Í ungbarnasundi er ekkert Netflix og engin truflun

Hanna Björk Valsdóttir gerði heimildamyndina KAF ásamt Elínu Hansdóttur og …
Hanna Björk Valsdóttir gerði heimildamyndina KAF ásamt Elínu Hansdóttur og Önnu Rún Tryggvadóttur.

Hanna Björk Valsdóttir er ein af konunum á bak við heimildamyndina KAF sem frumsýnd er í Bíó Paradís í dag. Hún gerði myndina með Elínu Hansdóttur og Önnu Rún Tryggvadóttur en barneignir sameinuðu þær þrjár í gegnum mömmuklúbb, mömmujóga og svo voru þær sem leikstýrðu í sameinginu, saman í ungbarnasundi hjá Snorra sem myndin fjallar um.

„Við eignuðumst allar börn á svipuðum tíma fyrir 6-8 árum og deildum nándinni sem fylgir því að eignast barn í gegnum það. Við vorum saman í mömmuklúbbum, meðgöngu og krílajóga og svo vorum við í ungbarnasundi. Þegar við verðum foreldrar, þá hefst mjög sérstakt tímabil þar sem tilvera þín sem einstaklingur verður algjörlega undirorpin þessu nýja lífi sem þú hefur eignast. Persónuleg reynsla okkar af þessum rýmum sem eru búin til fyrir nýbakaða foreldra var að þau verða ótrúlega mikilvæg akkeri í hversdagslífinu. Ungbarnasundið hjá Snorra er einmitt eitt af þessum akkerum,“ segir Hanna Björk Valsdóttir og bætir við: 

„Við höfðum áhuga á að skoða hvað það er sem gerir samveru með barninu þínu í nánd við aðra foreldra í sömu sporum svona mikilvæga. Við vildum skoða hvað er að gerast í lífi barnsins og í lífi foreldris og komumst að því að hingað til hefur lítið verið vitað um þessi fyrstu ár, en nýjustu rannsóknir sýna þó að börn fæðast með mikla getu til að tjá sig við foreldra sína. Sem mæður og listamenn þótti okkur mikilvægt að reyna að fjalla um þessa merkilegu reynslu. Heimurinn hans Snorra var frábært umhverfi til að gera það. Snorri er einskonar „one-man-show“ og hefur ótrúlegt lag á ungbörnum og foreldrum. Ástríða hans og elja til að veita börnum og foreldrum rými og tíma til að tengjast og læra hvert inn á annað hefur haft áhrif á þúsundir Íslendinga. Það hreyfði við okkur að verða vitni að því hversu mikil áhrif manneskja eins og Snorri hefur á umhverfi sitt og er í raun myndhverfing fyrir tengslamyndunina sem við erum að fjalla um. Myndin reynir einmitt að sýna hvernig pínulítil skref í lífi ungbarna og nýbakaðra foreldra leggja drög að tengslamyndun sem varir út lífið. Laugin hans Snorra er einskonar eggjakarfa fyrir af tengslamyndun.“

Hvernig hreyfir KAF við fólki?

„Það er nú kannski ekki okkar að segja, en við vonumst auðvitað til þess að fólk upplifi samkennd með þessum börnum sem eru að gera sitt allra besta. Ef við berum einhverja skyldu sem foreldrar og hreinlega sem manneskjur, þá er hún fólgin í því að vera til staðar fyrir börn, á þeirra forsendum. Kunna að hlusta á börn því þau kunna að tjá sig, ekki alltaf með orðum, heldur hegðan.“ 

Hvers vegna skiptir ungbarnasund máli?

„Eins og Sæunn Kjartansdóttir (frá Miðstöð foreldra og barna) talar um í myndinni, þá skiptir kannski ekki öllu máli hvort barn geti staðið í lófa eða kafað og farið í kollhnís. Það er hins vegar þessi gleði og tengsl sem eiga sér stað í lauginni sem skipta höfuðmáli. Þegar foreldri gleðst yfir einhverju sem barnið gerir, þá gleðst barnið og við það myndast milljónir nýrra taugatenginga. Ungbarnasund skiptir máli af því að það hjálpar foreldrum að læra inn á sig sjálf sem foreldri og inn á barnið sitt. Snorri hefur með sinni gríðarlegu reynslu og hæfileikum byggt upp getu til að lesa í börnin og foreldrana, hann hvetur þau á öruggan hátt til að taka sífellt stærri og öflugri skref.“ 

Hvert er markmiðið með myndinni?

„Við vildum skoða þetta ótrúlega tímabil í lífi hverrar manneskju, þegar allt er í mótun, samband foreldra og barns er að þróast ótrúlega hratt og allt er á sama tíma svo viðkvæmt og þrautseigt. Ungbörn eru fáránlega sterk og ótrúlega viðkvæm. Við vildum setja fram portrett af einstaklingi sem hefur þróað mjög óvenjulegt og óhefðbundið starf, byggt  á reynslu, innsæi og þekkingu. Snorri er svo áhugaverður karakter, hann er alltaf hress og alltaf að gefa af sér. En það er kannski ekkert skrítið því að andrúmsloftið í lauginni er mettað af oxytocin-hormóni, við komum alltaf skælbrosandi út úr lauginni, og vonum að það skili sér til áhorfenda.“

Hver er munurinn á börnum sem fara í ungbarnasund og þeim sem gera það ekki?

„Rannsóknir hafa sýnt fram á að það er raunverulegur líkamlegur ágóði fyrir börn sem fara  í ungbarnasund og við fjöllum einmitt um það í myndinni. En fyrir utan hið líkamlega þá er það samveran og tengslamyndunin sem skiptir miklu máli. Í lauginni er engin truflun, enginn snjallsími, ekkert Netflix, enginn þvottur, engin eldri systkini að trufla. Bara þú og litla barnið þitt að leika og læra hvort inn á annað í heila klukkustund, tvisvar í viku.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert