ADHD-röskun eða ofurkraftur?

Börn greind með ADHD eru oft og tíðum orkumikil, skapandi …
Börn greind með ADHD eru oft og tíðum orkumikil, skapandi og skemmtileg.

Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir „Attention Deficit Hyperactivity Disorder“ eða athyglisbrest og ofvirkni.

Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% barna og unglinga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Auk þess geta börn haft vægari einkenni. Í hópi barna með ADHD eru þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en talið hefur verið, en þær koma síður til greiningar. Nýjar bandarískar rannsóknir sýna 4,4% algengi ADHD hjá fullorðnum. Þetta kemur fram á vef ADHD-samtakanna á Íslandi. 

Það er hægt að líta á athyglisbrest og ofvirkni sem röskun, en einnig sem ofurkrafta. Þetta kemur fram á vef BBC sem vildi gera vandaða umfjöllun um ADHD þar sem ADHD er ein algengasta greining barna í Bretlandi um þessar mundir. 

Í staðinn fyrir að fara í rannsóknarblaðamennsku um málið var foreldrum barna með ADHD gefið orðið. Börn með ADHD fá einnig tækifæri að útskýra hvernig er að vera barn með greiningu og spyrja sérfræðinga áhugaverðra spurninga.

Á meðal þess sem kemur fram í myndefninu er spurningin: Af hverju velur samfélagið að setja fókusinn einvörðungu á neikvæðu hliðar ADHD?

„Ekki hugsa illa til barna með ADHD, við erum ekki bara óþekkir krakkar við erum krakkar með alls konar hæfileika líka,“ segir ungur drengur með ADHD.

Fullorðnir með ADHD eru í alls konar störfum og geta náð langt í lífinu. Sum störf henta jafnvel einstaklingum með ADHD betur en öðrum.  

Það eru til leiðir fyrir skóla að taka vel á móti börnum með ADHD. Að einfalda skólastofur, að hafa ganga eða stofur í skólum með einfaldari hönnun, að einangra hljóð og að bjóða upp á stuðning fyrir börn með ADHD skiptir miklu máli. 

„Að gera ráð fyrir því að öllum líði vel í skólanum og að standa saman sem heild skiptir mig miklu máli fyrir mig,“ segir skólastjórnandi í myndbandi BBC. mbl.is

Bloggað um fréttina