Sultuslök þegar kom að fæðingu númer tvö

Kolbrún Salka ásamt móður sinni Birnu Rún Eiríksdóttur.
Kolbrún Salka ásamt móður sinni Birnu Rún Eiríksdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Birna Rún Eiríksdóttir leikkonan er mætt aftur á svið í Sýningunni sem klikkar í Borgarleikhúsinu en hún eignaðist dótturina Kolbrúnu Sölku í janúar með manni sínum Ebenezer. Birna Rún og Ebenezer áttu fyrir dótturina Emilíu Klöru. Var meðgangan erfiðari núna en Birna Rún var þó mun slakari fyrir fæðingunni og skipulagði heimafæðingu. 

Hvernig var að fara á svið aftur eftir barnsburð og leika í farsa? 

„Það var ótrúlega hressandi og gaman að hoppa inn í farsann en auðvítað líka erfitt þar sem Kolbrún Salka var aðeins þriggja mánaða á æfingunum og háð brjóstinu. Líkamlega formið var fljótt að koma til baka en ég ákvað að vera dugleg í ræktinni nokkrum vikum áður en ég byrjaði svo að líkaminn og þolið væri allavega ekki að trufla mig og ég gæti einbeitt mér að texta og halda fókus inni á sviði. En það gekk framar vonum. Ég hafði auðvitað tíma heima til að læra textann vel áður en ég mætti á fyrstu æfingu og sýningin var fljót að koma til okkar aftur enda frábær stemming í hópnum og mikil orka þannig að æfingar gengu ótrúlega vel.

Kolbrún Salka fékk að vera með mér uppí leikhúsi þá daga sem við æfðum og það munaði öllu. Hópurinn tók ótrúlega vel utan um þetta verkefni sem ég var að sinna samferða æfingum og sýndu þessu mikinn skilning. Èg var líka ótrúlega heppin með góða vinkonu sem var með okkur og sinnti barninu yfir daginn en ég sá um að gefa brjóst inná milli. Það er auðvitað gríðarlega mikill munur á þeirri orku sem maður er í að æfa farsa og svo að hoppa útaf og faðma ungabarnið sitt svo það tók hvað mest á. Þetta voru þó ekki nema tvær vikur í æfingum og sýningar aðeins einu sinni í viku, það er passlegt fyrir okkur mæðgur allavega,“ segir Birna Rún.  

Birna Rún og Ebenezer skipulögðu heimafæðingu.
Birna Rún og Ebenezer skipulögðu heimafæðingu. Ljósmynd/Aðsend

Eru það mikil viðbrigði að vera orðin tveggja barna móðir?

„Mér líður eins og þetta hafi alltaf verið svona og hún hafi alltaf verið til, þetta er svo ótrúlega fljótt að venjast. En auðvitað eru sumir hlutir svolítið flóknari og við foreldrarnir erum alltaf á fullu. Það er bara svo dýrmætt að geta gefið eldri stelpunni systkini og þetta púsluspil að vera með tvö er skemmtileg áskorun.“ 

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungabarn? 

„Fyrstu mánuðirnir voru yfir höfuð dásamlegir. Hún er blessunarlega svo ótrúlega góð þetta barn, sefur og drekkur vel, það munar öllu. Það hefur gert það að verkum að ég hef orku í að eyða góðum tíma með eldri stelpunni líka og heimilið er rólegt og í jafnvægi. Það var þess vegna sem ég ákvað að taka þátt aftur í sýningunni, vegna þess að fyrstu mánuðirnir gengu betur en ég þorði að vona. Það er ekki mikill munur á þessu núna og í fyrra skiptið það sem það gekk líka vel með eldri stelpuna en núna erum við auðvitað eldri og reyndari sem foreldrar, það skilar sér í ró og trausti.“

Var eitthvað sem þú lærðir af fyrri meðgöngu og fæðingu sem nýttist þér núna?

„Fyrra meðganga mín var svo auðveld að það er ekki gott fyrir neinn að miða sig við hana. Ég fann ekkert fyrir henni og var í ræktinni fram að síðasta dag. En ég var hins vegar mjög kvíðin þá fyrir fæðingunni og ótrúlega hrædd við að ég þyrfti að gera þetta. Ég undirbjó mig eins og ég gat og fór í jóga og vann með kvíðann hjá sálfræðingi. Þegar kom að stóru stundunni þá bara hurfu áhyggjurnar og ég rann inn í þetta stóra verkefni sem fæðing er með líkamanum. Ég sleppti takinu og fann að líkaminn vissi alveg hvað hann var að gera og að ég þyrfti ekkert að óttast. Mitt verkefni var að sjá hvað ég gæti gert til að láta mér líða sem best í gegnum þetta. Fæðingin gekk framar vonum og þess vegna var þetta alveg öfugt núna í ár. Líkaminn var þreyttari og meðgangan því aðeins erfiðari, en ég var sultuslök yfir fæðingunni og planaði heimafæðingu með Björkinni. Þessi fæðing var nánast alveg eins og fyrri og ég átti dásamlega upplifun hér heima.“

Kolbrún Salka fylgdi móður sinni í leikhúsið aðeins nokkurra mánaða.
Kolbrún Salka fylgdi móður sinni í leikhúsið aðeins nokkurra mánaða. Ljósmynd/Aðsend

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Þetta er stór spurning en líklega er það mikilvægasta að hlusta á innsæi sitt. Ekki vera að tönglast á því hvað hinir og þessir segja þér að gera hvað varðar meðgöngu, fæðingu eða brjóstagjöf. Muna að tengja reglulega inn á við og finna hvað manni finnst sjálfum. Mömmuhjartað veit alltaf best þannig er það. Svo auðvitað leitar maður til fagfólks ef þess þarf.

Ég heyrði til dæmis oft þessa setningu á meðgöngu: „Úff ekki ætlar þú að sýna með þriggja mánaða barn, nei það verður nú ekki gott fyrir ykkur.“ Ég er fegin að ég hlustaði á sjálfa mig frekar því þetta hefur verið svo gaman og frábær tilbreyting frá orlofinu. 

Svo ef ég hefði ekki treyst mér þá væri það líka allt í lagi, en ég þyrfti að finna það sjálf og taka ákvörðun á mínum forsendum. Það er mikilvægt. Það virðist allir hafa svo miklar skoðanir á ófrískum konum og nýbökuðum mæðrum, hvað þær eiga að gera og ekki gera. Hvernig þær líta út eða ættu að líta út!

Ég held að fólk ætti að æfa sig í að halda þeim fyrir sjálft sig og leyfa hverri konu að leita sjálf eftir ráðum ef þeim vantar. Þetta er stórt og mikið verkefni og alveg nóg af áhyggjum og hugsunum sem veltast um í höfðinu á þessum tíma, það er óþarfi að troða óumbeðnum skoðunum annarra að líka.“

Er eitthvað hlutverk betra eða meira spennandi en móðurhlutverkið?

„Það er auðvitað ekkert í lífinu sem jafnast á við þá tilfinningu að verða mamma, og að vera mamma á hverjum degi. Þetta er verkefni sem tekur svo mikið á en það gefur svo margfalt til baka, þess vegna elskar maður svo óendanlega mikið -þrátt fyrir allt!“

Birna Rún er dugleg að veita fólki innsýn í móðurhlutverkið og vinnuna á Instagram og í sögu (Story) á Instagram. 

View this post on Instagram

Að vakna við þetta bros eru lífsgæði á öðru leveli 🙏🏼

A post shared by Birna Eiríksdóttir (@birnaruneiriks) on May 17, 2019 at 3:27pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert