Sonurinn vill enn klæðast kjólum

Megan Fox og tveir af sonum hennar.
Megan Fox og tveir af sonum hennar. Skjáskot / Daily Mail

Noah, sonur leikarahjónanna Megan Fox og Brians Austins Greens, vill enn klæðast kjólum. Hann er nú orðinn sex ára gamall og segir Fox að krakkarnir stríði honum stundum í skólanum. 

Fox sagði í viðtali við The Talk að sonur hennar væri mikið að hugsa um tísku og fengi stundum að klæða sig í það sem hann vildi. Stundum yrðu kjólar fyrir valinu, stundum ekki.

„Stundum klæðir hann sig sjálfur og hann er hrifinn af kjólum, stundum, og ég sendi hann í mjög frjálslyndan hippaskóla, en jafnvel þar, hérna í Kaliforníu, stríða strákar honum og segja „strákar klæðast ekki kjólum“ eða „strákar klæðast ekki bleiku“,“ sagði Fox.

Hún sagðist því vera að kenna honum að standa með sjálfum sér og láta ekki álit annarra skipta sig máli. 

„Hann fór í kjól í skólann fyrir tveimur dögum og þegar hann kom heim spurði ég hann hvernig það hefði verið, hvort einhverjir hefðu sagt eitthvað. Og hann sagði: „Já, allir strákarnir hlógu þegar ég kom inn, en mér er alveg sama. Ég elska kjóla of mikið,““ sagði Fox.

Hún segir son sinn einnig hanna og teikna föt. Hann hefur líka skoðun á fatavali móður sinnar og kemur með henni í mátun. „En hann er enn bara sex ára þannig að þegar ég fer í mátun, eins og ég gerði nýlega, þá var ég í gulum kjól og hann lagaði hann til á mér og sagði að ef við gerðum þetta svona liti kjóllinn út eins og bleyja,“ sagði Fox.

mbl.is