Ætlar að keppa í því að vera góð mamma

Björk segir hreyfingu á meðgöngu gera mikið fyrir líkama og …
Björk segir hreyfingu á meðgöngu gera mikið fyrir líkama og sál. Ljósmynd/Joey Palmroos

Björk Óðinsdóttir er vön að vera létt á fæti og jafnvel að stökkva yfir grindverk ef þau verða á vegi hennar. Hún býr á Akureyri þar sem stórfjölskylda hennar býr einnig. Hún á von á barni 23. október. 

Björk er almennt mikið fyrir hreyfingu og hefur raðað inn verðlaunum á síðustu árum fyrir afrek sín á sviði crossfit og í hópfimleikum. 

Hún vann sem dæmi gull á EM í hópfimleikum með Gerplu árið 2010. Lenti í öðru sæti á Evrópumóti í crossfit og fékk þátttökurétt í CrossFit Games árið 2014 þar sem hún lenti í 19. sæti. Síðan hreppti hún fyrsta sætið í Evrópuleikum í crossfit-liðakeppni árið 2016.

Hún tekur lífinu með ró og er ekki í keppnishug í dag, nema þá kannski þegar kemur að móðurhlutverkinu.

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Ég er gengin 20 vikur og hefur meðgangan gengið alveg ótrúlega vel hingað til. Ég get ekkert kvartað, þar sem ég hef ekki fundið fyrir ógleði eða óþægindum.“

Hvernig hefur þú æft á meðgöngunni?

„Ég byrjaði að minnka við mig álagi í raun áður en ég varð ófrísk. Ég varð fyrst ófrísk í október í fyrra en missti fóstrið á níundu viku. Þessi reynsla varð til þess að ég ákvað að minnka álagið strax á líkamann við þessa meðgöngu. 

Það tók mig langan tíma að ná mér aftur á strik í fyrra, bæði líkamlega og andlega. En ég varð ófrísk aftur stuttu eftir atvikið eða í lok janúar. 

Eftir þessa reynslu hef ég hlustað vel á líkamann og geri einungis það sem mér líður vel að gera. Ég held að allar meðgöngur séu ólíkar og maður verður bara að læra að hlusta á líkamann sinn og að hugsa ekki um of hvað aðrir eru að gera. Hreyfing hefur alltaf hjálpað mér mikið í að líða betur andlega sem og líkamlega.

Björk hefur lengi dreymt um að vera mamma.
Björk hefur lengi dreymt um að vera mamma. Ljósmynd/Aðsend

Ég æfi daglega í klukkustund og reyni að ganga og synda eins mikið og ég get.“ 

Hvernig er fyrir manneskju sem æfir eins og atvinnumanneskja að ganga með barn?

„Ég er búin að bíða lengi eftir því að verða ófrísk og þess vegna hef ég hlakkað mikið til meðgöngunnar. Þannig að andlega finnst mér ég tilbúin í þetta verkefni og fer ég því sátt frá íþróttinni í þetta sinn.

En auðvitað er þetta mikil breyting og held ég að stærstu viðbrögðin séu að hafa ekki lengur þetta stóra markmið sem ýtir mér áfram í æfingunum. Ég fann því fyrir tómleikatilfinningu fyrst um sinn, en hef nú náð að breyta markmiðunum mínum og er bara með aðrar áherslur í dag.

Björk ásamt eiginmanni sínum Blaine McConnell.
Björk ásamt eiginmanni sínum Blaine McConnell. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðin í dag eru að vera í eins góðu formi og ég get til að fara í gegnum fæðinguna eins vel og hægt er og síðan að jafna mig eftir hana. Svo langar mig einnig að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín og að sýna gott fordæmi í hreyfingu og lífstíl.“

Stefnir þú aftur í fremstu röð eftir barnsburð?

„Eins og staðan er í dag, þá er ég tilbúin að leggja það til hliðar að vera afreksíþróttakona og stefni á að vera „súper“-mamma í staðinn.

Mig langar í nokkur börn og hef áhuga á að fara meira út í þjálfun. Ég gæti hugsað mér að opna eigin stöð og að aðstoða aðra í átt að betri lífstíl. 

En að sjálfsögðu býr mikill keppniskraftur í mér og aldrei að vita nema að ég fari aftur að keppa.“

Hvað gerir þú til þess að undirbúa þig fyrir fæðinguna?

„Ég hreyfi mig reglulega, teygi vel á vöðvum og þá sér í lagi á mjöðmum. Eins borða ég hollt fæði.“

Hefur eitthvað komið þér óvart á meðgöngunni?

„Í raun ekki margt. Mér finnst meðgangan eins og ég hafði hugsað mér hana áður, svo oft líður mér eins og ég hafi verið ófrísk áður.

Það eina sem er kannski skrítin tilfinning er að þyngjast svona hratt. Maginn er nú þegar orðinn mjög stór og eru sumar hreyfingar erfiðari en áður. Sem dæmi getur verið flókið að komast í sokkana á morgnana. Síðan getur maður ekki bara stokkið yfir grindverk eins og áður. Ég er ekki eins létt á fæti og ég er vön að vera.“

mbl.is