Spæjaraskólinn er fyrir forvitna krakka

Spæjaraskólinn er fyrir forvitna krakka á aldrinum 9 - 12 …
Spæjaraskólinn er fyrir forvitna krakka á aldrinum 9 - 12 ára. Ljósmynd/Colourbox

Spæjaraskólinn eru ráðgátukassar í áskrift fyrir 9-12 ára krakka. Fyrsti kassinn kemur út á næstu vikum og ber titilinn Listaverkagátan. Á bak við Spæjaraskólann standa þau Lína Rut Ólafsdóttir, Guðmundur Valur Viðarsson og Kristín Ólafsdóttir. 

Hópurinn hefur frá unga aldri notið þess að fást við alls konar ráðgátur og vandamál. Að leita lausna, eftir hefðbundnum og óhefðbundnari leiðum. 

Í fréttatilkynningu frá Spæjaraskólanum segir:

„Spæjaraskólinn sendir út kassa sex sinnum á ári, og í hverjum kassa er saga. Sagan er einhvers konar ráðgáta sem aðalpersónur sögunnar, Klara Sif og Atli Pawel, þurfa aðstoð við að leysa. Efni kassans er skipt í umslög, en aðeins má skoða laus gögn í kassanum þar til leyfi fæst til að opna fyrsta umslagið og svo koll af kolli. Sumar lausnir þarf að slá inn á vefsíðu til að vita hvort maður hafi leyst þrautina á réttan hátt, en þar verður jafnframt hægt að nálgast vísbendingar.

Í hverjum kassa felst afþreying sem er á sama tíma áskorun og gefur krökkum tækifæri til að upplifa sig sem hluta af teyminu. Ráðgátukassar eru skemmtileg leið til að æfa og þroska ályktunarhæfni, lífsleikni og rökhugsun, í gegnum lestur og lausnir ýmiskonar þrauta.“ 

Hér má lesa meira um skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert