Gengur illa að kenna börnunum spænsku

Eva Mendes og Ryan Gosling eiga tvær dætur saman.
Eva Mendes og Ryan Gosling eiga tvær dætur saman. Skjáskot Daily Mail

Leikkonan Eva Mendes sagði í viðtali í þættinum The Talk að það hafi reynst henni og barnsföður hennar, Ryan Gosling, erfitt að kenna dætrum sínum spænsku. 

Mendes og Gosling eiga saman dæturnar Esmeröldu Amödu og Amödu Lee. Mendes er ættuð frá Kúbu og talar spænsku og ensku. Hún segir að það hafi verið erfiðara en hún bjóst við að kenna þeim spænsku, en hún talar sjálf oft ensku og spænsku til skiptis. Dætur hennar hafa því lært einskonar spensku (e. spanglish), sem Mendes þykir miður. 

Mendes ræddi einnig um að hún hafi ekki ætlað að eignast börn lengi vel. Það hafi hinsvegar breyst þegar hún kynntist Gosling. Mendes og Gosling hafa verið saman frá árinu 2011. „Ég var aldrei ein af þeim konum sem langaði í börn. Síðan varð ég ástfangin af Ryan og þá skildi ég þetta. Mig langaði ekki bara í börn, heldur langaði mig til að eignast börnin hans,“ sagði Mendes í viðtalinu. 

mbl.is