Sagðar ná saman sem mæður

Katrín og Meghan eru sagðar ná betur saman eftir að …
Katrín og Meghan eru sagðar ná betur saman eftir að Meghan varð móðir. mbl.is/AFP

Samband hertogaynjanna Katrínar og Meghan hefur verið á milli tannanna á fólki síðan Meghan gekk í bresku konungfjölskylduna. Nú virðast þær hins vegar vera orðnar perluvinkonur, eða svona næstum því. Katrín og Meghan voru á ólíkum stað í lífinu fyrir ári, Katrín með þrjú ung börn og Meghan að átta sig á hlutverki sínu í konungsfjölskyldunni. 

Heimildarmaður segir hins vegar í nýju tölublaði People að samband svilkvennanna sé að styrkjast. Katrín og Meghan mættu til dæmis saman á Wimbledon-tennismótið um síðustu helgi og virtust ná vel saman. 

„Katrín lagði hönd sína á Meghan og nuddaði bak hennar til þess að hughreysta hana,“ sagði sjónarvottur um það þegar tennisstjarnan Serena Williams tapaði leik sínum en Williams og Meghan eru góðar vinkonur. 

„Þetta sýndi gott samband á milli þessara kvenna sem eiga ung börn og eru í svipaðri aðstöðu í sínu lífi,“ sagði sérfræðingurinn Victoria Arbiter en faðir hennar var lengi fjölmiðlafulltrúi Elísabetar Bretadrottningar. Hún segir börn frábær til þess að fá fólk til þess að ná saman. „Um leið og þú byrjar að mynda tengsl út frá sögunum þínum og svefnlausu nóttunum þá skiptir það engu máli það sem skipti máli áður,“ sagði Arbiter. Enginn er sagður skilja stöðu hinnar nýbökuðu móður betur en svilkona hennar Katrín. 

Það er einnig sagt hafa góð áhrif að Meghan og Harry fluttu út úr Kensington-höll til Windsor í vor. Meghan og Harry eru því ekki alltaf í kringum Katrín og Vilhjálm sem búa í Kensington-höll og hefur það gefið fjölskyldunum tveimur tíma til þess að ná aftur saman. Gefið þeim tíma til þess að anda og mynda fjölskyldutengsl en ekki bara vera vinnufélagar.

Meghan og Katrín litu út fyrir að vera perluvinkonur á …
Meghan og Katrín litu út fyrir að vera perluvinkonur á Wimbledon-mótinu í tennis. mbl.is/AFP
mbl.is