Hljóp maraþon með börnin í þríburakerru

Cynthia Arnold með börnin sín þrjú í maraþoninu.
Cynthia Arnold með börnin sín þrjú í maraþoninu. Skjáskot/Youtube

Flestum dugar að koma sjálfum sér yfir marklínuna í maraþonhlaupi en móðirin Cynthia Arnold lætur ekki þar við sitja. Arnold ýtti þremur börnum sínum á undan sér í maraþonhlaupi í sumar og setti þar með nýtt heimsmet að því fram kemur á vef Runner's World

Arnold á þrjú börn, það elsta sex ára. Þegar hún hljóp maraþonið vógu börnin og kerran samtals 84 kíló. Hún stórbætti maraþonmetið en hún hljóp maraþonið í Missoula í Montana í Bandaríkjunum á þremur klukkutímum og 11 mínútum í sumar. Arnold þurfti að hlaupa á fjórum klukkutímum og sex mínútum til að bæta metið. Hún bíður enn eftir formlegri staðfestingu frá Heimsmetabók Guinness. 

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Arnold bætti heimsmet í kerrulanghlaupi en hún komst í Heimsmetabók Guinness í fyrra fyrir að hlaupa hálfmaraþon með þríburakerru á undan sér. Í fyrra hljóp hún hálfmaraþon með börnin og setti heimsmet. Í ár voru því kílómetrarnir ekki bara fleiri heldur kílóin sem hún ýtti á undan sér einnig fleiri.

Arnolds mælir með því við foreldra sem hlaupa, að hlaupa með börnin í kerru. „Við sem hlaupum vitum hversu stór hluti það er af sjálfsmynd okkar. Þú getur ekki bara hætt því þegar þú verður foreldri. Kerran gefur okkur frelsið til að halda áfram að lifa lífstílnum okkar með þau nýju á undan okkur,“ sagði Arnold. 

Arnold er ekki líkleg til að hlaupa aftur með börnin þrjú í kerrunni góðu enda börnin að eldast. Hún segir að elsta barnið geti bráðum farið að hjóla með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert