„Fjölskyldu minni fannst þetta alveg galið“

María Lena er að opna búð með eigin íþróttafatamerki, M …
María Lena er að opna búð með eigin íþróttafatamerki, M Fitness Sportswear. ljósmynd/Stefán John Turner

María Lena Heiðarsdóttir Olsen eignaðist sitt fyrsta barn, Gabríel Leví, í janúar 2016. Eftir að hún og barnsfaðir hennar hættu saman þegar Gabríel var átta mánaða flutti hún til Egilsstaða til fjölskyldu sinnar og stofnaði sitt eigið íþróttafatamerki, M Fitness Sportswear. Þrátt fyrir að vera ein með ungbarn sem var ekki hjá dagmömmu til að byrja með tókst Maríu það sem hún ætlaði sér og á sunnudaginn verður fyrsta búðin opnuð við Lambhagaveg 9 í Reykjavík.   

María býr í dag í Reykjavík ásamt syni og kærastanum Hannesi Erni Ívarssyni. Hún segir móður sína vera sína stærstu fyrirmynd en hún rekur sjálf tískufataverslun og íþróttafataverslun á Egilsstöðum og þaðan kom rekstraráhugi Maríu. „Mamma er algjör nagli og ég vildi verða eins og hún,“ segir María um móður sína. 

Hvernig móðir vilt þú vera?

„Ég vil fyrst og fremst vera góð fyrirmynd. Að barnið mitt geti alltaf leitað til mín og vitað að sama hvað þá er alltaf öruggt að leita heim,“ segir María og segir mjög mikilvægt að leggja áherslu á virðingu, það að koma vel fram við alla í uppeldinu. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst móðir?

„Það breyttist á allan hátt - til hins betra. Ég hef aldrei verið eins þakklát, ég hef aldrei verið jafn staðföst í að láta ekkert stoppa mig í því sem ég vil gera því ég vil sýna stráknum mínum að það er allt hægt ef maður vill það nógu mikið.“

Mæðginin Gabríel og María.
Mæðginin Gabríel og María. Ljósmynd/Aðsend


Hvernig var að koma fyrirtæki á laggirnar sem einstæð móðir?

„Það er alveg óhætt að segja það að eignast lítið kríli hafi sparkað verulega í rassinn á mér hvað varðar að láta vaða á þetta allt saman. Fjölskyldu minni fannst þetta alveg galið á sínum tíma, sem er vel skiljanlegt. Þarna var ég ung, ekki búin með háskólanám, ein með átta mánaða gamlan strák - ég hreinlega varð að fara að gera eitthvað. Það var auðvitað mjög strembið á tímabili, sérstaklega áður en Gabríel byrjaði hjá dagmömmu og síðar á leikskóla. Það er bara svo rosalega mikilvægt að skipuleggja sig vel, ég held að ég hafi gert lítið annað en að vinna fyrstu mánuðina. Ég var einnig nálægt fjölskyldunni svo þau voru alltaf til í að aðstoða, sem er mjög dýrmætt.“ 

Hvernig æfðir þú á meðgöngu og hvernig byrjaðir þú aftur að hreyfa þig?

„Ég æfði mjög mikið áður en ég varð ólétt svo ég breytti mjög litlu á meðgöngunni. Það þarf að taka það með í reikninginn að ég var mjög hraust - það eru því miður ekki allar svo heppnar þegar þær ganga með barn. Ég hljóp og hoppaði minna eftir sem leið á meðgönguna, ásamt því að létta lóðin eins og þurfti - annars lyfti ég eins og áður.

Eftir meðgöngu byrjaði ég að hreyfa mig þegar Gabríel Leví var þiggja vikna. Fæðingin gekk eins og í sögu og ég var mjög fljót að jafna mig. Ég fór þó rólega af stað, byrjaði bara í göngutúrum - það er svo gott að komast út í smá hreyfingu eftir barnsburð. Ég allavega upplifði þvílíkan létti þegar ég mátti fara að hreyfa mig aftur, þó svo að hreyfingin væri róleg.“ 

Hvað ráðleggur þú konum að gera eftir meðgöngu?

„Alls ekki fara of hratt af stað í hreyfingu og auðvitað að borða hollan og næringarríkan mat. Ég myndi alltaf ráðleggja öllum að tala við ljósmóður og/eða lækni áður en maður fer af stað - sjá hvort maður fær grænt ljós á að byrja að hreyfa sig. Við erum svo rosalega mismunandi að það er alls ekki hægt segja hvenær allar mega byrja. Það fer allt eftir hvernig meðgangan var, hvernig fæðingin gekk, líkamsástand og svo framvegis.“ 

View this post on Instagram

Marta íþróttabolur - svaka sætur👌🏼

A post shared by M FITNESS SPORTSWEAR (@mfitnesssportswear) on Aug 20, 2019 at 12:32pm PDT

Hingað til hefur María verið með netverslun og seljendur um allt land. Það breytist þó á sunnudaginn 1. septembr þegar búðin verður opnuð. María hvetur alla til að mæta en það verður 20 prósent afsláttur af öllum vörum auk þess sem hún lofar því að enginn fari svangur heim enda verða Bæjarins beztu á staðnum. Hægt er að fylgjast með á Facebook og Instagram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert