Syrgjandi faðir fékk neitun frá Disney

Kóngulóarmaðurinn er í uppáhaldi hjá mörgum, ungum sem öldnum.
Kóngulóarmaðurinn er í uppáhaldi hjá mörgum, ungum sem öldnum. mbl.is/AFP

Breskur faðir sem vildi setja mynd af kóngulóarmanninum á legstein sonar síns fékk neitun frá Walt Disney-fyrirtækinu. Hinn fjögurra ára gamli Ollie Jones lést í desember eftir að hafa glímt lengi við sjúkdóm en hann hélt mikið upp á Kóngulóamanninn. Fyrirtækið segist ekki vilja blanda persónum sínum við dauðann að því er fram kemur á vef The Sun

Faðirinn segir þetta enn eitt höggið og bjóst engan veginn við þessu svari frá Disney þegar hann leitaði leyfis rétthafa. 

Í svari sínu sendi talsmaður Disney samúðarkveðju og sagði að fyrirtækið liti á það sem heiður ef það hefði átt þátt í að gleðja litla drenginn. Hins vegar eru margir aðdáendur Kóngulóarmannsins og til þess að varðveita sakleysi og töfra persónunnar er fylgt reglum Walt Disney sjálfs. Í bréfinu segir að stofnandi fyrirtækisins hafi ekki leyft að nota persónur sínar á legsteina, í kirkjugörðum né á duftkerum. 

„Ég held að þetta snúist bara um peninga. Í síðasta fríi Ollie fór hann í Disneyland. Hann elskaði kóngulóarmanninn og við keyptum handa honum öll leikföngin. En nú er hann látinn og við munum ekki eyða meiri peningum, þeim er sama,“ sagði faðirinn. 

mbl.is