Ertu skemmtikraftur eða foreldri?

Ást okkar til eigin afkvæma fer oft og tíðum yfir …
Ást okkar til eigin afkvæma fer oft og tíðum yfir öll eðlileg mörk. mbl.is/Thinkstockphotos

Ég er ekkert alveg viss um að fólk myndi leggja út í þá vegferð að eignast afkvæmi ef það vissi hvað biði þess þegar barnið er fætt. Það að vera foreldri reynir á allar taugar líkamans, hverja einustu frumu og hvern einasta vöðvahóp svo ekki sé minnst á hvað það getur verið snúið andlega. Við erum ekki með sömu spil á hendi þegar kemur að okkar eigin afkvæmum og öðru fólki. Okkur þykir þau náttúrlega fallegri og betur gefin en allir aðrir í þessum heimi sem gerir það að verkum að við eigum erfiðara með að setja mörk. Við gerum eitthvað fyrir börnin okkar sem við myndum aldrei nokkurn tímann gera fyrir neinn annan í heiminum. Og gerum ekki stórmál úr einhverju sem börnin okkar gera sem við myndum undir öðrum kringumstæðum brjálast yfir.

Ást okkar til eigin afkvæma fer oft og tíðum yfir öll eðlileg mörk.

Eins fallegt og gott það er að elska heitt og innilega þá fylgja því líka margir gallar. Við gerum engum gott með því að hefja barnið upp til skýjanna og það græðir ekkert barn neitt á því að fá allt og vera ekki sett mörk. Börn sem alin eru upp við að fá allan heiminn og eru ekki alin upp geta lent harkalega í því þegar hið raunverulega líf tekur við og börnin komast út fyrir sápukúlu mömmu og pabba.

En hvernig eigum við að ala börnin okkar upp?

Ef það væri til einhver ein formúla þá værum við náttúrlega í toppmálum en það er því miður ekki þannig. Eitt eru þó flestir sérfræðingar sammála um og það er að foreldrar séu með skýran ramma utan um börnin sín svo börnin upplifi ekki óöryggi.

Það skiptir líka miklu máli að börnin geti stólað á foreldra sína og geti treyst því að það sem mamma og pabbi segja sé satt og rétt. Og ef mamma og pabbi lofa einhverju þá sé staðið við það. Þetta á líka við um mörkin. Það þýðir víst lítið að hóta barninu einhverju ef ekki er staðið við það.

Auðvitað eru afkvæmi okkar ekkert hress með það þegar reglurnar eru hertar eða ramminn þrengdur. Þá skiptir máli að standa í lappirnar og muna að foreldrahlutverkið snýst um að ala upp, móta og styðja. Foreldrar eru nefnilega ekki skemmtikraftar. Við eigum til að gleyma því allt of oft.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »