlutverki fullorðna fólksins að vinna sér inn traust barna. Ef þú vinnur þér inn traust stjúpbarnsins með tímanum muntu vera aðili sem þau munu leita til í framtíðinni. Stjúpforeldrar lenda stundum í að börn leita til þeirra með málefni sem þau geta ekki leitað til foreldranna með. 

Deildu áhugamálum þínum með stjúpbarninu

Ef þú ert opin varðandi áhugamálin þín og áhugamál stjúpbarns þíns þá gæti verið að áhugamál ykkar tengist. Ef stjúpbarnið hefur sem dæmi áhuga á tísku og þú líka þá gæti verið gaman að fara með því í búðir og uppgötva nýja hluti með þess augum. Eins getur góður morgunmatur verið frábær samvera fyrir stjúpforeldra og stjúpbörn. Börn hafa gaman af því að leika sér í eldhúsinu með fullorðnu fólki. Slík samvera getur aukið á tengsl og traust ykkar á milli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert