Lítur ekki á sig sem son Pitt

Maddox ásamt foreldrum sínum, Angelinu Jolie og Brad Pitt.
Maddox ásamt foreldrum sínum, Angelinu Jolie og Brad Pitt. ROBYN BECK

Heimildarmaður Us Weekly segir að Maddox Jolie-Pitt, elsti sonur Angelinu Jolie og Brad Pitt, líti ekki á sig sem son Brad Pitt. Hann er sagður mun nánari móður sinni og á í góðu sambandi við hana. 

Pitt ættleiddi Maddox árið 2006, tveimur árum eftir að hann varð ástfanginn af móður hans við tökur á kvikmyndinni Mr. and Mrs. Smith. Jolie ættleiddi Maddox þegar hann var 7 mánaða gamall árið 2002. 

Pitt og Maddox eru sagðir hafa rifist heiftarlega árið 2016, þegar Maddox var aðeins 15 ára gamall. Pitt og Jolie skildu síðar það sama ár. Pitt er sagður hafa farið í áfengismeðferð og leyft barnaverndaryfirvöldum að meta hvort hann væri hæfur til að sinna börnum sínum. 

Það var þó of seint í rassinn gripið þar sem Maddox hefur ekki litið á hann sem föður sinn síðan þá. Maddox og yngri bróðir hans Pax neituðu að eyða jólunum með föður sínum síðustu jól. 

mbl.is