„Eigum við allar að vera á lausu án barna?“

Minter segir að mæður á vinnumarkaði þurfi meiri sveigjanleika en …
Minter segir að mæður á vinnumarkaði þurfi meiri sveigjanleika en þær hafa í dag. Ljósmynd/Colourbox

Á vef Independent má lesa grein eftir Harriet Minter, ritstjóra fréttaefnis viðskiptahluta vefjarins, sem beint er að konum. Við fyrstu sýn virðist greinin vera skrifuð með það í huga að réttlæta tilveru Minter, sem er einstæð og barnlaus. En þegar betur er að gáð er Minter með áhugaverðar hugleiðingar til að jafna stöðu útivinnandi giftra mæðra á vinnumarkaðnum.  

Rannsóknir og umfjallanir að undanförnu hafa bent á þá staðreynd að konur sem eru giftar og eiga börn virðast sofa minna og vera með meiri ábyrgð á heimilinu en einstæðar mæður. Þær hafa minni tíma til að sinna sér og áhugamálum sínum og eru því að meðaltali ekki eins hamingjusamar og ógiftar barnlausar konur. 

„Samfélagið segir okkur að hjónabönd og barneignir geri okkur hamingjusamar, en einstæðar barnslausar konur vita að við sækjum ekki hamingjuna í öðrum. Þegar við reynum það þá verðum við vanalega fyrir vonbrigðum.“

Hún bendir á að rannsóknir sýna að karlmenn séu almennt ánægðari í samböndum sem gefur vísbendingu um að konur séu að fórna meiru en karlar fyrir sambandið.

„Það væri auðvelt að kenna börnunum um, en ég tel ástæðuna aðra. Um helgina ræddi ég við einstæðan vin minn um blaðagrein sem við lásum. Hún fjallaði um skoðun fólks á ráðgjöf. Eini karlinn sem rætt var við í greininni benti á að eftir að hann hitti eiginkonu sína hefði hann hætt að hitta ráðgjafa. Vinur minn sagði að þetta væri frekar almennt. Að karlmenn eru ekki að eyða fjármunum í ráðgjafa þegar þeir hafa einhvern að tala við heima hjá sér. Karlar eru að fá fría ráðgjöf frá konum.“ 

Í greininni fjallar Minter um tilfinningavinnu (emotional labour). 

„Konur í gagnkynhneigðum samböndum virðast vera að vinna meiri tilfinningavinnu en makar þeirra löngu áður en börnin koma til sögunnar. Þegar þau eru komin þá er leiknum lokið fyrir konur.“

Minter er þekkt fyrir að segja hlutina án þess að skafa utan af því, en við lestur greinarinnar má sjá að hún er að hvetja atvinnurekendur til að gefa giftum konum með börn meira svigrúm. Að þær finni fyrir fordómum í vinnunni út af börnum sínum miðað við þær konur sem eiga ekki börn. Þær taka ábyrgð á heimilinu og tilfinningavinnu þeirra sem búa þar. 

„Ein lausnin gæti verið sú að fá allar konur til að vera á lausu, án barna og hamingjusamar. Það væri frábært! Ég get mælt með því. En til að sporna við því að mannkynið deyi út gætum við spurt konur hvað þær þurfa til að verða hamingjusamar. Að létta undir þeim þegar kemur að kostnaði við daggæslu gæti verið eitt, að vinnustaðir bjóði þeim upp á meiri sveigjanleika gæti verið annað. Makar þeirra þurfa einnig að muna að taka ábyrgð á hluta af tilfinningavinnu heimilisins (án þess að vera beðnir um það) svo þær eigi meiri möguleika.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert