Ferlið eins og full meðganga

Olga Helana og Eyrún Anna stoltar með náttfötin.
Olga Helana og Eyrún Anna stoltar með náttfötin. ljósmynd/aðsend

Vinkonurnar Olga Helena og Eyrún Anna áttu í erfiðleikum með að finna góð náttföt fyrir börnin sín svo þær fóru út í það að framleiða þau sjálf undir merkinu Von. Ferlið tók jafnlangan tíma og full meðganga og eru náttfötin nú tilbúin. 

„Ósjálfrátt þegar maður eignast börn fer maður að pæla meira í öllu sem viðkemur börnum, persónueinkennum, uppeldi, hverjum barnið líkist og stjörnumerkjunum þeirra og fleira,“ segir Olga Helena um stjörnumerkjanáttfötin. 

„Við höfðum báðar rekið okkur á það að við áttum í erfiðleikum með að finna náttföt fyrir börnin okkar sem við vorum ánægðar með og fórum að hugsa hvort við ættum ekki að framleiða góð náttföt. Okkur fannst vanta mjúk og þægileg náttföt á yngstu börnin sem væru góð fyrir viðkvæma húð. Við vildum hafa þau persónuleg og út frá því kom hugmyndin með stjörnumerkin. Á endanum varð útkoman þessi fallegu náttföt sem við erum núna komin með í sölu hjá okkur.

Náttfötin eru úr lífrænni bómull og tölurnar á þeim eru úr kókoshnetum, þau koma í tveimur litum, fölbláum og bleikum, fyrir börn að eins árs aldri. Laufey Hlín teiknaði stjörnumerkin en hún einmitt teiknaði líka allar myndir í minningarbókinni okkar. Við erum ótrúlega ánægðar með útkomuna og okkur finnst þau jafnvel fallegri í persónu, dásamlega mjúk og fullkomin sem gjöf.

Þegar við fórum að kanna hvort stjörnumerkjanáttföt væru til, þá fundum við engin slík á Íslandi. Fórum við þá strax í að ákveða hvernig hönnun, liti og skipti miklu máli hvernig stjörnumerkin myndu líta út.“ 

Stjörnumerki barnanna eru á náttfötunum.
Stjörnumerki barnanna eru á náttfötunum. ljósmynd/aðsend

Olga Helana og Eyrún Anna eiga báðar tveggja og hálfs árs gömul börn en auk þess á Olga Helena sex mánaða gamla dóttur. Það má segja að það sem þær bjóða upp á vörur sem byggja á því sem þær hafa sjálfar rekið sig á í móðurhlutverkinu en slíkt var einnig upp á teningnum þegar minningarbókin þeirra varð að veruleika fyrir tveimur árum.

„Við stofnuðum Von árið 2017 og við erum ótrúlega þakklátar hvernig þetta hefur undið upp á sig. Við erum alltaf að bæta við vöruúrvalið og vöndum okkur mikið þegar kemur að því að velja inn nýjar vörur. Það skiptir okkur máli að um sé að ræða fallegar vörur en í senn vörur sem gæta að heilsu barnanna okkar. Fyrst og fremst er Von netverslun, en nú erum við komnar með lagerhúsnæði og sýningarrými þar sem við getum boðið viðskiptavinum okkar að koma og skoða vöruúrvalið og versla á staðnum.

Var flóknara að fara út í framleiðslu á fatnaði en að framleiða minningarbókina?

„Það er auðvitað margt sem kemur á óvart þegar maður er að gera eitthvað í fyrsta sinn og margt sem getur farið úrskeiðis. Sem betur fer hittum við á frábæran framleiðanda sem hjálpaði okkur mikið og gekk þetta nánast fullkomlega fyrir sig. Ferlið tók níu mánuði í það heila og það er að mörgu að huga þegar um lífræna framleiðslu er að ræða. Til að mynda tók langan tím að finna tölur sem væru eiturefnalausar. Við gátum fylgst vel með öllu ferlinu, framleiðandinn var duglegur að senda á okkur myndir, myndbönd og uppfæra okkur gegnum allt ferlið. Það gerði það að verkum að við náðum að halda áætlun og erum ótrúlega ánægðar að geta verið með náttfötin til sölu á Haust Pop-Up markaðnum núna fyrstu helgina í september.“

Hér má skoða vefsíðu Von. 

Krúttlegir í lnáttfötunum.
Krúttlegir í lnáttfötunum. ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert