„Dreymdi um að verða lögreglukona“

Ásta María Guðmundsdóttir ásamt dætrum sínum tveimur, þeim Singýju og …
Ásta María Guðmundsdóttir ásamt dætrum sínum tveimur, þeim Singýju og Guðdísi. Sú eldri er skírð í höfuðið á ömmu sinni, sem skipar stóran sess í lífi fjölskyldunnar. Ljósmynd/Aðsend

Ásta María Guðmundsdóttir lögreglukona hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, á tvær dætur. Hún hefur starfað með fjölskyldum í vanda og segir að samfélagið geti stutt við þannig fjölskyldur með matarboðum, samskutli og með því að vera til staðar. Hún telur samfélagið geta gert betur þegar kemur að fíknivanda ungmenna í landinu. 

Á sta María lagði stund á félagsráðgjöf og er sem stendur í námi í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn í Háskólanum á Akureyri. Hún starfaði áður sem ráðgjafi hjá barnavernd á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar.

Hvert er besta uppeldisráð sem þú hefur fengið?

„Þegar eldri stelpan mín fæddist kynntist ég hugmyndafræðinni tengslamiðað uppeldi (e. attachment parenting). Það er sennilega það besta uppeldisráð sem ég hef fengið. Hvet alla foreldra til að kynna sér málið.“

En það versta?

„Ég held að öll ráð sem maður fær séu sett fram af góðum hug. Ég tek svo bara til mín það sem hentar mér og mínum dætrum og skil annað eftir.“

Hvað upplifðir þú í æsku sem þú gefur áfram til þinna barna?

„Mamma mín var og er svo lausnamiðuð. Hef reynt að tileinka mér það sama viðhorf í lífinu og segi reglulega við dætur mínar þegar þær eru í krísu að það séu ekki til vandamál, bara lausnir. Svo hjálpumst við að við að finna lausnirnar.“

Hvernig er að starfa í lögreglunni sem kona?

„Það er ótrúlega skemmtilegt. Það eru úrelt viðhorf að konur hafi ekkert að gera í starfi sem lögreglumenn. Vissulega heyri ég eina og eina athugasemd um að konur eigi ekki heima í þessu starfi, en almennt held ég að það finnist öllum skemmtilegra og betra að það sé góð blanda kvenna og karlmanna á vinnustaðnum, enda höfum við hvert og eitt styrkleika sem nýtast við ólíkar aðstæður. Svo er þetta bara eins og hvert annað starf, hentar sumum en öðrum ekki. Vaktavinnan getur þó reynt á fjölskyldulífið og þá er mikilvægt að vera með mjög gott bakland en mér hefur fundist það mesta áskorunin við starfið.“

Elur upp sjálfstæðar og hugrakkar stelpur

Er eitthvað sem þú passar upp á að gera tengt dætrum þínum sem er ólíkt því hvernig aðrir ala upp stúlkur á Íslandi í dag?

„Nei, ég held að stelpurnar mínar fái ósköp hefðbundið uppeldi. Ég hef þó lagt mikla áherslu á að þær séu sjálfstæðar og æfi sig í að vera hugrakkar og spreyti sig á alls konar áskorunum. Það er líka nauðsynlegt að gera mistök, við lærum mest af þeim.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera mamma?

„Það er oft mjög gaman hjá okkur. Mér hefur fundist til dæmis mjög gaman að fylgja þeim eftir í þeim íþróttum sem þær hafa stundað. Félagsskapurinn í kringum íþróttastarfið getur verið ótrúlega skemmtilegur og gefandi og stelpurnar hafa minnst á það hversu gaman þeim finnst þegar ég fylgi þeim eftir á mót og viðburði tengda starfinu. Mér finnst líka ómetanlegt að fylgjast með dætrunum sigra sjálfar sig og ná markmiðum sínum.“

En það flóknasta?

„Að ala upp tvo ólíka einstaklinga og mæta þörfum þeirra beggja getur verið eitt stórt flækjustig. Það þurfa allir tíma fyrir sjálfa sig og svo finnst mér mikilvægt að gefa mér tíma með þeim í sitthvoru lagi. Mér þykir samt flóknast að gera þetta ein og stóla algjörlega á sjálfa mig í stórum ákvörðunum.“

Fjölskyldur í vanda þurfa stuðning

Nú hefur þú reynslu af því að starfa með foreldrum í vanda, hver er þín skoðun á málaflokknum?

„Ég tel að margir foreldrar sem eru í vanda þurfi bara smá stuðning og ráðgjöf til að sinna foreldrahlutverkinu betur. Oft þurfa þeir bara aðstoð til að komast yfir erfiðan hjalla og fínpússa ákveðin uppeldisatriði. Ég tel einnig mikla þörf á því að sameina þá þjónustu sem stendur fjölskyldum til boða þar sem þetta getur verið mikill hrærigrautur og ég tel foreldra oftar en ekki vita hvaða þjónusta standi til boða. Þá væri frábært ef uppeldisráðgjafar og fjölskyldumeðferðafræðingar væru starfandi í hverju bæjarfélagi og óhikað ættu allar fjölskyldur að leita til þeirra.“

Hvernig getum við sem samfélag stutt betur við aðra foreldra sem gætu þurft á okkur að halda?

„Það skiptir miklu máli að foreldrar í vanda upplifi að þeir fái stuðning og hvatningu við uppeldi barna sinna. Flestir geta leitað til ömmu og afa og annarra náinna ættingja en það eru ekki allir svo heppnir. Bara það að við séum tilbúin að aðstoða þessa foreldra, þó að ekki væri nema með matarboði, pössun eða samskutli, skiptir máli. Það að upplifa sig ekki einan er svo mikilvægt.“

Efst í huga fíknivandi ungmenna

Hvað þarf samfélag að hafa til að börnin okkar þrífist hér?

„Fyrst og fremst góða velferðaþjónustu, gott menntakerfi og góða heilbrigðisþjónustu. Við ætlum að styrkja þessa þætti og þá ekki síst geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. Ég tel okkur geta gert svo miklu betur þar. Það þarf líka að efla forvarnir og er mér efst í huga fíknivandi ungmenna. Við missum of mörg ungmenni á hverju ári sem hafa misnotað lyfseðilsskyld lyf og þurfum við að setja fullt af fjármagni í það að standsetja meðferðaúrræði fyrir þennan hóp og stórefla fræðslu til bæði ungmenna og foreldra.“

Áttu þér draum um eitthvað sem gæti orðið til þess að börnum í landinu liði betur?

„Fyrsta skrefið væri að fjarlægja farsíma úr grunnskólunum. Ég veit um nokkra skóla sem hafa tekið þetta upp og hafa náð frábærum árangri í þeim efnum og það væri snilld ef fleiri skólar fylgdu í fótspor þeirra.“

Hvað dreymdi þig um að verða sjálf sem barn?

„Ég sá alltaf fyrir mér að starfa við einhverskonar ráðgjöf en draumurinn var að verða lögreglukona. Einn daginn kom svo tækifærið upp í hendurnar á mér og ég stökk á það. Ég finn líka að menntun mín í félagsráðgjöf nýtist í lögreglustarfinu og hugsa að í framtíðinni muni ég reyna að samtvinna þessa reynslu og ná mér í menntun sem sameinar þetta tvennt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert