Blue Ivy í myndbandi með mömmu

Blue Ivy Carter er bara sjö ára en samt farin …
Blue Ivy Carter er bara sjö ára en samt farin að leika í tónlistarmyndböndum. skjáskot/Youtube

Blue Ivy Carter, dóttir stjörnuhjónanna Beyoncé og Jay-Z leikur í nýjasta tónlistarmyndbandi móður sinnar sem kom út í dag. 

Blue hefur verið dugleg að fylgja mömmu sinni eftir á rauða dreglinum víða um heim en er þetta í fyrsta skipti sem hún kemur fram í tónlistarmyndbandi. Tónlistarmyndbandið er við lagið Spirit sem Beyoncé gaf út í tilefni af frumsýningu The Lion King og má sjá Simba og Nölu hlaupa um í myndbandinu.

Mæðgurnar á rauða dreglinum í Los Angeles fyrir viku.
Mæðgurnar á rauða dreglinum í Los Angeles fyrir viku. AFP

Litla stúlkan er aðeins sjö ára gömul en tekur sig einstaklega vel út í stíl við móður sína í tónlistarmyndbandinu. Þær mæðgur sjást prúðbúnar ásamt dönsurum úti í eyðimörkinni í tónlistarmyndbandinu.

The Lion King kemur í kvikmyndahús hér á Íslandi í dag en Beyoncé og Blue voru viðstaddar frumsýningu myndarinnar í Los Angeles síðustu viku. Blue litla fékk þó ekki að koma með foreldrum sínum til Lundúna um helgina þar sem kvikmyndin var frumsýnd á sunnudag.

Á morgun, fimmtudag, kemur svo heil plata frá tónlistarkonunni en hún sótti sér innblástur frá Konungi ljónanna fyrir plötuna.

mbl.is