„Börnin kenna mér meira um lífið“

Kristín Sif Björgvinsdóttir er tveggja barna móðir.
Kristín Sif Björgvinsdóttir er tveggja barna móðir.

Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpsstjarna á K100, hnefaleikakona og crossfit-þjálfari, er tveggja barna móðir og ekkja. Hún segir að móðurhlutverkið hafi kennt henni margt og hún leggur sig fram að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín. 

-Hvenær varðstu mamma?

„Ég varð mamma 30. mars 2011, þá 28 ára gömul og svo aftur 17. nóvember 2012
Það eru 18 mánuðir á milli þeirra,“ segir Kristín Sif. 

- Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega, hvernig gekk hjá þér?

„Það gekk mjög vel, ég varð auðvitað þreytt og mjög bjúguð en annars gekk allt eins og smurt.“

- Hvernig gengu fæðingarnar?

„Bæði börnin fæddust á innan við 4 klukkustundum frá fyrsta verk svo það gekk fljótt fyrir sig. Það þurfti reyndar að taka Heiðar með lítilli sogklukku en ég var með svo æðislega góðar ljósmæður að hjálpa mér og þær vissu sko alveg hvað gera þurfti til að allt gengi sem best. Ein ljósmóðirin sem var með mér i fæðingunni tók á móti mági mínum sem er eldri en ég sjálf svo ég vissi að ég var í góðum höndum.“

- Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðuhlutverkið?

„Að börnin kenna mér meira á lífið en ég þeim. Það er ótrúlegt hvað ég er stöðugt að læra og aðlagast hverju þroskaskeiði hjá þeim.“

- Skiptir kyn barnsins máli þegar uppeldið er annars vegar?

„Mér finnst það ekki skipta máli, en karakterinn skiptir öllu máli þegar kemur að uppeldi.“

- Hvernig hefur það breytt þér að vera foreldri?

„Ég er mun skipulagðari og ábyrgðarfyllri.“

- Áttu ráð fyrir þá sem eru í þínum sporum?

„Já, að þiggja hjálp ef hún býðst. Maður þarf ekki að gera allt einn. Að fyrirgefa sjálfum sér ef maður klúðrar einhverju eða gerir mistök varðandi uppeldi eða hvað varðar börnin. Maður er jú alltaf að læra. Að tala við börnin sem jafningja og tala opinskátt um viðkvæm mál og kenna þeim að tala um það sem þeim liggur á hjarta.“

- Hvernig er að vera mamma?

„Erfitt og lærdómsríkt. En líka geggjað og dásamlegt.“

Kristín Sif ásamt börnunum sínum tveimur, Söru og Heiðari.
Kristín Sif ásamt börnunum sínum tveimur, Söru og Heiðari.


-Hvernig mamma viltu vera?

„Skilningsrík og þolinmóð, mamma sem þau geta talað við og leitað til ef eitthvað er að angra þau. Kærleiksrík og heiðarleg og fyrst og fremst góð fyrirmynd sem sýnir þeim að þau geta allt sem þau vilja ef þau eru tilbúin að leggja vinnuna sem þarf í það.“

- Eitthvað sem hefur komið á óvart?

„Hvað börn taka eftir öllu, þau vita og heyra miklu meira en manni grunar.“

- Hefurðu lesið bækur fyrir mæður sem þú mælir með?

„Foreldrahandbókin er æði.“

- Hver eru bestu ráðin sem þú átt fyrir nýbakaðar eða verðandi mæður?

„Vera góðar við sjálfar sig og hugsa um sig líka. Ef mamma er í lagi þá eru börnin í lagi.“

- Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Já að sjálfsögðu en reyni að gera hluti sem mig langar og finnst skemmtilegt að sinna ásamt því að leyfa þeim að gera sitt.“

-Finnst þér samfélagsmiðlar hafa áhrif á móðurhlutverkið?

„Já ég er til dæmis of mikið í símanum og er síðan að reyna að skikka þau til að vera ekki í sínum snjalltækjum. Ætla að bæta úr þessu og reyna að vera góð fyrirmynd í þessu sem og öðru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert