„Finnst hræðilega leiðinlegt að vera ólétt“

Ásdís Rán Gunnarsdóttir fyrirsæta og athafnakona varð mamma í fyrsta skipti þegar hún var 17 ára. Hún segir að móðurhlutverkið hafi breytt henni en fyrir þann tíma var hún bara unglingur og varð fullorðin á einni nóttu. Hún segir að meðgöngur og fæðingar hennar hafi allar tekið á en hún er móðir þriggja barna. 

-Hvenær varðstu mamma? 

„Ég varð fyrst mamma 17 ára og var ég þá að klára hárgreiðslu í Iðnskólanum og var flutt að heiman.“

-Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega, hvernig gekk hjá þér?

„Mér finnst alveg hræðilega leiðinlegt og erfitt að vera ólétt, það er ekki alveg mitt sérsvið. Ég hef alltaf átt frekar erfiðar meðgöngur, miklir grindar- og bakverkir ásamt alls konar leiðinlegum kvillum, en hef svo sem alltaf verið í lagi andlega þó að mér líki ekki ástandið.“

-Hvernig gengu fæðingarnar?

„Fæðingarnar voru líka allar mjög langar og erfiðar! Alveg frá 24 tímum upp í 48 klukkustundir með hríðir, því miður kom ekkert af þeim rennandi út og sú síðasta var langerfiðust og tók um 2 sólarhringa þangað til þeir loksins sprengdu belginn. Á þeim tímapunkti var ég hálfmeðvitundarlaus og var alveg viss um að ég mundi ekki lifa þetta af.“

-Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðurhlutverkið?

„Hvað þetta er ótrúlega fljótt að líða og þau eru bara orðin fullorðin áður en maður veit af.“

-Skiptir kyn barnsins máli þegar uppeldið er annars vegar?

„Já eflaust, það er munur á þessum elskum og ólíkar áherslur í lífinu. Maður þarf að stýra uppeldinu eftir því en það gerist bara ósjálfrátt.“

-Hvernig hefur það breytt þér að vera foreldri?

„Börnin eru það dýrmætasta sem lífið hefur gefið mér, þau hafa þroskað mig mest, reynst mér best þegar á reynir og mótað mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.“

-Hvernig er að vera mamma? 

„Það er örugglega það besta í heimi, mjög dýrmætt og gefur lífinu gildi, án þeirra held ég að lífið væri frekar innantómt og fátæklegt. Þau eru mín gæfa og gleði í lífinu. Einhvern veginn tókst mér að ala upp þessa ótrúlega vel heppnuðu einstaklinga. Þau eru öll svo góðar sálir, klár, dugleg, kurteis og blíð og ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að fá að vera mamma þeirra og fylgja þeim í lífinu.“

-Hvernig mamma viltu vera?  

„Bara ég sjálf, mamma sem gefur þeim ást og umhyggju. Ég legg mikið upp úr því að hrósa, sýna þeim heiminn og allt sem hann hefur að bjóða, víkka sjóndeildarhringinn, vera fyrirmynd og sýna þeim að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Efla frumkvöðlaeðlið, kenna þeim að elta draumana og hugsa stórt.“

-Hefurðu lesið bækur fyrir mæður sem þú mælir með?

„Nei ég hef ekki lesið neinar mæðrabækur ég sinni hlutverkinu bara frá hjartanu. Ég vil ekki trúa því að það sé einhver rétt eða röng formúla sem fylgir þessu hlutverki.“

-Hver eru bestu ráðin sem þú átt fyrir nýbakaðar eða verðandi mæður? 

„Mér finnst mjög mikilvægt að ofvernda ekki börnin og byggja þau upp frá byrjun sem sterka, sjálfstæða einstaklinga, kenna þeim að bjarga sér sjálf, taka ákvarðanir, mér finnst mjög áríðandi að kenna þeim að vera kurteis, góð og koma vel fram við fólk.“

-Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Ég hef alltaf verið móðir þannig ég þekki nú ekkert annað, fyrir það var ég bara unglingur að leika lausum hala. En að sjálfsögðu breytist allt og forgangsröðunin verður önnur þegar maður þarf allt í einu að taka ábyrgð á öðru lífi.“

-Finnst þér samfélagsmiðlar hafa áhrif á móðurhlutverkið?

„Já þeir hafa það, einelti hefur til dæmis aukist til muna eftir að allir þessir miðlar komu og ég hef oft orðið vitni að hræðilegum hlutum sem eru að gerast þarna inni og þetta vissulega stressar mann upp og maður þarf að fylgjast með öllu mjög vel. Krakkarnir hafa miklu meira aðgengi að heiminum, alls konar efni og öllu sem er að gerast góðu og slæmu, sem var ekkert í boði fyrir nokkrum árum, þetta breytir mjög miklu í móðurhlutverkinu. Hvort það sé gott eða slæmt er erfitt að dæma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert