Var með sterkar skoðanir á fæðingunni

Tinna Rún með Nóel Móra glænýjan.
Tinna Rún með Nóel Móra glænýjan. Ljósmynd/Aðsend

Tinna Rún Kristófersdóttir og Bjartur Snorrason eignuðust soninn Nóel Móra 20. ágúst í fyrra. Tinna Rún átti erfitt með að verða ólétt en að lokum varð Nóel litli til. Meðgangan gekk ekki áfallalaust fyrir sig en Tinna Rún glímdi meðal annars við meðgöngusykursýki. Að lokum kom þó sonurinn í heiminn og segir Tinna Rún að tilfinningin hafi verið ólýsanleg þótt öll plön um vatnsfæðingu án deyfingar hafi ekki gengið eftir. 

Tinna Rún segir að þau Bjartur hafi verið búin að reyna að geta barn í töluverðan tíma, fyrst með því að sleppa getnaðarvörnum og sjá hvað myndi gerast og svo með hjálp frá kvensjúkdómalækni. 

„Ég hef alltaf haft mjög óreglulegar blæðingar og vitað að ekki sé allt með „felldu“ en farið milli lækna og fengið misgóð svör og aldrei greind með neitt. Eftir um tvö ár án getnaðarvarna fann ég svo loks lækni sem staðfesti það sem mig grunaði að ég væri með PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni). Hann leysti mig út með nokkrum lyfseðlum og sagði við mig að ég yrði ólétt fyrir desember. Þetta var í maí 2017,“ segir Tinna Rún. 

Línan varð alltaf dekkri

„Svo líður tíminn og ekkert bólar á óléttu. Ég búin með lyfin og nú komið fram í nóvember. Þá hafði ég verið að mæla hitastig hjá mér á morgnana til að finna út um egglos. Í byrjun desember hef ég svo ekki haft blæðingar í rúman mánuð, hitastigið hjá mér helst í hærri kantinum og ég var aum í brjóstunum þannig að mig fer að gruna að ég gæti verið ófrísk. Ég tek óléttupróf sem reynist neikvætt. Nokkrum dögum seinna er ég enn aum í brjóstum og ákveð að taka annað próf og viti menn ég fæ þessa rosalega ljósu jákvæðu línu. Ég þorði ekki að trúa þessu og Bjartur reyndi að halda mér niðri á jörðinni, en næstu daga tók ég fleiri og alltaf varð línan dekkri. Ég var ófrísk!

Við fáum tíma í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni í byrjun janúar sem staðfestir óléttuna og allt lítur vel út. Biðin eftir 12 vikna sónar á kvennadeildinni var mér óbærileg og ég upplifði mikinn kvíða, var alltaf alveg viss um að það væri eitthvað að. Svo ég panta annan tíma hjá kvensjúkdómalækni í snemmsónar á níundu viku og þar var krílið í fullu fjöri. Kvíðinn var að miklu leyti vegna þess að ég fékk fá einkenni fyrir utan aum brjóst, engin ógleði, engin brjáluð þreyta svo að mér fannst einhvern veginn alltaf hanga yfir mér þessi efi um að hlutirnir væri ekki eins og þeir ættu að vera. En 12 vikna sónar leit svo líka vel út og ég fæ snemma kúlu og smám saman fór ég að hafa minni efasemdir.

Tinna Rún Kristófersdóttir og Bjartur Snorrason með soninn Nóel Móra …
Tinna Rún Kristófersdóttir og Bjartur Snorrason með soninn Nóel Móra Bjartsson. Ljósmynd/Aðsend

Kvíðinn hékk samt alltaf yfir mér og bauðst mér í gegnum mæðravernd að fara á HAM-námskeið fyrir verðandi mæður og mæli ég hiklaust með því fyrir aðrar konur sem upplifa kvíða á meðgöngu. Fyrir utan að læra helling af námskeiðinu þá var ótrúlega gott að hitta aðrar konur í sömu sporum og heyra þeirra sögur.“

Meðgöngusykursýki kom á óvart

„Í 20 vikna sónar kemur í ljós að ég er með mjög mikið legvatn sem getur bent til meðgöngusykursýki, ég er send beint í blóðprufur til að athuga með möguleika á ýmsum sýkingum og mæti í annan sónar nokkrum vikum seinna. Þá er staðfest að ég er með töluvert meira legvatn en eðlilegt er (kannski útskýrir stærðina á kúlunni, en hún var mjög stór). Ég er send svo í sykurþolspróf og þar staðfest að ég er með meðgöngusykursýki sem kom mér verulega á óvart.

Við tóku rúmar 16 vikur af því að meiga ekki borða neitt að mér fannst. Seinni hluti meðgöngunnar gekk ágætlega ég tók mataræðið föstum tökum og það gekk mjög vel. Fékk það svo staðfest á 30. viku að legvatnið væri nær eðlilegra marka og mataræðið greinilega að virka.

Tinna Rún með Nóel Móra.
Tinna Rún með Nóel Móra. Ljósmynd/Aðsend

Kvíðinn hafði lagast töluvert eftir að ég byrjaði á kvíðalyfjum og reyndi eins og ég gat tileinka mér HAM. Ég stundaði meðgöngujóga af fullum krafti frá 14. viku og fannst mér það hjálpa mikið til við að slaka á bæði líkama og sál.

Þegar leið á ágúst var ég orðin mjög þung á mér en reyndi að labba, hjóla, synda og stunda jóga eins mikið og ég treysti mér til en ég hafði gert það allt af fullum krafti alla meðgögnuna. Ég var með sterkar skoðanir á því hvernig ég vildi að fæðingin yrði og langaði mig helst að takast á við þetta verkefni án mænudeyfingar og í vatni.“

Bjuggust við að fæðingin tæki lengri tíma

„Þann 18. ágúst var menningarnótt og röltum við Bjartur í bæinn. Ég grínast og sagðist ætla að labba hann út en settur dagur var 23. ágúst. Aðfaranótt 19. ágúst fæ ég svo verki, þeir voru reglulegir með 11 mínútum á milli. Ég náði þó að sofna aftur og vakna um morguninn verkjalaus og svekkt, var alveg viss um að ég væri að fara stað þarna um nóttina. Ég ákvað samt að labba út í bakarí og fara lengri leið heim og sjá hvort það myndi ekki eitthvað gerast. Um tvöleytið fórum við svo í bíltúr og ég bað Bjart að keyra ofan í allar holur. Viti menn verkirnir komu aftur!

Tinna Rún Kristófersdóttir og Bjartur Snorrason eignuðust soninn Nóel Móra.
Tinna Rún Kristófersdóttir og Bjartur Snorrason eignuðust soninn Nóel Móra. Ljósmynd/Aðsend

Við fengum okkur svo kvöldmat og ég var með væga verki og alls ekki reglulega, þegar ég ætlaði svo að reyna að sofna voru verkirnir orðnir mjög slæmir, ég hringi upp á deild um 22 og læt vita af mér. Á miðnætti eru þeir orðnir svo slæmir að ég treysti mér ekki til þess að vera heima lengur og hringi upp á deild og þær segja mér að koma að láta kíkja á mig. Þegar við komu upp á deild er ég skoðuð og er leghálsinn full styttur og ég komin með þrjá í útvíkkun. En á meðan við vorum í skoðunarherberginu var eins og það hefði bara verið ýtt á takka og allt í einu voru verkirnir að koma með tveggja mínútna millibili. Ljósmóðirin ákveður að bóka okkur í fæðingarstofu.

Ég var alveg viss um að við yrðum send heim svo þetta kom smá á óvart. Bjartur stekkur út í bíl og nær í töskuna okkar og ég kem mér fyrir í herberginu. Ljósmóðirin lætur renna í bað fyrir mig og Bjartur kom sér þægilega fyrir í stól enda alveg viss um að þetta væri að fara að taka að minnsta kosti sólarhring. En eftir rúman klukkutíma í baðinu voru verkirnir orðnir mjög slæmir og ég fékk glaðloft. Stuttu seinna verður mér alveg hrikalega heitt og finnst orðið óbærilegt að vera í baðinu og fer upp úr. Rúmum tólf tímum eftir fyrstu verki eru þeir orðnir svo slæmir og stutt á milli þeirra eða um ein mínúta að ég nefni við ljósmóðurina að ég vilji fá mænudeyfingu. Þarna er mér svo heitt að Bjartur hafði ekki undan að bleyta þvottapoka til að leggja á ennið á mér eða fylla vatnsflöskuna mína. Ég var með rosalega sótt og orðin mjög þreytt. Öll mín plön um vatnsfæðingu án deyfingar voru fokin út um gluggann. En á þessu mómenti var mér bara alveg sama, ég vildi bara hvíld.

Um þrjú kemur svæfingalæknir og ég fæ mænudeyfingu. Mænudeyfingin virkaði bara vinstra megin hjá mér svo að svæfingalæknirinn kemur aftur og lagar hana og þá er eg komin með tvöfalda deyfingu vinstra megin. Ég stend upp til að pissa og fegin að fá smá hvíld frá verkjunum. Þegar ég leggst svo í rúmið aftur fæ ég þessa rosalegu þörf til þess að kúka og segi það við ljósuna. Hún segir að ég þurfi sko ekkert að kúka og skoðar mig og þá kemur í ljós að ég er búin með útvíkkun og komin með rembingsþörf. Þannig að mænudeyfingin var smá óþarfi, en ég var samt mjög fegin að fá þessar mínútur í hvíld!

Þarna var Bjartur auðvitað bara mjög hissa á þessu öllu og ég eiginlega líka, það sem við vissum var að frumbyrjur væru oft lengi að fæða og vorum við alveg viss um að þetta væri að fara að taka svo svakalega langan tíma. En ég byrja að rembast og átti smá erfitt með það fyrst að fatta hvert ég ætti að vera að rembast, þetta var ótrúlega erfitt og fékk ég mjög oft yfirliðstilfinningu og einnig miklar efasemdir um eigin getu. Sagði svo oft „ég get þetta ekki“ en Bjartur og ljósmóðirin voru dugleg að hvetja mig áfram svo ég endaði oftast á því að garga „ég get þetta“.

Tinna Rún hélt á Nóel í fanginu þegar hún fæddi …
Tinna Rún hélt á Nóel í fanginu þegar hún fæddi fylgjuna. Ljósmynd/Aðsend

Eftir rúman klukkutíma að rembast kom drengurinn allur út í einum rembingi klukkan 05:06. Þessi tilfinningin var ólýsanleg. Ég fæddi svo fylgjuna fljótlega eftir með Nóel í fanginu og okkur fannst alveg magnað að sjá hana. Svo tók við smá saumaskapur en ég fékk annars stigs rifu á spöng. Mér fannst svo súrrealískt að halda á barninu mínu og dást að því á meðan það væri verið að sauma á mér klofið. Um áttaleytið hringi ég svo í foreldra mína og læt þau vita að þau séu orðin amma og afi og við komum okkur fyrir á sængurlegudeildinni. Við þurftum að vera uppi á deild fram að kvöldi vegna þess að það þurfti að mæla blóðsykur hjá Nóel vegna sykursýkinnar hjá mér, en fórum heim um kvöldið þar sem okkur langaði að eiga fyrstu nóttina okkar saman heima.

Við tóku margir erfiðir dagar að koma honum almennilega á brjóst, en ég endaði á að nota Mexíkanahatt vegna þess að Nóel saug svo vitlaust og var bara að búa til sár. Þegar hann var um fjögurra mánaða hættum við að nota hattinn og brjóstagjöfin hefur verið yndisleg síðan þá. Hann er núna níu mánaða og drekkur enn vel á brjósti ásamt því að borða.“

Allar konur sem fæða börn miklir naglar

„Mér fannst lengi vel mjög erfitt að sætta mig við að hafa beðið um deyfingu, leið smá eins og ég væri minni kona fyrir að hafa ekki fætt hann án deyfingar. En í dag geri ég mér grein fyrir því að fæðingar eru bara ótrúlega mismunandi og sumar konur upplifa hræðilegar fæðingar á meðan fyrir aðrar eru þær bara mjög fínar. En sama hvað þá er fæðing alltaf erfið og við erum allar jafn miklir naglar sama hvernig við komum börnunum okkar í heiminn.“

Tinna Rún gerir sér grein fyrir því í dag að …
Tinna Rún gerir sér grein fyrir því í dag að allar fæðingar eru mismunandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert