Ráð fyrir konur til að sofa betur á meðgöngu

Það getur verið erfitt að sofa vel á meðgöngunni. Að …
Það getur verið erfitt að sofa vel á meðgöngunni. Að taka öll raftæki út úr svefnherberginu getur verið nauðsynlegt. Ljósmynd/Colourbox

Það kemur ekki á óvart að vefurinn Thrive Global er með ráð fyrir verðandi mæður tengd svefni. Stofnandi vefjarins, rithöfundurinn Arianna Huffington, er ein af þeim konum sem talar fyrir góðum svefni hvert sem hún kemur. 

Huffington, sem stofnaði einnig Huffington Post, er að margra mati mikill frumkvöðull þegar kemur að velferð hvort heldur sem er í sínum eigin fyrirtækjum eða í samfélaginu. Hún segir mikilvægt að hvílast vel og að svefn sé grunnforsenda vellíðunnar. 

Í greininni segir m.a. að svefntruflanir séu alltaf til að auka á streitu yfir daginn. Þegar kemur að óléttum konum eru svefnvandamál áberandi, enda eru margar konur sem eiga von á barni með erfiðleika þegar kemur að því að sofa. 

„Ófrískar konur eru margar hverjar með bakverki, verki í mjöðmum, brjóstsviða og sumar hverjar þurfa að vakna oft yfir nóttina til að fara á snyrtinguna,“ segir Melisa Moore sem starfar sem sálfræðingur. 

Moore er á því að konur skyldu gera raunhæfar væntingar þegar kæmi að svefni á meðgöngunni. Eftirfarandi atriði eru eitthvað sem konur ættu að hafa í huga að hennar mati. 

Járn getur verið mikilvægt á meðgöngu

Moore er á því að flestar konur séu duglegar að taka fólinsýru og fjölvítamín á meðgöngunni. Hún segir járn hins vegar eitthvað sem margar gleyma að skoða tengt svefninum. Lágt járn í blóðinu getur valdið fótapirringi að hennar mati. Moore leggur áherslu á að konur fari yfir þessi mál með sérfræðingi eða lækninum sínum.  

Að sofa á vinstri hliðinni

Moore segir að konur byrji stundum að hrjóta tímabundið á meðgöngunni og að andardráttur þeirra geti verið óreglulegur þegar þær liggja á bakinu.

Hún er á því að konur skyldu sofa meira á vinstri hliðinni. Þá taki þær þrýsting af lifrinni og auki blóðflæðið til legsins, nýrna, fylgjunnar og fóstursins. 

Að nota púða

Moore er á því að koddar séu góð fjárfesting fyrir konur á meðgöngunni. Til eru sérstakir óléttupúðar en svo má raða púðum undir líkamann á þeim stöðum sem þarf. Slíkt léttir álagi af mjöðmum, baki og hnjám svo dæmi séu tekin. 

Að standa upp ef svefninn er ekki að ganga vel

Moore mælir með að konur standi upp ef þær eiga erfitt með svefn á nóttunni. Að berjast við svefninn, með því að liggja kyrr vakandi um nóttina sé slæm hugmynd. Hún mælir með að lesa bók sem er róandi, frekar en að kveikja á tölvunni eða sjónvarpinu. 

Að fjarlægja raftæki úr svefnherberginu

Moore segir það gott ráð að sofa ekki með síma eða tölvu í svefnherberginu. Hún segir að gott sé að slökkva á símanum hálftíma fyrir svefn og að lesa bók fyrir svefninn ætti alltaf að vera í forgangi framar því að kveikja á sjónvarpinu fyrir háttinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert