Vill skiptiaðstöðu inn á karlaklósett

Chrissy Teigen og John Legend eiga tvö börn.
Chrissy Teigen og John Legend eiga tvö börn. AFP

Tónlistarmaðurinn John Legend hefur verið duglegur að benda á það tvöfalda siðgæði sem samfélagið setur varðandi foreldrahlutverkið.

Hann benti á það árið 2016 að feður eru aldrei skammaðir opinberlega eins og mæður. Þegar hann og eiginkona hans, Chrissy Teigen, fóru út að borða tvö saman 10 dögum eftir fæðingu dóttur þeirra gagnrýndu margir Teigen en ekki Legend, fyrir að fara svona snemma frá barninu. 

Núna er hann í samstarfi með bleyjuframleiðandanum Pampers og hvetur feður til að taka jafn mikla ábyrgð á uppeldi barna sinna og konur gera. Hann bendir á að samfélagið geri ráð fyrir að konur sjái um börnin og í hvert skipti sem karlmaður gerir handtak á heimilinu fái hann klapp á bakið.

Hann segir að við þurfum að breyta því hvernig við nálgumst samfélagslega mótaðar hugmyndir okkar um móður- og föðurhlutverkin. Legend segir að það verði ekki gert með því að lækka viðmiðin fyrir karla.

Í fyrra kom hann fyrir í auglýsingu fyrir Pampers þar sem hann hvatti feður til að taka alfarið við bleyjuskiptum. Í ár berst hann fyrir því að fá skiptiaðstöðu á fleiri karlaklósett svo karlar geti skipt á börnum sínum á almenningssalernum, líkt og konur. 

„Pabbi minn var einstæður faðir helminginn af æsku minni, og hann átti fjögur börn. Við vorum ekki lengur með bleyjur, en við verðum að viðurkenna að það eru til alls konar fjölskyldur þarna úti. Við ættum að hafa baðherbergi sem endurspegla þann skilning,“ segir Legend. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert