Sumarið er vandasamur tími fyrir unglinga

Upplýsingar af vefnum geta verið villandi fyrir unglinga að mati …
Upplýsingar af vefnum geta verið villandi fyrir unglinga að mati Guðrúnar, ráðgjafa hjá Foreldrahúsi. mbl.is/Colourbox

Guðrún Björg Ágústsdóttir sérfræðingur og ráðgjafi í Foreldrahúsi er á því að best sé að tala við unglinga um erfið málefni undir kringumstæðum sem eru vinalegar, svo sem í bíltúr. Hún segir það besta sem foreldrar unglinga geta gert sé að halda með börnunum sínum og fyrirgefa þeim þegar þau þurfa á því að halda. Það versta sem hægt er að gera tengt þeim er að hafa þau afskiptalaus.

Hvað er að frétta úr Foreldrahúsi, leggst sumarið vel í ykkur?

„Það leggst ekki alveg nógu vel í okkur. Mér finnst vera aukning af ungum krökkum hjá okkur í vanda. Sumarið er alltaf sá tími sem flestir unglingar prófa vímuefni og áfengi fyrst. Aðgengið er ákaflega auðvelt á þessum árstíma og við hjá Foreldrahúsi höfum fundið fyrir aukningu á þessu sviði hjá okkur.“

Í Foreldrahús leita foreldrar með unglinga sína þegar m.a. um áfengis- og vímuefnavanda er að ræða. 

Guðrún segir að vandinn í dag sé sá að unga fólkið okkar sé frjálslyndara gagnvart vímuefnum en oft áður. 

„Börnin eru yngri að prófa sig áfram og halda að þetta sé ekkert mál.“

Guðrún hefur áratugareynslu sem ráðgjafi fyrir bæði foreldra og unglinga …
Guðrún hefur áratugareynslu sem ráðgjafi fyrir bæði foreldra og unglinga í vanda. Ljósmynd/Aðsend

Misvísandi upplýsingar í boði fyrir unglinga

Hvaða vímuefni eru þau að prófa?

„Þetta er aðallega gras. Það er vinsælast enda er það selt til unglinga sem algjörlega skaðlaust náttúrulegt efni sem verið er að lögleiða víða um heiminn. Þau eru einnig að drekka áfengi og að prófa sig áfram með efni á borð við LSD, amfetamín, kókaín og síðan þessi lyf sem ganga kaupum og sölum og allir óttast.“

Hvaða bylgja er í gangi tengd LSD?

„Það er mikið verið að skrifa um LSD á netinu og þetta kemur í bylgjum. Fullorðið fólk, jafnvel læknar úti í heimi, eru að nota lyfið í meðferðum, til að opna hugann og fleira í þeim dúrnum. 

Alnetið er að hafa áhrif á unga fólkið okkar og eru alls konar fréttir sem standast ekki raunveruleikann að rata til þeirra og rugla þau í ríminu.“

Að unglingar verði ekki einir of snemma

Guðrún er á því að mikilvægt sé fyrir unglingana okkar að foreldrar haldi þeim nálægt sér sem lengst. Það að unglingar fái ekki að vera unglingar of snemma eins og hún orðar það sjálf.

„Unglingar nenna ekki að vera með okkur foreldrunum lengur, þau eru orðin stór og hafa meira gaman af því að hanga með jafnöldrum sínum. Foreldrar þurfa að þora að vera ákveðin með það atriði að taka þau með sér. Þótt það þýði að þau fari stundum í fýlu eða þurfi að hafa vini sína með. Margir foreldrar láta sig hafa það að vera með hóp af unglingsvinum með sér. Það tilheyrir þessum aldri að vilja vera með krökkum á sínum aldri.“

Það sem Guðrúnu finnst mikilvægast með uppeldi unglinganna okkar er að þeim séu sett skýr mörk. Að talað sé við þá um hvað má og hvað má ekki, helst áður en þeim dettur í hug að prófa sjálfir. Að vita hvað er í gangi hjá þeim er einnig mikilvægt, þeir prófa gjarnan fyrst hugbreytandi efni með vinum. 

Hverjar eru helstu áskoranir unglinga í dag?

„Það er náttúrulega þessi rafræni heimur sem þau lifa í. Allar upplýsingarnar sem þau ná í á netinu og síðan falsfréttir, klám og fleira sem meiðir.

Þess vegna er svo mikilvægt að ná til þeirra með heilbrigð sjónarhorn og að vita hvað þau eru að gera, sem getur verið áskorun fyrir eldra fólk sem er ekki inni í hvað er að gerast í heimi unga fólksins í dag.“

Það er gott ráð að halda unglingum uppteknum

Hvað eru foreldrar að gera vel á Íslandi?

Það má hrósa foreldrum fyrir að halda unglingunum sínum uppteknum. Þegar krakkar eru í tónlist og tómstundum þá er minna vesen á þeim og foreldrarnir vita hvar þau eru.“

Hvað eru foreldrar að gera illa?

„Það er kannski erfitt að segja að þau séu að gera eitthvað illa, en illa upplýstir foreldrar eru stundum í vanda. Ég er ekki að meina að það þurfi að hundelta unglingana um bæinn, en það er svo margt sem tekur ekki mikið pláss og tækninni fleygir fram á þessu sviði sem öðrum. Við sem vinnum hér í Foreldrahúsi þurfum stöðugt að vera að fræðast og fylgjast með, það ættu foreldrar að gera líka.“ 

Hvað með klámnotkun?

„Þessi rafræni heimur sem krakkarnir lifa í er með alls konar efni. Klám er eitt af því sem við sjáum greinilega áhrif tengd. Ef foreldrar eru ekki með vörn í símanum eða tölvunni tengt því þá getur vandi skapast. Það eru að koma upp vandamál tengd klámi þar sem við sjáum allt of unga einstaklinga lenda í kringumstæðum sem þau ættu ekki að vera í, en eru til komnar vegna neyslu á klámi.“

Flestir foreldrar eru ráðþegnir

Guðrún segir flesta foreldra mjög ráðþegna þegar kemur að börnum þeirra, enda séu oft litlir hlutir sem virka vel til að koma unglingum á beinu brautina. 

„Unglingar eru með alls konar sögu, sumir með áfallasögu og annan vanda sem tvinnast inn í neyslusögu þeirra. Það er líka innbyggt í okkur foreldrana að vera meðvirk með börnunum okkar. Þau eru lítil og fullkomin, verða síðan áhugaverð börn sem alast upp og segja okkur vanalega alltaf satt. Síðan í kringum 11 og 12 ára aldurinn þá eru þau að margra mati hvað yndislegust, alltaf til í hluti, ekkert vesen á þeim og svo breytast hlutirnir á unglingsárum. Það er í eðli unglinga að vera forvitnir og hvatvísir. Því megum við aldrei gleyma. Þeir reka sig á og það er allt í lagi, en ef við getum leiðrétt þá og látið þá hafa réttu upplýsingarnar þá eru alltaf minni líkur á að þeir fari sér að voða.

Hins vegar tek ég eftir því að foreldrar í dag eru voðalega uppteknir. Báðir eru í fullri vinnu, líkamsrækt og fleira. Samvera í formi torfbæjartíma er liðinn, en við sjáum þegar við fáum heilu fjölskyldurnar til okkar í nokkra tíma, þar sem allir setjast niður og tala saman, að það gerist hellingur út frá svoleiðis samtölum.“

Guðrún segir að sjálfsögðu frábært að elska unglingana skilyrðislaust, þá verða unglingar alltaf unglingar og þau þurfa á leiðbeiningu að halda og samveru við þá sem eldri eru.“

Fyrirgefningin mikilvæg

Hvað er besta uppeldisráð sem þú hefur heyrt?

„Að fyrirgefa.“

Hvað áttu við með því?

„Við verðum að muna að það gera allir mistök, það ætti aldrei að setja unglinga í þá stöðu að þeim líði ekki vel með sig. Það eiga allir skilið annan séns, sér í lagi þeir sem eru á unglingsaldri.“

Hvert er þá versta uppeldisráð sem þú hefur heyrt?

„Það versta að mínu mati er að láta krakkana algjörlega afskiptalausa og að setja þeim ekki mörk. Að sýna þeim ekki áhuga og að taka ekki þátt í lífinu þeirra. Foreldrar geta verið alls konar og með sín vandamál, en það versta sem til er að mínu mati er þegar unglingar upplifa sig eina í heiminum. Þegar þeir upplifa sig ekki skipta máli.“

Guðrún segir að lokum að stundum geti verið flókið að ná upp flæði í samtali við unglinginn. 

„Það er alltaf hægt að finna leiðir. Ef við erum mikið að ala þau upp og skammast í þeim þá fara þau í vörn. Ef foreldrið er kvíðið, þá vilja þau ekki auka á kvíðann. Það er því verðugt verkefni að vinna í sér þannig að maður geti verið til staðar fyrir unglinga, á þann hátt sem virkar fyrir alla. Börn, konur og karla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert