Kaka með Kit Kat-kransi í barnaafmælið

Kit Kat-kaka passar vel í barnaafmæli.
Kit Kat-kaka passar vel í barnaafmæli. mbl.is/MM

Yngri sonur minn verður 10 ára á morgun. Af því tilefni bökuðum við nokkrar kökur eins og gengur og gerist og tókum forskot á sæluna og héldum veislu í gær. Frá því hann var lítill hefur hann haft ákveðnar skoðanir á afmæliskökum og hefur móðir hans lagt ýmislegt á sig til að verða við óskum.

Þegar afmælisveislan var skipulögð kom í ljós að synir mínir tveir, Helgi og Kolbeinn Ari, vildu gera köku eins og fólk gerir á Youtube.com. Súkkulaðiköku með Kit Kat-kransi. 

Eftir að hafa skoðað nokkur myndbönd sáum við að líklega væri auðveldast að festa Kit Kattið með suðusúkkulaði og hófst þá baksturinn. 

Uppskrift: 

250 g hveiti

200 g sykur

125 g ólífusmjör

1 bolli mjólk

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. matarsódi

1 tsk. vanilludropar

1/2 tsk. salt

3 msk. kakó

2 egg

Aðferð: 

Egg og sykur er þeytt vel saman eða þangað til blandan er orðin mjúk og rjómakennd. Þá er þurrefnum bætt varlega út í ásamt mjólk og allt hrært varlega saman. 

Þá var deigið sett í eitt hefðbundið kökuform og hrært í aðra uppskrift. Kit Kat-kakan þarf nefnilega að vera aðeins hærri og því dugar ein uppskrift eiginlega ekki. Og það það kemur betur út að gera þetta í tvennu lagi svo allt þeytist nógu vel og deigið velli ekki upp úr skálinni. 

Þegar við vorum búin að gera tvær uppskriftir af þessari súkkulaðiköku og deigið komið í tvö kökuform fóru botnarnir inn í ofn og voru bakaðir við 180 gráður í um það bil 30 mínútur (fer efni ofni). 

Súkkulaðikrem

1 egg

340 g flórsykur

85 g ólívusmjör 

3 msk. kakó

Aðferð: 

Allt sett í hrærivél og þeytt saman. 

Þegar kökubotnarnir voru búnir að bakast þurfti að kæla þá áður en kremið fór á því annars hefði þetta bráðnað allt í allar áttir og það gengur ekki þegar Kit Kat-kakan er annars vegar. Það mátti heldur ekkert klikka. 

Þegar botnarnir voru tilbúnir var neðri botninn settur á þann disk sem kakan átti að vera á og svo var hún smurð með súkkulaðikremi að ofan. Kantarnir voru látnir eftir sitja. 

Svo var efri botninn settur á og smurður líka með súkkulaðikremi og hófst þá handavinnan. 

Til þess að Kit Kattið haldist sem best þarf að festa það með bráðnu suðusúkkulaði. Það var því sett í vatnsbað og bráðið. Á meðan beðið var eftir því var Kit Kattið háttað og skorið í sundur. 

Best er að smyrja neðri part Kit Kattsins með suðusúkkulaðinu með lítilli skeið. Svo er það fest við kökuna með því að halda því í nokkrar sekúndur og svo koll af kolli. Þetta er örlítil þolinmæðisvinna og því betra ef tveir eða þrír hjálpast að. Þegar búið var að festa Kit Kattið allan hringinn er gott að setja band utan um eða borða og setja kökuna inn í frysti þannig að suðusúkkulaðið harðni strax og allt festist vel saman. 

Þegar kakan var tilbúin voru hlaupbangsar og M&M sett ofan á. Eins og sést á myndinni eru svona kökur krúttlegar á kökuborði og það er alveg hægt að gera svona án þess að það mistakist. 

mbl.is