Kolféll fyrir hjólreiðum

Þóra Katrín Gunnarsdóttir er mikið fyrir hjólreiðar, hreyfingu og útivist.
Þóra Katrín Gunnarsdóttir er mikið fyrir hjólreiðar, hreyfingu og útivist. mbl.is/Aðsend

Þóra Katrín Gunnarsdóttir er fyrrverandi viðskiptastjóri hjá WOW air. „Ég er í sambúð og er mamma tveggja drengja sem eru átta ára og fjögurra ára. Ég elska að stunda hreyfingu í náttúrunni. Ég hreyfi mig mikið, skíða og elska utanvegahlaup, sund og allra mest hjólreiðar og þá einkum fjallahjólreiðar í náttúrunni.“

Þóra Katrín situr í stjórn hjólreiðafélagsins Tinds og fær þar tækifæri til að sjá um hjólreiðanámskeið og æfingar og að setja upp skemmtilegar hjólreiðakeppnir með frábæru fólki eins og hún segir sjálf frá. 

Forsaga þess að hún er svo mikið í útivist er að hún byrjaði að hlaupa mikið með vinkonu sinni eftir að hún átti eldri strákinn sinn. „Við skráðum okkur í hlaupahóp og þar kynntist ég fullt að skemmtilegu fólki sem fékk mig til að hlaupa meira, synda og hjóla. Ég skellti mér á mín fyrstu hjólanámskeið vorið 2013 hjá Maríu Ögn og það var ekki aftur snúið. Ég kolféll fyrir hjólreiðunum.“

Þóra Katrín var í ballett hér á árum áður og segir að hreyfing hafi alltaf verið stór hluti af hennar lífi. „Já mér líður hreinlega illa andlega og líkamlega ef ég næ ekki að hreyfa mig reglulega. Vegna þess hve hreyfing er góð fyrir líkama og sál þá er ég búin að sjá til þess að allir í fjölskyldunni eigi hjól og er ég dugleg að fara með strákana mína út að hjóla. Síðan fæ ég líka stundum eldri strákinn með mér í hlaupatúra þar sem ég hleyp og hann er á hjólinu. Eldri strákurinn er líka duglegur að koma á barnahjólaæfingarnar okkar í Tindi og svo hefur hann verið með mér á sumarhjólanámskeiðunum sem ég sé m.a. um á sumrin fyrir Tind.“

Þóra Katrín segir að það sem hafi komið henni hvað mest á óvart tengt móðurhlutverkinu er hvað hún er með endalaust mikla ást í boði fyrir gullmolana sína. 

Hver eru að þínu mati bestu uppeldisráðin?

„Að sýna þolinmæði og skilning í bland við hæfilegan aga hefur reynst okkur vel.“

Hvernig mataræði mælir þú með fyrir börn í mikilli hreyfingu?

„Í þessu eins og öðru er gullni meðalvegurinn líklega bestur – fyrst og fremst að hafa fæðuna holla og fjölbreytta og reyna að lágmarka neyslu sætinda.“

Hvað voru börnin þín gömul þegar þau byrjuðu að hjóla?                 

„Þeir byrjuðu báðir að vera á sparkhjóli þegar þeir voru tæplega 3 ára en á pedala-hjóli milli 4-5 ára.“

Þorgeir Örn er átta ára hjólreiðakappi.
Þorgeir Örn er átta ára hjólreiðakappi.

Þóra Katrín segist var spennt fyrir einu stærsta og krúttlegasta barnahjólamóti ársin sem haldið var við Perluna í Öskjuhlíð á sunnudaginn síðasta þann , 19. maí, klukkan 11:00.

Þorsteinn Ari er fjögurra ára og er mikið fyrir að …
Þorsteinn Ari er fjögurra ára og er mikið fyrir að hjóla.

Hvernig fer svona hjólamót fram fyrir börn?

„Þetta var hjólamót fyrir börn frá 18 mánaða aldri og upp til 12 ára aldurs. Þau yngstu voru  á sparkhjólum meðan þau eldri voru á pedala-hjólum. Það voru 3 brautir sem krakkarnir hjóluðu á, allt háð því á hvaða aldri þau eru.

Þau yngstu hjóluðu á sparkhjólunum nokkra hringi á stéttinni upp við Perluna, meðan hin eldri hjóluðu stærri hring á grasinu og stígunum fyrir neðan. Þau elstu hjóluðu svo enn lengri hring sem náði aðeins inn í Öskjuhlíðarskóginn og fara fleiri hringi. Allir fengu  verðlaunapening frá Krónunni ásamt skemmtilegri gjöf. Einnig mun Krónan gefa öllum börnunum ávexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert