Varð miklu skemmtilegri sem mamma

Brynja Dan Gunnarsdóttir markaðsstjóri S4S var tæplega 23 ára þegar hún varð mamma. Þá var hún búin að reyna að eignast barn í þrjú ár. Í dag er sonur hennar 11 ára og segir Brynja móðurhlutverkið hafa breytt lífinu. 

- Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega, hvernig gekk hjá þér?

„Ég var með ógleði alveg í nokkra mánuði en annars ótrúlega hress alla meðgönguna. Ég synti og hjólaði og svona reyndi að hreyfa mig reglulega. Var reyndar í prófum síðustu metrana og það var orðið þröngt um litla manninn. Daginn sem ég kláraði prófin og gat rétt almennilega úr mér þá loksins skorðaði hann sig þá gengin 36v og 3 d. og ég missti vatnið daginn eftir,“ segir Brynja og bætir við: 

„Eftir að ég átti hann varð ég svolítið þung á mér, bæði líkamlega og andlega.Það var erfitt að eiga einhvernvegin enga mömmu sem leiddi mig í gegnum hlutina. En það stóð svo sem ekki lengi yfir en ég fann alveg fyrir smá depurð fyrstu mánuðina hvort sem það var vottur af fæðingaþunglyndi eða bara hreinlega sorg og pirringur. Ef ég á að vera hreinskilin yfir því að mamma gæti ekki verið með mér í þessu. Þó það vildu margir glaðir hjálpa okkur þá einhvernvegin er það ekki það sama. Árin á undan höfðu verið erfið en svo fæddist hann og kom bara með birtu og hlýju inn í lífið sem hefur ekki farið síðan,“ segir hún.

-Hvernig gekk fæðingin? 

„Ég missti vatnið um morguninn 20. apríl eða tæpum 4 vikum fyrir tímann. Þá fór ég upp á deild og fékk sýklalyf því ég var ekki með neinar hríðar.

Dagurinn fór í að græja og gera þar sem það var ekki alveg allt tilbúið hjá okkur. Svo mætti ég aftur uppá deild kl. 21.00 og varð þá boðið að fá gangsetningu sem eg þáði. Frá þeim tíma og þar til hann fæðist liðu 2.5 klst. Svo þetta var eins þægilegt líklega og það gerist. Ég reyndar hafði ekki tíma til þess að spá eða spekúlera í því hvort ég vildi deyfingu eða ekki, þetta gekk allt svo hratt að það bara einfaldlega gafst ekki tími til þess.

Svo mætti hann á svæðið tæpar 11 merkur en með rosalega mikið hár og neglur svo hann var alveg tilbúinn í alla staði. Hann þurfti ekkert súrefni eða neitt. Hann var alveg skjannahvítur! Eitthvað sem gleymdist að segja mér eða ég að kynna mér með dökk börn svo mér brá smá en svo fékk hann litinn eftir smá stund,“ segir Brynja og hlær. 

- Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðuhlutverkið? 

„Úff hvar skal byrja, ég bara er ennþá orðlaus yfir að eiga litla mannveru sem er minn allra allra besti vinur. Þetta er svo skemmtilegt og gefur lífinu bara tilgang á allt öðru leveli. Svo fékk ég lítinn ellilífeyrisþega, þannig að það kannski kemur mér þægilega á óvart hvað hann er auðveldur viðureignar og hefur alltaf verið. Ég hef ekki þurft að taka á frekjuköstum ennþá. Það að setja annan framar sjálfum sér er bara eitthvað svo gefandi og auðmýkjandi. Þetta er án efa mitt allra besta og verðugasta verkefni sem lífið hefur upp á að bjóða. Hann er minn helsti kennari og einhvernvegin hefur þann hæfileika sem ég held að allir leitist eftir að ná að vera sama um hvað öðrum finnst.“

- Skiptir kyn barnsins máli þegar uppeldið er annars vegar? 

„Jahh líklega nú á ég ekki stelpu, en vinkonur mínar allar áttu stelpu á sama tíma og ég strák og ég held að þeir séu svona aðeins slakari yfir sumu og þær yfir öðrum hlutum. En annars kemur á óvart hvað maður er rosalega líkur foreldrum sínum þegar kemur að uppeldi. Ég reyndar las mér mikið til og geri enn um uppeldi en einhvernvegin er það bara þannig að af misjöfnu þrífast börnin best og það er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt í nútíma samfélagi. Það eru allir með einverjar stefnur og allskonar lög og reglur en hver verður bara að finna sitt. Það er ekkert hægt að setja alla undir sama hatt. Það sem hentar mínu barni hentar ekkert endilega næsta. Ég er alin upp af konu sem gekk í flest verk og reyni að kenna honum það að það skiptir engu máli hvort þú ert karl eða kona hvað þú getur gert. Mér finnst það hafa breyst mikið í þessari kynslóð. Hann er alltaf að leiðrétta allskonar svona hluti sem hann heyrir. En auðvitað er maður meðvitaður um söguna okkar og reynir að kenna ungum drengjum í dag að það er ekkert sem heitir kvenna eða karlahlutverk þegar kemur að heimilisstörfum eða atvinnugreinum. Mér finnst mikilvægt að hann læri það og viti.“

- Hvernig hefur það breytt þér að vera foreldri?

„Ég var ótrúlega stressuð týpa og lífið hafði bara mótað mig þannig að ég varð að hafa ALLT 100% á hreinu, það var til dæmis þrifið heima klukkan 17.00 á föstudögum og það mátti ekki klikka þá fór allt úr skorðum. Það voru svona mínar öryggisþarfir. Eitthvað sem ég hafði stjórn á ef ég á að reyna að útskýra það.

En með því að eignast barn þá bara er drasl og það fer ekkert alltaf allt eftir plani og maður lærir bara að slaka á. Jólin koma þó það sé ekki allt spikk and span og lífið er bara of stutt fyrir svona pælingar. Þó ég vilji meina að lífið sé langt og maður eigi að gera fullt!

En skringilegt nok þá lærði ég líka bara að lifa, ég varð miklu „skemmtilegri“ týpa vil ég meina. Ég lærði að segja bara já við sem flestu því ég vil vera fyrirmyndin hans, ég vil prófa allskonar og ef ég get gert hlutina og hef tíma þá segi ég já! Sama hvort það er surf ferð til Marokkó, eða snjósleðaferðir eða kynnast nýju fólki eða stofna fyrirtæki eða bara hvað sem er. Ég reyni að nýta öll tækifæri og kenna honum og sýna að maður getur allt sem maður ætlar sér. Sem er ekkert endilega hugsunarháttur sem ég var með áður en ég átti hann. Svo hann einhvernvegin gaf mér aukið frelsi og kjark, sem er skrítið því flestir fara líklega í hina áttina og verða lífhræddari eftir barneignir, en ég hef aldrei verið meira til í rússíbana en eftir að hann fæddist. Finnst ég svo mun meira lifandi.“

- Áttu ráð fyrir þá sem eru í þínum sporum?

„Bara að hafa gaman, lesa allskonar fræðirit og hlusta á eldra fólkið og vinina. Svo bara go with the flow. Þetta þarf ekki að vera svona flókið, það eru alltaf einhver trúarbrögð um til dæmis snuddunotkun, brjóstagjöf, barnamat og fleira. Æææ þetta reddast er það ekki bara að minnsta kosti innan velsæmismarka. Erum við ekki bara öll eða flest að reyna að gera okkar besta og ég bara get ekki sagt nógu oft, að misjöfnu þrífast börnin best. Það er engin regla sem gildir fyrir alla. Bara slaka á og njóta og gera sem mest saman. Mér finnst alltaf jafn magnað samt að þetta er eina hlutverkið/starfið sem við sækjum um og þurfum ekki að kynna okkur, eða læra neitt um samt fá flestir starfið. Ég er bara þannig týpa að ég vildi læra sem mest um uppeldi og allt sem við honum kom, kynna mér sem flest bara til að hafa til viðmiðunar. Svo ég mæli með að lesa bara sem mest um allskonar.“

- Hvernig er að vera mamma?

„Mín helsta gæfa. Ég veit ekki ennþá hvað ég gerði til þess að eiga þetta fallega yndislega hlutverk skilið. Ég er alveg ströng og mér finnst mikilvægt að ungbörn læri að finna sitt öryggi, svo ég til dæmis setti hann snemma í sitt rúm og snemma að margra mati í sitt herbergi. Ég el hann upp við að taka mjög virkan þátt í heimilinu, til dæmis með því að setja í vélar og þessháttar. Ég kýs að vera ekki með heimilisþrif að staðaldri til þess að hann læri að þetta er partur af því að eiga heimili. Ég vil síður skila honum af mér út í lífið og ekki kunna að þrífa klósettið heima hjá sér haldandi bara að einhver annar geri það. Svo ég vel að hafa það þannig og það hentar mér og okkur vel að öllum öðrum ólöstuðum.“

Hvernig mamma viltu vera?

„Ég er ströng mamma… hef ég heyrt, og ég vil vera það. Hann er til dæmis er ekki á neinum samfélagsmiðlum enn og fær ekki að hafa sjónvarp eða tölvu inni í sínu herbergi. 

Ég hef það eftir mömmu sem var uppeldisfræðingur og uppeldisbók sem ég las að ef barnið er að horfa á sjónvarpið frammi í stofu í kringum alla telst það sem samvera en ekki ef það er eitt inní herbergi að horfa. Svo ég segi nei við því að minnsta kosti fram að fermingu held ég. En ég vil vera sanngjörn mamma og skemmtileg. Sem ég held alveg að ég sé líka,“ segir hún og hlær og bætir við:

„En auðvitað eigum við okkar ágreininga og við ræðum hvað er sanngjarnt og finnum og leggjum reglur til grundvallar sem allir eru oftast sáttir við. Það er ekkert betra en að eiga góðar rökræður og samræður um hlutina og komast svo að niðurstöðu þegar maður á barn á þessum aldri.“

- Eitthvað sem hefur komið á óvart?

„Líklega bara að hann sé svona heill karakter með mig sem mömmu. En kannski bara aðallega hvað þetta er lífið! Ég bara skil ekki hvað ég var að eyða tíma í hér áður en ég varð mamma, mér finnst eins og ég hafi alltaf átt hann. Og svo er það að koma í ljós að þau læra sem fyrir þeim er haft. Hann elskar tískuna og að klæða sig vel og ég er ekkert að hata það! En það sem kom mér kannski mest á óvart er það að hann er miklu skemmtilegri krakki en ég var. Hann er ófeiminn og stendur á sínu og bara allt önnur týpa en ég var. Úff ég var svo leiðinlegt barn held ég.“

- Hefurðu lesið bækur fyrir mæður sem þú mælir með?

„Dr. Phil uppeldisbókina, og Holl ráð Hugós,Erfið samskipti og 7 habits eru ekkert endilega uppeldisbækur en gagnast manni bara í gegnum lífið og þar með líka í uppeldinu.

- Hver eru bestu ráðin sem þú átt fyrir nýbakaðar eða verðandi mæður?

„Bara, slaka og anda, það þarf ekki allt að vera fullkomið, það þarf ekki að eiga allt, og það er engin ein rétt leið. Ekki hlusta á þessar endalausu „reglur“ sem breytast samt milli ára. Stundum á að halda mikið á barninu og stundum ekkert. Gerðu bara það sem hentar þér og þínu barni. Þið finnið ykkar takt. Brjóstagjöf er yndisleg ef þú hefur tök á en ég var til dæm ekki á brjósti og er bara í góðu lagi. Ég mjólkaði sjálf ágætlega en fannst það stressandi og átti ekki alltaf nóg og fékk oft ábót oft hjá vinkonu minni til að gefa barninu mínu. Það er líka í lagi. Vertu dugleg að biðja um hjálp og nýta þér fólkið í kringum þig.“

- Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Já bara 100%, hann er númer eitt, tvö og tíu. En ég reyni samt að taka hann með í allt sem ég veit að hann hefði gaman að og við getum gert saman.“

-Finnst þér samfélagsmiðlar hafa áhrif á móðurhlutverkið?

„Já svo sannarlega í mínu lífi að minnsta kosti Þar sem ég vinn líka á samfélagsmiðlum. Hann er samt ekkert á þeim með eigin reikninga. En við erum oft saman á mínum miðlum og hann er orðinn alveg stór partur af þeim, sem er gert í samráði við hann að sjálfsögðu. En við erum mjög dugleg að brasast eitthvað þar inná sem er oft líka hvetjandi til að gera eitthvað skemmtilegt.“

mbl.is