Stefnir á að komast í sitt besta form eftir fertugt

Embla litla fær að koma með mömmu sinni á æfingar.
Embla litla fær að koma með mömmu sinni á æfingar. Aðsend mynd

Elín Jónsdóttir er meðeigandi líkamsræktarstöðvarinnar Grandi101 og móðir þriggja yndislegra barna, Jóns Frosta sem er að verða 5 ára, Jónasar Nóa, 1 og hálfs árs og Emblu 3 mánaða. Elín hefur getað æft fram á síðasta dag á öllum meðgöngunum og segir það ótrúlegt hvað ein stutt æfing getur gert mikið fyrir andlega líðan.

Hvernig breytti móðurhlutverkið þér?

Mér finnst ég ekki hafa breyst mikið sem manneskja eftir að ég varð móðir en ég hef að einhverju leyti orðið betri útgáfa af sjálfri mér. Ég er t.d. mikið þolinmóðari (sérstaklega gagnvart börnunum mínum), yfirvegaðri og þakklátari.

Kom eitthvað þér á óvart við móðurhlutverkið?

Nei, í rauninni ekki. Ég bjóst við að þetta yrði í senn mest krefjandi hlutverkið og það dásamlegasta og þannig er það í raun.

Elín gat æft fram á síðasta dag á öllum meðgöngunum.
Elín gat æft fram á síðasta dag á öllum meðgöngunum. Ljósmynd/Aðsend

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum að gera hlutina á ákveðinn hátt?

Nei, ég get ekki sagt það. Ég fylgi ákveðnum gildum í því sem ég geri og reyni að láta samfélagsmiðla ekki hafa áhrif þar um. Auðvitað get ég samt fengið hugmyndir frá samfélagsmiðlum sem ég nýti mér.

Nýttir þú þér bumbuhópa eða ertu í mömmuklúbb?

Ég hef alltaf æft með öðrum nýbökuðum mæðrum eftir mínar fæðingar en ekki verið í sérstökum mömmuklúbb. Eftir síðustu tvær fæðingar hef ég verið í MömmuFit á Granda101 þar sem ég hitti fullt af frábærum mömmum þrisvar sinnum í viku. Það er nauðsynlegt að hafa einhverja rútínu í deginum og fátt þykir mér mikilvægara en að mæta á æfingu - hitta þar aðrar mæður og rækta í leiðinni bæði líkama og sál.

Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

Ég hef svo sannarlega þurft þess. Áður en ég eignaðist börnin mín var lífið yfirleitt einfalt og auðvelt. Ég gat gert það sem ég vildi þegar ég vildi. Núna hins vegar ganga börnin mín alltaf fyrir, þau eru númer eitt.

Elín aðlagaði æfingarnar á meðan meðgöngu stóð.
Elín aðlagaði æfingarnar á meðan meðgöngu stóð. Ljósmynd/Aðsend

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

Að gleyma ekki að hugsa um sig. Hamingjusamari mamma = hamingjusamara barn.

Hvernig mamma vilt þú vera?

Ég vil vera ást- og kærleiksrík mamma sem sýnir börnum sínum umhyggju og stuðning sama hvað. Þá vil ég vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín og legg mikla áherslu á heilbrigt og heilsusamlegt líferni.

Hvernig æfðiru á meðgöngunum?

Ég hef verið mjög heppin á mínum þremur meðgöngum og getað æft fram á síðasta dag. Ég hef mætt í CrossFit tíma en skalað æfingarnar eftir þörfum þar sem megináherslan með æfingunum er að mér og barninu mínu líði vel. Að mæta á æfingar á meðgöngunum hefur verið mér mjög mikilvægt, ekki síður andlega en líkamlega. Það er ótrúlegt hvað ein stutt æfing getur bætt andlega líðan og gefið aukna orku.

Hvernig komstu þér aftur af stað eftir fæðingu?

Eftir allar þrjár fæðingarnar byrjaði ég aftur að æfa nokkrum vikum eftir fæðingu. Ég fór mjög rólega af stað og prófaði mig áfram en byrjaði svo í MömmuFit tímum á Granda101 ca. fjórum vikum eftir fæðingu. Ég þekki líkama minn vel og veit hvar mörk mín liggja. Skynsemi í æfingum er númer 1,2, og 3 hjá mér. Ég efast ekki um að það hafi hjálpað mér mikið að hafa verið í góðu formi bæði fyrir meðgöngu og á meðgöngu en það tekur auðvitað tíma að komast aftur í sitt allra besta form. Ég hef alltaf í huga að það liggi ekkert á og svo lengi sem mer  líður vel, andlega og líkamleg, er ég sátt. Ég á nokkrar fyrirmyndir sem komust í sitt besta form eftir fertugt og stefni á það líka.

Elín ásamt dóttur sinni, Emblu.
Elín ásamt dóttur sinni, Emblu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert