Þurfa öll börn sápu, rúm og tannbursta?

Það velur sér ekkert barn að vera landlaust á flótta.
Það velur sér ekkert barn að vera landlaust á flótta.

Er hægt að spegla sjálfsvirðingu heillar þjóðar með afstöðu þeirra sem leiða í landinu til landlausra barna? Getur meðvirkni leikið stórt hlutverk í afstöðu fólks þegar kemur að vinnunni? Hvernig áhrif hefur bakgrunnur og reynsluheimur fólks á það hvernig það nálgast viðfangsefni sín?

Þessar spurningar komu upp í huga minn þegar ég horfði á myndskeið The Guardian þar sem m.a. dómarinn Atsushi Wallace Tashima stígur fast inn í orðræðu Sarah Fabian lögmanns ríkisstjórnar Trump þar sem dómarinn ver hluta Flores-sáttmálans þegar kemur að því að börnin hafi stað að sofa á, tannbursta og sápu. Í þessari grein verður ekki farið í flókin lagaleg atriði sem snúa að Flores-sáttmálanum sem staðfestur var á seinni hluta síðustu aldar. Meginhugsun sáttmálans er að huga að landlausum börnum með mannúðlegum hætti. Að þau búi í húsaskjóli sem hentar aldri þeirra á meðan að þau dvelja í Bandaríkjunum, fái þá umhirðu sem þau þurfa, þurfi ekki að sofa á köldu steingólfi með ljósin á, fái tannbursta og sápu og þar fram eftir götunum. 

Trump-ríkisstjórnin hefur viljað afnema sáttmálann og setja upp nýtt samkomulag með breytingum.

Það sem dómararnir í myndbrotinu eru að reyna að leggja áherslu á er að börnin geta ekki sofið ef þau þurfa að sofa á hörðu steingólfi með kveikt ljósin. Þau þurfa sápu og tannbursta og fleira sem ætti að vera grunnatriði að þeirra mati. 

Dómarinn Tashima ber merki þess að skilja aðstæður landlausra barna betur en aðrir. Enda var hann sjálfur sem barn í seinni heimsstyrjöldinni í útrýmingabúðum og hefur því reynslu af því hvað slíkt gerir fyrir sálarlíf og framtíðarhorfur barnanna. 

Það hvernig Fabian reynir að verja aðbúnað landlausra barna af veikum mætti og síðan afstaða dómaranna sýnir hversu mikilvægt er að hlúa vel að einstaklingum með alls konar reynslu. Tashima er sönnun þess að börn í útrýmingabúðum sem lifa af erfiða reynslu geta nýtt reynslu sína áfram og staðið vörð um hagsmuni þeirra sem minna mega sín.

Það ætti að vera sjálfsagður réttur allra barna að búa við mannúðlegar aðstæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert