Þarf ekki að vera „fullkomið“ taubleyjuforeldri

Hildur Jósteinsdóttir notar taubleyjur á soninn Ágúst Flóka.
Hildur Jósteinsdóttir notar taubleyjur á soninn Ágúst Flóka. ljósmynd/Eirikur Ingi Bengtsson Helgason

Hildur Jósteinsdóttir eignaðist soninn Ágúst Flóka með kærasta sínum Sævari Ólafssyni síðasta sumar. Þau Sævar hafa verið dugleg að nota taubleyjur síðan Ágúst Flóki fæddist en segir þó mikilvægt að leyfa sér að nota bréfbleyjur af og til. Hildur mun miðla af reynslu sinni ásamt fleiri foreldrum í Barnaloppunni á sunnudaginn klukkan 11:00. „Þar geta áhugasamir foreldrar, afar, ömmur og allir sem hafa áhuga komið og spurt um allt sem þeim dettur í hug í sambandi við taubleyjur,“ segir Hildur um kynninguna.

Hvernig hefur ykkur gengið að nota taubleyjur?

„Okkur hefur gengið mjög vel og já, það er alltaf tími til þess. Auðvitað fer svolítill tími í að þvo og hengja upp en það er vel viðráðanlegt og þægilegra ef fólk á þurrkara get ég ímyndað mér. Við pössum okkur samt að láta þetta aldrei verða kvöð og við ákváðum í upphafi að „leyfa okkur“ að nota bréfbleyjur ef svo ber undir. Það gerist þó sárasjaldan. Þegar við vorum erlendis um daginn og höfðum ekki aðgang að þvottavél notuðum við bréfbleyjur og vorum meðvituð um að hafa ekki samviskubit yfir því,“ segir Hildur um taubleyjunotkunina. 

Varst þú alltaf viss um að þú ætlaðir að nota taubleyjur?

„Ég hafði hugsað þetta og við Sævar ræddum það áður en Ágúst Flóki fæddist en við vorum samt ekki búin að taka ákvörðun. Stuttu eftir að hann fæddist fengum við lánaðar nokkrar bleyjur til að prófa og örfáum dögum síðar var ég búin að kaupa 10 til 15 stykki og við komin á fullt með þetta. Við keyptum langflestar notaðar svo við þurftum ekki að kosta miklu til. Þegar maður kaupir notaðar bleyjur þarf að athuga vel ástand á teygjum, PUL-efni, smellum og svo framvegis.“

Kostir þess að nota taubleyjur?

„Fyrir okkur snýst þetta fyrst og fremst um að fara vel með umhverfið en auðvitað er þetta líka ódýrara en að nota bréfbleyjur, sérstaklega ef keyptar eru notaðar bleyjur. Við notum líka fjölnota klúta í stað einnota sem við hendum svo í þvott með bleyjunum. Svo eru taubleyjubossar líka svo hrikalega sætir,“ segir Hildur og brosir. 

Taubleyjubossar eru sætir.
Taubleyjubossar eru sætir. Ljósmynd/Aðsend

Ert þú meðvituð um umhverfisvernd á annan hátt í barnauppeldinu?  

„Algjörlega. Við tökum ennþá betur eftir öllu plastinu og umbúðunum sem fylgja öllum varningi eftir að við eignuðumst Ágúst Flóka. Bleyjur, blautþurrkur, snyrtivörur, barnamatur (ef hann er keyptur tilbúinn), allt kemur þetta í plastumbúðum. Það sama á við um barnaföt sem oft eru pökkuð í plast og pappa. Við reynum að kaupa sem mest notað enda er ég mjög tryggur fastakúnni í Barnaloppunni. Við erum líka meðvituð um úr hverju leikföngin hans eru búin til og hvar þau eru framleidd.“

Það getur verið mikil pressa á nýbökuðum foreldrum og kannski einhverjir sem líta á taubleyjur og annað tengt umhverfisvernd sem aukaálag. Hvernig hefur ykkur gengið?

„Að sjálfsögðu þarfnast þetta aðeins meiri skipulagningar og tíma en ég held að mikilvægast sé að detta ekki í „annaðhvort eða“-hugarfar. Það „má“ nota bréfbleyjur af og til þó að maður noti oftast taubleyjur. Ég held að þetta hugarfar valdi því að fólk gefist upp, því finnst það þurfa að vera „fullkomnir“ taubleyjuforeldrar. En mér finnst mikilvægast að hafa í huga að hver taubleyja skiptir máli og enginn er fullkominn. Þá kemur þetta frekar smátt og smátt. Það er gott að skipuleggja sig vel og reyna að líta ekki á þetta sem eitthvað auka heldur einn þátt í að vernda umhverfið okkar. Svo kemst þetta líka upp í vana. Við eigum til dæmis nógu margar bleyjur til að geta þvegið annan hvern og jafnvel þriðja hvern dag. Það hentar okkur vel. Hver og einn verður að finna hvað hentar í þessu eins og öðru og ég held að það sé gott að heyra frá öðrum foreldrum til að fá hugmyndir og tilfinningu fyrir hvað hentar. Ég hvet alla til að kíkja á kynninguna í Barnaloppunni á sunnudaginn.

Hildur og Sævar leyfðu sér að nota bréfbleyjur þegar þau …
Hildur og Sævar leyfðu sér að nota bréfbleyjur þegar þau fóru með Ágúst Flóka til útlanda. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert