Sambandið við dæturnar sprakk

Leikarahjónin William H. Macy og Felicity Huffman standa saman.
Leikarahjónin William H. Macy og Felicity Huffman standa saman. mbl.is/AFP

William H. Macy, eiginmaður leikkonunnar Felicity Huffman, sagði í bréfi sem hann skrifaði til stuðnings eiginkonu sinni að samband hennar og dætra þeirra hefði sprungið þegar upp komst um háskólasvindlið. 

„Að endurbyggja það samband mun taka langan tíma. En ég vil líka að þú vitir að Felicity hefur alið upp tvær magnaðar ungar konur,“ skrifaði Macy í bréfinu. Macy og Huffman eiga saman dæturnar Sophie, 19 ára, og Georgiu, 17 ára.

Huffman er ákærð fyrir að hafa greitt ungri stúlku fyrir að taka SAT-próf fyrir dóttur sína til að hún kæmist inn í góðan háskóla. Dæmt verður í máli hennar á föstudaginn, en búist er við að hún verði dæmd í eins mánaðar fangelsi. 

Macy segir í bréfinu að Huffman hafi átt erfiða æsku og átt í slæmu sambandi við móður sína sem beitti hana stundum ofbeldi. „Hún var að stórum hluta alin upp af systrum sínum, eða, verandi yngst, skilin eftir ein,“ skrifaði Macy. 

Hann segir að hún hafi flutt til Los Angeles aðeins 15 ára gömul til að reyna fyrir sér í leiklistinni. „Hún bjó með 22 ára gömlum fjölskylduvini og kom sér sjálf í gegnum framhaldsskóla auk þess að finna leiðir til að fara í áheyrnarprufur. Ég held að uppeldi hennar hafi mótað hana sem foreldri og hún hafi alltaf viljað vera til staðar fyrir dætur sínar,“ sagði Macy. 

Hann segir fjölskylduna hafa verið í fjölskyldumeðferð allt frá því að atburðurinn átti sér stað. 

mbl.is