Ófullkomin mamma með húmor

Dagný Laxdal sviðsstjóri viðskiptalausnasviðs Já.is er einstæð þriggja drengja móðir sem þurfti að hafa töluvert fyrir því að koma þeim í heiminn. Hún segir að móðurhlutverkið hafi umturnað henni sjálfri.

-Hvenær varðstu mamma?

„Ég varð mamma í fyrsta sinn 27 ára þegar frumburður minn fæddist, hann var algjört óskabarn eftir að hafa fengið aðstoð frjósemisvísindanna. Síðan varð ég aftur mamma 32 ára og 35 ára.“

-Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega, hvernig gekk hjá þér?

„Ég á þrjár meðgöngur að baki sem allar voru nokkuð ólíkar. Gekk framyfir með alla mína þrjá stráka. Ég fékk meðgöngueitrun á fyrstu tveim sem stríddi mér aðeins og gerði mér erfitt fyrir að skítlúkka og vera ofurkonan sem ég þráði að vera. En síðasta meðgangan var algjörlega geggjuð, þá var ég var mjög hraust og orkumikill eftir fyrstu vikurnar.

Ég missti reyndar eiginlega af fyrstu 13 vikunum og var í rannsókn hjá heimilislækni vegna orkuleysis og upp komst að ég var ófrísk af einu „heimatilbúinu“ sem var gert á gamla mátann. Mig grunaði þetta bara alls ekki, en gleðilegt var það. 

Sú meðganga var að öðru leyti draumameðganga sem ég er mjög þakklát fyrir að fá að upplifa. 

Andlega leið mér vel á öllum en verð þó að viðurkenna að meðan ég gekk fram yfir og einhver vogaði sér að hringja til að spyrja um gang mál fékk sá hinn sami helvíti kaldar kveðjur. Það eftirminnilega að það er ennþá verið að tala um það tæpum 15 árum seinna. Viðurkenni fúslega að ég var líka aðeins blóðheitari á meðgöngum og viðkvæmari, ekki að ég megi við því beint.“

-Hvernig gengu fæðingarnar?

„Fyrstu tvær voru hægar og erfiðar með inngripum sem enduðu báðar mjög nálægt bráðakeisara.

Mér var alveg sama í fyrra skiptið sílspikuð af bjúg og loksins orðin mamma með gyllinæð og tilheyrandi.

Seinni var mjög lík fyrri nema mér fannst erfitt að ganga í gegnum þetta aftur með þeim vandkvæðum sem það fylgdi að koma þeim í heiminn. Ég var ekki ein um það. Það tók líka á barnsfaðir minn að lenda aftur í þessum aðstæðum þar sem ekkert virtist ganga upp. Það spilaði inn í vonbrigðin mín líka að ég taldi mig svo undirbúna og upplýsta að þetta gæti bara ekki annað en gengið vel.

En síðan var síðasta fæðingin ljúf, hröð og án inngripa, eiginlega fullkomin. Hugsa oft um hana, á bara góðar minningar frá henni.

Ég kom upp á spítala og klukkutíma síðar var hann fæddur á björtum fallegum degi í lok maí. 

Ég rembdist tvisvar og fæddi þennan líka flotta kropp. Ég valhoppaði af gleði létt á fæti og okkur barnsföður mínum var mjög létt að fá eina „normal“ ef svo má að orði komast. Það mikið að við táruðumst og dönsuðum fagndans í einhverri sigurvímu.

Vinkona mín átti sama dag og henni var ekki skemmt hvað ég var fljótt og hress sjálf verandi á risastórum bolta að rugga sér í mömmunærum kyrfilega merktar eign LSH og ekkert gekk hjá henni. Þetta tekur auðvitað á andlega og líkamlega þegar framgangurinn er mjög hægur. Sé það núna að ég að hefði sennilega  átt að bíða með að monta mig við hana að hafa komið á eftir henni uppá spítala og fætt á undan.“

-Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðuhlutverkið? 

„Hvað það er hægt að elska mikið og hvað börn eru ólík. Ég var svo hrædd um að ég gæti ekki elskað barn númer tvö eins og númer eitt, svo stækkar hjarta þitt aftur um nokkrar stæðir og þú elskar bæði óendanlega og skilyrðislaust. Eins í gegnum vinkonur mínar sem eiga eldri börn sé ég líka að þetta er forever sem maður er í þessu dásamlega hlutverki, ég man að ég pældi minna í því fyrr en í gegn um þær með eldri börn og unglinga, jafnvel fullorðið fólk að maður er alltaf mamma,“ segir hún. 

-Skiptir kyn barnsins máli þegar uppeldið er annars vegar?

„Já ég þarf að haf mig alla við að hugsa um að þeir verði sjálfbjarga ungir menn og kunni að halda heimili ásamt að halda að þeim hugmyndum um jafnrétti og tileinki sér ekki skaðlegar hugmyndir og ýta undir að þeir vilji gera samfélagið okkar betra með tilliti til jafnréttis.  Ef ég ætti stelpur væri ég að gera mögulega svipaða hluti nema meira að „af-prinsessa“ þær og valdefla þær til að taka sér pláss. Núna er ég að einbeita mér að ábyrgum drengjum með sterkar sjálfsímyndir og gott sjálfstraust út í lífið.“

-Hvernig hefur það breytt þér að vera foreldri?

„Hvað það hefur náð að gera mig að skrárri manneskju. Það hefur líka sannarlega gert mig væmna og hjálpað mér að hugsa öðruvísi og þroskað mig, en ég með eindæmum sjálfhverf og ég held að þetta hafi aðeins tónað það niður. Eins hef ég lært að meta foreldra mína mun meira og þeirra framlag til mín og minna og ber ómælda virðingu fyrir foreldrahlutverkinu og þeim sem sinna því vel.“

-Áttu ráð fyrir þá sem eru í þínum sporum?

„Mitt ráð verður alltaf að reyna að hafa gaman og skipuleggja það. Vera einlæg og sönn, það skilar sér alltaf trúi ég.

Síðan held ég að tjá sig um það sem maður er að fást við  eða er að upplifa sé afar mikilvægt. Ég sé eftir því að vissu leyti að hafa ekki oftar rætt tilfinningar heldur bara vera á hálfgerðum „átópilot“ og halda að allt lagist með tímanum og án umræðu.  Það gerir það sjaldnast.“

-Hvernig er að vera mamma?

„Ég elska það, alveg bara í tætlur. En vissulega finnst mér það oft líka krefjandi sérstaklega en ég er heppin með eintök, allt topp strákar og ljúfir sem auðveldar allt.“

-Hvernig mamma viltu vera?

„Eins og ég er, opin, hress, spontant að gera mitt besta. Alltaf tilbúin að bæta mig. Vona að strákarnir mínir minnst mín sem örlátri, hlýrri mömmu sem var til staðar og úræðagóðri sem stóð með þeim.

En ég ákvað að hætta vera með mömmumórall yfir allskonar sem ég er hreinlega ekki eða óhagstæðum samanburði. Vill styrkja styrkleikana mína frekar.“

-Hefurðu lesið bækur fyrir mæður sem þú mælir með?

„Já tvær sem sitja í mér. Önnur sem ég las áður en ég varð foreldri en hún heitir Summer hill school book og er um frelsi og lýðræði í barnaskóla. Kom út 1960 og ég get ekki nógsamlega mælt með henni. Síðan er klassíkin  Draumaland – svefn og svefnvenjur þegar maður er að reyna að fyrirbyggja að missa tökin og/eða búin að því.“

-Hver eru bestu ráðin sem þú átt fyrir nýbakaðar eða verðandi mæður?

„Já í guðana bænum ekki vera ofurmömmur, fáið hjálp, reynið að sofa! Allir sjálfskipaðir sérfræðingar sem vita allt betur en þú, reyndu að láta það ekki á þig fá og mundu að treysta innsæinu þínu. Konur eru magnaðar með frábært innsæi. Njóttu litla kraftaverksins og allt sem veldur þér kvíða er gott að spyrja sig af hverju þér finnst þú þurfa að gera eitthvað eða líða einhvern vegin. Ég fékk gott ráð eða speglun þegar ég sagði „ég veit að mér á ekki að líða svona“ og fékk tilbaka: segir hver?” og þá sér maður oft hvað maður setur allskonar óþarfapressu á sig.“

-Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Ekki spurning, ég tala nú ekki um þar sem ég er líka án maka og strákarnir mínir ekki alltaf hjá mér og þá hreinlega tími ekki að stunda félagslífið mitt af neinum krafti þegar þeir eru hjá mér og fá mína athygli þá. Ég væri að ljúga ef ég segði að þeir fái alltaf 100% fulla athygli og gæðastundir, en ég legg mig fram og ætla að einbeita mér enn betur að því. 

Að mörgu leiti finn ég að maður hugsar öðruvísi þegar maður er einn, það er meiri áhersla að njóta barna sinna meira og markvissara. Allavega í mínu tilfelli.

Ég er mun skipulagðri en ég var áður og auðvitað er verðmætamat mitt algjörlega breytt með tilliti til forgangsröðunar. En ég vinn á mjög fjölskylduvænum vinnustað sem treystir mér fyrir því að vera í foreldrahlutverki og sinna þeim skyldum sem fylgja því og skila góðu vinnuframlagi. Fyrir það er ég endalaust þakklát fyrir. Það skiptir máli.“

-Finnst þér samfélagsmiðlar hafa áhrif á móðurhlutverkið?

„Já heldur betur, við erum öll í einhverjum glansheimi þar sem er ýtt undir að vera óaðfinnanlegur. Ég hef stundum sjálf hugsað Jesús ég verð að taka mynd af mér og börnunum mínum og bomba á Facebook til að aðeins laga ímynd mína þar sem ég er algjör partýpinni og alltaf eitthvað að gera & skera.
En ég er orðin svo gömul að ég var með barnalandssíðu sem ég hafði varla undan að uppfæra til að vera með í  mömmumafíunni.
Í dag er ég mun meira meðvitað að reyna vera ég, ófullkomin og með húmor fyrir sjálfri mér. Það er frelsandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert