Gerðu heimildamynd um íslenskt ungbarnasund

Snorri Magnússon frumkvöðull í ungbarnasundi.
Snorri Magnússon frumkvöðull í ungbarnasundi.

Heimildamyndin KAF fjallar um Snorra Magnússon sem er frumkvöðull í ungbarnasundi á Íslandi. Myndin er tekin upp í Skálatúnslaug í Mosfellsbæ þar sem Snorri hefur byggt upp litríkan heim milli fjalls og fjöru sem skýlir foreldrum og börnum fyrir veðri og vindum allan ársins hring. 

Myndin er eftir Elínu Hansdóttur, Önnu Rún Tryggvadóttur og Hönnu Björk Valsdóttur en í henni er fylgst með hvítvoðungum stálpast og þroskast og því hvernig foreldrar kynnast börnum sínum í gegnum upplifun í vatni.

KAF fjallar einnig um fyrstu mánuðina í lífi barna, árin sem enginn man. Þessi aldur hefur ekki mikið verið kannaður en nýjustu rannsóknir sýna hins vegar fram á að ungabörn búa yfir hæfileika til að tjá sig og leiða samskiptin mun fyrr en áður var haldið.

Á Íslandi ríkir mikil sundmenning, þar sem ekki skortir heitt vatn, og geta börnin verið lengur í lauginni en erlendis. Hlutfall barna á Íslandi sem fara í ungbarnasund er því hærra en annars staðar í heiminum.

Snorri hefur á undanförnum 28 árum, kennt þúsundum barna ungbarnasund og þannig seitlar hans vinna út í allt samfélagið.

KAF var heimsfrumsýnd á Salem Film Festival í Bandaríkjunum í mars og hefur ferðast um heiminn á kvikmyndahátíðir í Evrópu, Ástralíu og Mexíkó þar sem KAF hefur hlotið einróma lof áhorfenda. Hún var m.a. valin á Sheffield Doc Fest í Bretlandi sem er ein af stærstu heimildamyndahátíðum í heimi.

Heimildamyndin verður frumsýnd 5. september í Bíó Paradís. 

mbl.is